132. löggjafarþing — 19. fundur,  10. nóv. 2005.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar 2004.

[11:30]
Hlusta

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða skýrslu Ríkisendurskoðunar og m.a. umsvif og árangur þessarar stofnunar Alþingis á árinu 2004. Ég átti þess kost að taka þátt í því með forsætisnefnd Alþingis að heimsækja stofnunina nú í vikunni og mér fannst það mjög áhugavert. Við fengum þar upplýsingar um hvað er á döfinni. Við fengum upplýsingar um verkefnastöðu. Okkur voru kynntar skipulagsbreytingar sem hafa verið í gangi og miða að því að vinna Ríkisendurskoðunar verði enn skilvirkari. Það sem mér fannst til fyrirmyndar varðandi stefnumál stofnunarinnar var að þarna er rekin starfsmannastefna, gæðastefna, menntunarstefna og málstefna sem mér finnst alveg einstakt og vil hrósa stofnuninni sérstaklega fyrir. Og menn eru farnir að huga að jafnréttisstefnu. Hún er kannski ekki alveg jafnlangt komin þar og við hefðum kosið en bara það að sú vinna er komin í gang skiptir mjög miklu máli.

Það kom fram í umræðunni á milli forsætisnefndar og starfsfólks Ríkisendurskoðunar hvað það er mikilvægt að Ríkisendurskoðun geti sinnt frumkvæðisvinnu. Það eigum við að styðja og búa þannig að stofnuninni að hún geti sinnt þeim þætti. Við vitum að það er 20, 30% dýrara að kaupa verkefni eða þjónustu utan stofnunarinnar og við eigum að gera þessari stofnun kleift að vinna að jafnþýðingarmiklum þætti.

Þær stofnanir tvær sem eru á dagskrá á þessum morgni, annars vegar skýrsla Ríkisendurskoðunar og skýrsla umboðsmanns Alþingis, eru feikilega mikilvægar stofnanir. Þessar stofnanir eiga það sameiginlegt að þær eiga að vera sjálfstæðar. Þær eiga að vera óháðar framkvæmdarvaldinu og þeim er ætlað að vera tæki til að tryggja lýðræðisleg vinnubrögð og tryggja að fagleg vinnubrögð séu jafnan viðhöfð við opinberar ákvarðanir og að í hvívetna sé farið að lögum. Alþingi hefur það hlutverk, auk þess að vera löggjafarþingið og setja lög, að veita framkvæmdarvaldinu aðhald og tryggja að í hvívetna sé rétt að farið. Þessar stofnanir eru þess vegna annars vegar tæki okkar Alþingis og hins vegar jafnframt tæki sem við ætlun að nota til að tryggja réttlæti og réttsýni gagnvart borgaranum. Það er afar mikilvægt þegar við erum að búa að þessum stofnunum og skoða skýrslur þeirra að hafa þetta í huga.

Við eigum því láni að fagna að báðum þessu mikilvægu stofnunum er stýrt af mjög hæfum einstaklingum með góðan faglegan bakgrunn og að þeir hafa fengið til starfa með sér gott starfslið. Þetta er afar mikilvægt.

Eins og ég hef nefnt hér er það grundvallaratriði varðandi báðar þessar stofnanir að þær séu frjálsar og óháðar og að tækið sem þær eru nýtist til fulls. Ekki er deilt um að umboðsmaður Alþingis sé óháð embætti. Hins vegar vitum við að ekki er alltaf farið að athugasemdum umboðsmanns. Umboðsmaður Alþingis hefur ítrekað komið með ábendingar vegna mannaráðninga ríkisins í ráðuneytum. En þrátt fyrir að það hafa komið alvarlegar ábendingar til viðkomandi ráðherra um ferli eða aðferðir við mannaráðningar eftir að óskað hefur verið eftir skoðun á slíku við t.d. embætti umboðsmanns, þá upplifum við að haldið er áfram að stunda ófagleg vinnubrögð. Mér er þetta mál hugleikið og hef á Alþingi, eins og þingmönnum er kunnugt, flutt ásamt nokkrum þingmönnum frá Samfylkingunni þingmál um að kanna reynslu nágrannaþjóða okkar af þeim aðferðum sem þar eru notaðar við að aðskilja pólitískar og faglegar skipanir eða mannaráðningar í ráðuneytum, sem sagt æðstu embættismanna.

Við skulum þess vegna gera okkur grein fyrir því að þarna er verið að vinna gífurlega mikilvægt starf. Mikil vinna hefur farið í að skoða hvernig var á haldið. Síðan kemur niðurstaðan og ábendingin. En það er okkur til vansa að ekkert gerist. Þetta nefni ég varðandi skýrslu umboðsmanns Alþingis, sem ég er þó ekki að taka á dagskrá núna. En ég hlýt að nefna það sem er sameiginlegt fyrir báðar skýrslurnar. Vík ég þá aftur að skýrslu Ríkisendurskoðunar sem er að sjálfsögðu það sem við ræðum núna.

Þá komum við að því sem er grundvallaratriði, þ.e. að þessar stofnanir séu frjálsar og óháðar stofnanir. Fyrir mér er það umhugsunarefni að Ríkisendurskoðun, sem er stofnun Alþingis og er og á að vera sjálfstæð stofnun, tekur við beiðnum frá Alþingi um að tiltekin mál séu skoðuð. Hún tekur við beiðnum frá ráðherrum og hún tekur við beiðnum frá stofnunum. Hún getur hafnað öllu nema beiðnum frá forsætisnefnd Alþingis. En hún tekur við beiðnum frá þessum aðilum og fer í vinnu eða skoðun á einhverjum tilteknum málum að ósk framkvæmdarvaldsins. En þetta er stofnunin sem á að tryggja fyrir okkur aðhaldið að framkvæmdarvaldinu. Það er þannig að mörgum finnst þess vegna að hlutleysisstaða Ríkisendurskoðunar geti við tilteknar aðstæður lent á gráu svæði. Mér finnst að við eigum að vera meðvituð um þetta og við eigum að tryggja að staða Ríkisendurskoðunar sé eins skýr og hugsanlegt er varðandi það hlutverk sem við ætlum henni.

Virðulegi forseti. Þá vil ég víkja að skýrslunum. Hvað gerum við við skýrslurnar? Ég er ekki sammála hv. þingmanni Ögmundi Jónassyni miðað við hans málflutning hér fyrir nokkrum mínútum. Þessar stofnanir skoða mál, m.a. að beiðni okkar. Við fáum skýrslur eða stjórnsýsluúttektir. Þær eru lagðar í okkar hendur. Það er væntanlega ekki á ábyrgð þessara stofnana að fylgja þeim eftir. Það er okkar. Við eigum að fylgja skýrslunum eftir en gerum það ekki. Það er engin eftirfylgni um það hvort farið var að ábendingunum eða hvort unnið er með aðfinnslur við vinnubrögð. Þetta held ég að sé mál sem við í forsætisnefnd eigum að setja á oddinn að setjast yfir.

Ég hef nefnt hér mannaráðningar. Ég ætla líka að nefna eitt mál sem ég fór sérstaklega vel ofan í og hef þekkt alveg frá því að ég var félagsmálaráðherra á árunum 1994–1995. Það er þjónustusamningur við Sólheima. Það hefur oft verið gagnrýnt að of mikill losarabragur hafi verið á samskiptum ríkis og þessarar stofnunar hvað varðar fjárveitingar og nýtingu þeirra fjárveitinga sem veittar eru til umönnunar fatlaðra.

Ríkisendurskoðun hefur unnið margar skýrslur um þetta tiltekna mál og tvær fyrir mjög skömmu síðan. Ég fór ofan í þessar skýrslur sérstaklega vegna þess að í ein þrjú ár var enginn þjónustusamningur í gangi við þessa stofnun. Þó streymdi fjármagn frá Alþingi til stofnunarinnar án þess að nokkuð væri vitað hvort fyrri reglur giltu eða ekki. Þrátt fyrir að ábendingar væru um að þarna, eins og í öllum öðrum þjónustusamningum, þyrfti að gera vel, að þarna þyrfti að tryggja að kveðið væri á um fyrir hvað væri greitt, þá var gerður nýr þjónustusamningur, dýrari en þeir fyrri. Ekki er kveðið á um það í þeim þjónustusamningi hvað varðar ráðningu starfsfólks hve margir skuli ráðnir, ekki hvers konar menntunar sé þörf, ekki fjallað um kröfur eða kvaðir. Það er eingöngu ákveðið að sinna skuli tilteknum fjölda vistmanna. Ég hef haldið því fram að ef Alþingi mundi að þremur árum liðnum óska eftir að Ríkisendurskoðun gerði skýrslu um hvort staðið hafi verið við þær skuldbindingar sem krafist hefði verið samkvæmt samningi þá gæti hún ekki gert það vegna þess að kvaðirnar eru engar og í engu samræmi við aðra þjónustusamninga sem gerðir eru í öðrum stofnunum ríkisins og það er líka ósanngjarnt gagnvart stofnunum ríkisins og þeim þjónustuaðilum sem gerðir eru þjónustusamningar við.

Hvert er hún að fara, spyrja nú eflaust alþingismennirnir sem hér hlýða á umræður. Ég er að benda á að okkur vantar tæki til eftirfylgni. Við eigum að geta ætlast til að því sé svarað hvernig brugðist verður við gagnrýni. Ef gagnrýni hefur komið fram eða ábendingar til ráðherra eða ríkisstofnunar hlýtur Alþingi að þurfa að fá svör við því hvað var gert með þær aðfinnslur, hvað var gert með þær ábendingar. Alþingi eða forsætisnefnd, eða hvernig við veljum að haga okkur, metur þá hvort málinu sé farsællega lokið. Því lýkur ekki. Það er í skýrslu uppi í hillum þingmanna og fæstir vita hvernig fór með málið. Við rífumst um það seinna. En við gerðum ekki það sem hefði þurft.

Ég var mjög ánægð með ræðu hv. 5. þm. Reykv. s., Sólveigar Pétursdóttur, þar sem hún sagði hér í umræðunni að hún mundi senda þessa skýrslu til formlegrar meðferðar í nefnd. Það er eitt skref. Ég velti því fyrir mér hvort einhver aðili, e.t.v. rannsóknarnefnd á vegum þingsins, ætti hverju sinni að einhverjum tilteknum tíma liðnum að skoða hvað var gert, hvernig ráðuneytið brást við, hvernig ráðherra brást við gagnrýni, hvernig haldið var á málum í næsta þjónustusamningi eða næsta verkefni sem hafði verið ábótavant áður.

Það er ófullnægjandi fyrir stofnun með virðingu fyrir sjálfri sér þegar fólk er af fullum krafti í stóru verkefni, að mánuðum saman sé unnið að skýrslu í fullri alvöru og skýrslunni sé skilað til okkar, löggjafans, en við fylgjum því ekki eftir hvort úrbætur verða eða ekki. Við ræðum skýrsluna e.t.v. og e.t.v. ekki. En þessi ágæta stofnun og þessar ágætu stofnanir vita ekki hvort við kærðum okkur um að svona væri unnið, hvort það var einhvers virði að svona var unnið, af því að við segjum ekki: Þetta var gott. Við ætlum að taka mið af þessum ábendingum og við ætlum að tryggja að þetta gerist ekki aftur.

Virðulegi forseti. Þetta eru mín orð um skýrslu Ríkisendurskoðunar. Ég hef að litlu leyti farið inn á tilsvarandi mál varðandi stofnun umboðsmanns Alþingis en þó eingöngu hvað varðar það að koma með ábendingar og skýr skilaboð um að ekki sé allt með felldu á einhverjum stað og það er okkar að bæta úr því.