132. löggjafarþing — 19. fundur,  10. nóv. 2005.

Hreyfanleiki starfsfólks og þjónustu eftir stækkun ESB.

[10:47]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það hafa verið rök fyrir þeirri almennu reglu sem Íslendingar hafa fylgt að skilyrða komu erlends fólks í atvinnuleit því að það eigi vinnu vísa hér í landinu. Þetta hefur verið hin almenna regla, að tengja atvinnuleyfi atvinnuástandinu í landinu.

Ég vil segja tvennt um þetta varðandi þá undantekningu sem gerð er á þessari almennu reglu og lýtur að hinu Evrópska efnahagssvæði. Í fyrsta lagi finnst mér aldrei hafa verið mjög geðfelld þessi mismunun sem við búum annars vegar þegnum á hinu Evrópska efnahagssvæði og hins vegar verkafólki og launafólki í atvinnuleit frá öðrum hlutum heimsins.

Í öðru lagi hef ég um það vaxandi efasemdir að það sé almennt rétt að takmarka frelsi fólks sem fara vill landa í milli í leit að atvinnu. Það sem meira máli skiptir, og hefur verið vakin athygli á hér við þessa umræðu af hv. málshefjanda, er að atvinnuástandið er það sem á endanum skiptir máli. Svo eru það þær reglur og lög sem eru við lýði. Lögum og reglum sem við höfum er ógnað á tvennan hátt, annars vegar af óprúttnum atvinnumiðlunum og atvinnurekendum sem hreinlega fara á bak við lögin og hins vegar þeim tilskipunum sem eru á teikniborðinu hjá Evrópusambandinu. Þar vísa ég í þjónustutilskipunina og þar tel ég að við þurfum að vera vel á verði.

Ég tel því að forgangsverkefni okkar í þessum málum sé að styrkja íslenska lagaumgjörð til verndar erlendu verkafólki sem kemur hingað í atvinnuleit. Þar hef ég áður vísað á þau frumvörp sem við höfum lagt fram, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, og hafa legið hér óafgreidd fyrir þinginu.