132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Aðgengi að hollum matvælum.

233. mál
[19:57]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Hv. 7. þm. Suðvest. hefur beint til mín fyrirspurn um aðgengi að hollum matvælum. Hv. þingmaður spyr:

„Er ráðherra reiðubúinn að beita sér fyrir því innan ríkisstjórnarinnar að niðurgreiðslum á landbúnaðarafurðum, innflutningsgjöldum og sköttum á matvælum verði breytt og þeim beitt til þess að lækka verð, auka framboð og auðvelda þannig aðgengi að hollum matvælum fyrir almenning hér á landi?“

Ég vil fyrst taka fram að ég tel þetta mál afar mikilvægt, hollusta matvæla, og tel það mikilvægt heilsufarsmál. Því er til að svara, eins og kom fram reyndar í máli fyrirspyrjanda, að Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra hefur skipað nefnd sem greina á vanda sem tengist óhollu mataræði, offitu, átröskun og hreyfingarleysi og koma með tillögur að samræmdum aðgerðum til að taka á vandamálum sem tengjast þessu. Forsætisráðuneytið skipaði þá nefnd vegna þess að málið snertir fleiri ráðuneyti en heilbrigðisráðuneytið þó að þetta sé mikilvægt heilsufarsvandamál.

Er nefndin skipuð í kjölfar þess að Alþingi ályktaði 11. maí 2005 að fela ríkisstjórninni að undirbúa samræmdar aðgerðir til eflingar lýðheilsu á Íslandi með hollara mataræði og aukinni hreyfingu. Jafnframt að faghópur á vegum forsætisráðuneytisins skyldi settur á laggirnar til að greina þann vanda, bæði orsakir og afleiðingar.

Mér finnst starf nefndarinnar afar mikilvægt og ég mun fylgjast náið með starfi hennar enda á heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra fulltrúa í henni. Ég geri ráð fyrir að meðal viðfangsefna nefndarinnar verði sú spurning sem hv. þingmaður beinir til mín hér í dag. Ég tel hins vegar að nefndin verði að fá tóm til að vinna að þessu mikilvæga málefni og leggja fram niðurstöður sínar og ég geri ráð fyrir að þegar þær niðurstöður liggja fyrir taki ríkisstjórnin afstöðu til þeirra.

Ég er því ekki tilbúinn á þessu stigi að lýsa afstöðu minni í málinu fyrr en niðurstöður nefndarinnar liggja fyrir og tillögur og mér finnst það reyndar ekki rétt þar sem nefndin á að fá að starfa án þess að ráðherrar séu fyrir fram búnir að ákveða niðurstöður hennar.

Virðulegi forseti. Ég vona að ofangreint svar svari að einhverju leyti spurningum hv. þingmanns.