132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Byggðakvóti fyrir Bíldudal.

229. mál
[20:16]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni fyrir að taka upp umræður um stöðuna á Bíldudal. Eins og bæði hv. þingmaður og hæstv. ráðherra fóru í gegnum þá er þetta alvarlegt mál sem við höfum fjallað um í sumar án þess að nokkur endanleg niðurstaða hafi fengist.

Það er alveg hárrétt hjá ráðherra, sem hann sagði eða lagði áherslu á, að í þessu samfélagi er ekkert eigið fé til að leggja á móti fiskveiðiheimildum eða stuðningi. Þetta verður að koma, nánast í heild sinni, utan frá. Hæstv. ráðherra rakti möguleika á úthlutun á byggðakvóta. Sá kvóti hlýtur að vera til nokkurra ára, ekki bara til eins árs í senn, því að annars verður þetta svo óöruggt. Ég vil því spyrja hann: Er það hugmyndin að það verði til nokkurra ára, virðulegi forseti?