132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Aðgengi að hollum matvælum.

233. mál
[20:02]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Til að svara hv. síðasta ræðumanni vil ég segja að almennt fjölbreytt vöruúrval hér af hollum vörum er dýrara. Þarna er allt undir innflutt og framleitt hér á landi og ég var að ná yfir allt það heildarframboð. Það er almennt dýrara. Óhollari varan er því miður almennari í hillum hér á landi heldur en sú holla. Þessu viljum við breyta og ég tel að við viljum öll breyta því í sameiningu eftir að við samþykktum tillögu þessa efnis síðasta vor.

Ástæðan fyrir því að ég legg þetta hér inn, þ.e. hvort við getum breytt styrkjakerfinu í landbúnaði og breytt með einhverjum hætti skattlagningu og innflutningsgjöldum, er sú að ég tel að við á Alþingi eigum að leggja fram hugmyndir um hvaða leiðir þessi faghópur geti farið og hann síðan metið það.

Ég verð síðan að lýsa yfir örlitlum vonbrigðum með svör hæstv. ráðherra vegna þess að í ágætu ávarpi sem hæstv. ráðherra hélt á matvæladegi Matvæla- og næringarfræðafélags Íslands 14. október síðastliðinn og er að finna á vefsíðu heilbrigðisráðuneytisins segir hæstv. ráðherra orðrétt, með leyfi forseta:

„Hér má auðvitað ekki gleyma þætti stjórnvalda sem tengist stefnumótun ýmiss konar, laga- og reglugerðasetningu og skattlagningu.“

Þetta segir hann í tengslum við það að hægt sé að beita fjölbreyttum aðferðum við að hafa áhrif á fæðu- og mataræði fólks.

Þessum hluta í ávarpinu fagnaði ég verulega og bjóst við að heyra fleiri slíkar hugmyndir frá hæstv. ráðherra í dag vegna þess að ég tel allt vera undir þegar við ætlum að leggjast í stefnumótun til þess að breyta hér lífsháttum og bæta.