132. löggjafarþing — 19. fundur,  10. nóv. 2005.

Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2004.

[11:56]
Hlusta

Sólveig Pétursdóttir (S):

Hæstv. forseti. Alþingi hefur borist skýrsla umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2004 og er hún hér til umræðu.

Hlutverk umboðsmanns Alþingis er að hafa í umboði þingsins eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögum um embættið og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Þetta hlutverk rækir umboðsmaður með því að taka til athugunar kvartanir frá borgurunum auk þess sem hann tekur mál til athugunar að eigin frumkvæði, telji hann ástæðu til þess.

Árleg skýrsla umboðsmanns Alþingis hefur mikla þýðingu og veitir alþingismönnum mikilvægar upplýsingar um starfsemi stjórnsýslunnar og framkvæmd þeirra laga sem sett eru á Alþingi.

Sú skýrsla, sem hér er til umræðu og tekur til ársins 2004, skiptist í fimm kafla. Í fyrsta kafla er að finna almenna umfjöllun um störf umboðsmanns Alþingis og rekstur skrifstofu hans árið 2004. Víkur umboðsmaður þar að helstu viðfangsefnum sínum á árinu. Ég vek sérstaka athygli á þessum hluta skýrslunnar, umfjöllun hans um framkvæmd stjórnsýslulaga og lögmætisregluna.

Umboðsmaður fjallar enn fremur í inngangi sínum um svonefnd frumkvæðismál eða þau mál sem hann tekur upp að eigin frumkvæði. Það er ljóst af skýrslunni að þarna sinnir umboðsmaður mikilvægu aðhaldshlutverki gagnvart stjórnsýslunni og beitir þessari heimild sinni til að hvetja stjórnvöld til að gera almennar umbætur í stjórnsýslunni. Ég tel mikilvægt að Alþingi standi vörð um að umboðsmaður Alþingis geti rækt þetta hlutverk.

Í öðrum kafla skýrslunnar er að finna margvíslegar tölulegar upplýsingar um skráð mál og afgreiðslur þeirra árið 2004. Þar kemur fram að alls voru 323 mál skráð hjá umboðsmanni á árinu og er það nær 10% fjölgun mála frá árinu 2003. Alls bárust umboðsmanni á árinu 320 formlegar kvartanir en að auki tók hann 3 mál upp að eigin frumkvæði. Samtals 279 mál hlutu lokaafgreiðslu á árinu og voru 89 mál óafgreidd í árslok. Af þessum óafgreiddu málum var í 50 þeirra beðið eftir skýringum og upplýsingum frá stjórnvöldum og í 11 málum var beðið eftir athugasemdum frá þeim sem borið höfðu fram kvörtun.

Þá vil ég vekja athygli hv. þingmanna á umfjöllun umboðsmanns um viðbrögð stjórnvalda við tilmælum hans. Þar má sjá að oftast nær hefur verið farið að tilmælum umboðsmanns um endurskoðun á máli, í öllum tilvikum nema tveimur. Og þegar umboðsmaður hefur beint almennum tilmælum til stjórnvalds að gera breytingar á tilteknum vinnubrögðum eða reglum verður ekki betur séð en að ávallt hafi verið farið að ábendingum umboðsmanns eða vilja lýst til þess að fylgja þeim þegar sambærileg mál kæmu næst til úrlausnar.

Ég tel að þetta sé til marks um árangur af starfi umboðsmanns og um leið vitnisburður þess að það sé vilji stjórnvalda að haga afgreiðslum sínum í fyllsta samræmi við réttindi borgaranna og gildandi rétt á sviði stjórnsýslu. Þessi niðurstaða sýnir jafnframt vel hið mikilvæga hlutverk umboðsmanns Alþingis og nauðsyn þess að þingið búi vel að þeirri starfsemi sem fram fer á vegum embættisins.

Í öðrum kafla skýrslunnar er einnig lýst tilkynningum umboðsmanns til Alþingis, ráðherra eða sveitarstjórna um meinbugi á lögum eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum eða framkvæmd sem hann verður var við í athugunum sínum á einstökum málum.

Í skýrslunni er að finna ábendingar umboðsmanns í fimm liðum, m.a. til Alþingis á liðnu ári, um að tilefni kunni að vera til þess að endurskoða tiltekin atriði í lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða framkvæmd.

Þriðji kafli skýrslunnar er fyrirferðarmestur en þar er að finna útdrætti um mál sem umboðsmaður hefur lokið með áliti eða bréfi og ákveðið að birta opinberlega. Ég tel hins vegar rétt að árétta í þessu sambandi að álit umboðsmanns birtast í heild sinni ásamt útdrætti á heimasíðu embættisins jafnóðum og málunum er lokið. Hefur birting álita umboðsmanns á netinu veitt almenningi, starfsfólki stjórnsýslunnar og alþingismönnum greiðan aðgang að niðurstöðum umboðsmanns.

Þá hafa fjölmiðlar einnig sýnt niðurstöðum umboðsmanns verulegan áhuga og flytja þeir gjarnan fréttir af þeim jafnóðum og þær birtast á netinu. Reyndar gerði umboðsmaður nýlega þróun í umfjöllun fjölmiðla af niðurstöðum hans að sérstöku umtalsefni í skýrslunni og velti fyrir sér hugsanlegum áhrifum hennar á viðbrögð stjórnvalda við álitunum.

Umboðsmaður lýsir einnig ákveðnum áhyggjum af viðbrögðum stjórnvalda gagnvart þeim sem leitað hafa til hans þegar niðurstaða liggur fyrir. Ástæða er til að ítreka að það eftirlitshlutverk sem umboðsmaður Alþingis á að rækja í umboði Alþingis byggist á því að almenningur geti leitað til hans sem óháðs aðila og fengið álit hans á gerðum stjórnvalda. Viðbrögð stjórnvalda við niðurstöðu umboðsmanns þurfa því í senn að vera málefnaleg og miða að því að taka afstöðu til þess hvort þörf sé á að bæta úr því sem umboðsmaður telur að gera hefði átt með öðrum hætti. Þannig náum við árangri við að bæta stjórnsýsluna í þágu borgara þessa lands.

Ég átti í gær, ásamt varaforsetum þingsins, ágætan fund með umboðsmanni og starfsmönnum hans. Forsætisnefnd þingsins hefur undanfarin ár heimsótt embættið og átt viðræður við umboðsmann um starfsemi embættisins, bæði um meðferð mála, verksvið umboðsmanns, svo og fjármál embættisins og húsnæðismál. Ég vil lýsa mikilli ánægju með þennan fund og þakka umboðsmanni og starfsfólki hans fyrir velunnin störf og árangursrík á liðnu ári.

Ég vil geta þess sérstaklega að á þessum fundi með umboðsmanni lýsti hann eftir meiri og frekari fræðslu fyrir starfsfólk stjórnsýslunnar. Ég tek undir það með umboðsmanni og fagna því að á árinu 2004 var að frumkvæði forsætisráðuneytisins boðið upp á sex vikna námskeið um stjórnsýslurétt fyrir starfsfólk stjórnsýslunnar.

Þótt fræðsla sé þýðingarmikil þá tel ég rétt að taka undir þau orð umboðsmanns í skýrslunni að mikilvægast er að starfsfólk stjórnsýslunnar tileinki sér umburðarlyndi gagnvart borgurunum og skilning á nauðsyn þess að bæta úr því sem miður hefur farið. Með því nást fram umbætur í stjórnsýslunni og umfram allt betri stjórnsýsla.