132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Sjúkraflutningar í Árnessýslu.

158. mál
[19:49]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Á Suðurnesjum sjá Brunavarnir Suðurnesja um sjúkraflutninga á því svæði. Sveitarstjórnarmenn á svæðinu telja að ekki séu greiddar nægilega háar fjárhæðir fyrir þann rekstur sem þar fer fram. Mér sýnist að það hafi verið mat þeirra sem stjórna Brunavörnum Árnessýslu að þeir fjármunir sem ráðuneytið var tilbúið til að láta renna í þann rekstur hafi einfaldlega ekki verið nægilega miklir til að reksturinn gæti borið sig.

Því óttast ég að þær fjárhæðir sem fara til sjúkrahússins á Selfossi til að reka þessa þjónustu séu ekki nægar til að gera það og ég óttast það einnig að sá halli sem verður á þessari starfsemi, ef hann verður fyrir hendi, bætist þá við þann halla sem verið hefur á rekstri sjúkrahússins en verði ekki bættur.

Því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra: Óttast hann ekki að ef halli verður á rekstri sjúkraflutninga að það komi niður á annarri starfsemi sjúkrahússins?