132. löggjafarþing — 19. fundur,  10. nóv. 2005.

Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2004.

[13:02]
Hlusta

Sólveig Pétursdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður nefndi sérstaklega þjónustugjöldin. Ég vil nota tækifærið og koma því hér á framfæri sem rætt var einmitt á fundi forsætisnefndar hjá umboðsmanni Alþingis í gær í tengslum við ábendingar varðandi skatta og þjónustugjöld. Þá skýrði umboðsmaður frá því að hann hefði lagt sérstaka áherslu á að hjá stofnuninni ynni sérfræðingur í skattamálum og að þörfin á slíkum sérfræðingi hefði einmitt verið rædd milli fjármálaráðuneytisins og umboðsmanns Alþingis. Mér fannst rétt að láta þetta atriði koma hér fram.