132. löggjafarþing — 19. fundur,  10. nóv. 2005.

Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2004.

[12:21]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér skýrslu umboðsmanns Alþingis, svona í hefðbundnum stíl. Þessar skýrslur koma fyrir þingið árlega og ég hef velt því fyrir mér hvort þetta sé rétta formið á umræðu af þessu tagi. Ég vakti athygli á því við umræðu um skýrslu ríkisendurskoðanda fyrr í dag að æskilegt væri að fara inn á nýjar brautir í umræðu um skýrslur frá stofnunum sem heyra undir Alþingi, og vísa þá til Ríkisendurskoðunar og embættis umboðsmanns Alþingis, og efna til umræðna í þingnefndum, á opnum þingnefndarfundum þar sem viðkomandi embættismönnum, umboðsmanni Alþingis og ríkisendurskoðanda, væri gert kleift að svara fyrir sig í þeim tilvikum sem gagnrýni er að þeim beint og skýra mál sitt nánar. Einnig mætti hugsa sér að þeir sem gagnrýndir eru í skýrslum þessara stofnana fái tækifæri til þess að segja sinn hug.

Nú er það svo að álit umboðsmanns Alþingis eru ekki bindandi lagalega, þau eru fyrst og fremst ábendingar. Það er ástæða til að óska embættinu til hamingju með þann mikla árangur sem náðst hefur í starfi embættisins allar götur frá því sú stofnun var sett á laggirnar árið 1988, því yfirleitt er tekið mjög mikið tillit til ábendinga embættisins og það sem út af bregður í því efni er síðan umfjöllunarefni skýrslu af þessu tagi og þar erum við að tala um undantekningarnar.

Auðvitað er ekkert óeðlilegt að þær stofnanir sem gagnrýni er beint að, séu þær ósáttar við niðurstöður umboðsmanns Alþingis, andæfi og setji rök sín fram og við þurfum að skapa þeim vettvang til að koma ábendingum sínum á framfæri. Einnig þegar koma upp hitamál af því tagi sem ég vék að áðan, um hæfi hæstv. forsætisráðherra í tengslum við sölu Búnaðarbankans á sínum tíma til S-hópsins og var til umfjöllunar í sumar. Það kom til kasta Ríkisendurskoðunar og einnig til umboðsmanns Alþingis í kjölfar erindis frá stjórnarandstöðunni, og því væri eðlilegt að unnt væri að efna til umræðu um þau plögg og álitsgerðir sem frá þessum stofnunum koma. Hér gæti ég staðið og rætt svar umboðsmanns Alþingis til stjórnarandstöðunnar um þetta brennandi pólitíska hitamál en embættismaðurinn er dæmdur til að sitja í hliðarherbergi án þess að hafa tækifæri til þess að taka þátt í slíkri umræðu, þannig að hún yrði að sjálfsögðu ekki gefandi fyrir þær sakir. Á opnum fundi þingnefndar þar sem embættismenn sætu fyrir svörum væri hins vegar annað uppi á teningnum. Ég tel því að við eigum að huga að slíku varðandi bæði þessi embætti.

Svar umboðsmanns við erindi stjórnarandstöðunnar vegna hæfis hæstv. forsætisráðherra í tengslum við einkavæðingu og sölu Búnaðarbankans var að mörgu leyti mjög gott tilefni til umræðu. Umboðsmaður slær erindi okkar síður en svo út af borðinu heldur segir að það sé grundvöllur til skoðunar á þessu máli þó að það sé ekki á þeim forsendum sem erindinu var beint til hans.

Til þess að fá málefnalega umræðu legg ég til að við skoðum þetta breytta form.

En ég vil taka fram að við eigum heldur ekki að taka því illa þótt stofnanir sem eru gagnrýndar andæfi eins og ég sagði áðan. Spurningin er hins vegar hvernig við finnum hinn rétta meðalveg í þessu efni. Vegna þess að það er líka mjög alvarlegt ef það gerist, eins og umboðsmaður bendir á í skýrslu sinni, að fruntaleg viðbrögð stofnana, afundin og jafnvel ógnandi verði þess valdandi að almenningur treysti sér ekki til að bera upp kvartanir.

Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson vísaði í þann kafla skýrslu umboðsmanns þar sem hann víkur að þessu og ég ætla að endurtaka hann hér, með leyfi forseta:

„Almennt er það svo að stjórnvöld bregðast af skilningi við athugasemdum umboðsmanns Alþingis og tilmælum hans um að taka þau mál sem hafa orðið tilefni kvörtunar til umboðsmanns að nýju til meðferðar þegar álit liggur fyrir og eftir því er leitað af hálfu þess sem borið hefur fram kvörtun. Það kemur þó af og til fyrir að viðbrögð fyrirsvarsmanna stjórnvalda gagnvart þeim sem leitað hefur til mín vekja hjá mér nokkurn ugg. Ég hef þá fyrst og fremst í huga þau tilvik þar sem ég tel að viðbrögð stjórnvalda séu þess eðlis að þau geti haft áhrif á það hvort almenningur, jafnt einstaklingar sem fyrirtæki, leiti til umboðsmanns Alþingis. Tel ég ástæðu til að gera þetta að umtalsefni hér.“

Það er ástæða til að menn staldri við þetta og taki þessa athugasemd og ábendingu umboðsmanns Alþingis alvarlega. Fyrir okkur á þingi er þá að leita leiða til að beina umræðunni í þann farveg að menn geti svarað gagnrýni sem að þeim er beint á annan hátt en nú er.

Það er annað sem mig langar til að nefna varðandi starf umboðsmanns Alþingis og er í rauninni ekkert bundið við Ísland. Það er hið gráa svæði sem er til staðar á milli þess að horfa til laga annars vegar, og í þessu tilviki stjórnsýslulaga sem eru viðfangsefni umboðsmanns Alþingis, og hins vegar samninga sem samningsaðilar á opinbera markaðnum gera sín í milli. Hvar liggja grensurnar þarna? Ég get nefnt sem dæmi að í Danmörku kom upp deilumál og álitamál hvað þetta snertir. Ég held að ég fari rétt með að það hafi lotið að uppsögnum starfsmanna, nokkuð sem við höfum deilt um hér á landi hvernig eigi að standa að. En þar munu samningsaðilar, ríkið og samtök launafólks á opinberum markaði, hafa gert samninga um hvernig skuli standa að uppsögnum, áminningu og þar fram eftir götunum. Þar var búið til eitthvert ákveðið samningsbundið ferli um hvernig að málum skyldi staðið sem sátt náðist um. Síðan gerðist það að einstaklingur sem sagt var upp störfum, og þar var farið að öllum þessum samningsbundnu ákvæðum, telur að þau hafi brotið í bág við grundvallarreglurnar, grundvallarreglur danskra stjórnsýslulaga.

Nú upphófust miklar deilur um hvað rétt væri. Stjórnsýslulögin eru grunnurinn sem byggt er á. Átti að horfa til hans eða átti að horfa til þeirra samninga sem gerðir höfðu verið? Með öðrum orðum, hafa samningsaðilar rétt til að véla með það sem fjallað er um í lögunum? Í sumum tilvikum eru þetta mjög skýrar línur en í öðrum tilvikum er svo ekki. Og ég verð að segja það að ég freistast dálítið til þess að stilla mér upp með samningsaðilum hvað þetta snertir, við eigum að setja inn varnagla í lögin sem eru þess valdandi að við takmörkum ekki um of frelsi samningsaðila til þess að ráða málum. Þetta er mjög grátt svæði en mikilvægt að skoða og þetta tengist í rauninni öðrum hlutum líka.

Í Evrópusambandinu, svo dæmi sé tekið, fá dómstólar sífellt aukið vægi um alla almenna stefnumótun. Stefnumótun, sem hafði verið á vegum stjórnvalda, pólitískt kjörinna stjórnvalda og samningsaðila á markaði, er í auknum mæli að færast yfir til dómstólanna. Að sjálfsögðu eigum við að fara að lögum í hverju landi en þegar kemur út á hið gráa svæði um túlkun laganna þá eru það dómstólarnir sem taka forustuna. Ég tel þetta vera varhugaverða þróun, ekki síst í ljósi þess að dómstólar í Evrópu og þeir sem stýra þeim eru almennt hægri sinnaðir og vilja sveigja alla þjóðfélagsþróun inn á braut frjálshyggju.

Þetta eru svona almennar athugasemdir sem ég vil vekja athygli á, vekja athygli á þessu gráa svæði sem hlýtur að vera til umræðu innan embættis umboðsmanns Alþingis. En að öðru leyti ítreka ég ánægju með störf þess embættis. Ég tel að það hafi risið undir þeim væntingum sem menn gerðu til þess og ég tel það vera eina af mikilvægustu stofnunum í okkar lýðræðisþjóðfélagi.