132. löggjafarþing — 19. fundur,  10. nóv. 2005.

Hreyfanleiki starfsfólks og þjónustu eftir stækkun ESB.

[10:54]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er gaman að hlusta hér á fulltrúa Sjálfstæðisflokksins tala um innri markað Evrópusambandsins, að hann sé mikilvægur fyrir hagkvæmni og sveigjanleika. Það vantaði bara einhvern veginn að það þyrfti að sækja um aðild fannst manni hér (Gripið fram í.) í ræðunni. Það er því svolítið gaman að hlusta á þessa umræðu.

En það er alveg rétt sem kom hérna fram að þessi frjálsa för fólks skapar sveigjanleika og hagkvæmni. Við heyrum núna að Samtök atvinnulífsins vilja opna meira og taka þessar takmarkanir út. Það er vegna þess að sjónarmiðin eru þau að hér sé þensla og það þurfi að auka aðgengi fólks að vinnumarkaðnum til þess að minnka líkurnar á þrýstingi á kaup og kjör t.d. sem íslenskt samfélag gæti hugsanlega ekki staðið undir. Það eru sjónarmiðin sem gilda í þessu.

Á sama tíma eru önnur sjónarmið sem segja: Þetta er lítið samfélag. Við erum innan við 300 þúsund manns. Þetta er viðkvæmt samfélag að því leyti og við skulum hafa hér takmarkanir af því að við þurfum að hafa einhverja stjórn á því hvað streymir hér inn mikið af erlendu vinnuafli. Við viljum hafa landið opið að því leyti að það geti komið, en við viljum líka geta tekið vel á móti þessu fólki, sérstaklega ef það ílengist hér og verður hluti af íslensku samfélagi. Þá viljum við að þessi hópur samþættist inn í samfélagið þannig að við fáum ekki þau vandamál sem menn hafa séð hafa skapast víða á Norðurlöndunum og ég tala nú ekki það sem er að gerast í Frakklandi, þó að ég sé alls ekki að spá því hér. Við viljum taka vel á móti þessu fólki og við viljum vera í stakk búin til þess að það geti orðið hluti af hinu íslenska samfélagi.

Varðandi skýrsluna þá kemur fram í henni að þar sem hafa verið frekar stífar takmarkanir, eins og á Íslandi, hefur verið minni pressa á umsækjendur um vinnu. Þetta hefur gilt bæði á Íslandi og í Finnlandi. En allt annað er uppi á teningnum í Noregi þar sem menn hafa verið mun opnari.

Ég vil taka undir með hæstv. ráðherra að það er mjög mikilvægt að aðilar vinnumarkaðarins komi að þessu máli. Hér á landi hafa þeir haft mjög mikið að segja um kaup og kjör að sjálfsögðu og um umhverfi vinnumarkaðarins og við eigum að vera í góðu samráði við þá varðandi það hvort við höldum áfram (Forseti hringir.) þessum takmörkunum eða ekki.