132. löggjafarþing — 19. fundur,  10. nóv. 2005.

Vandi á leikskólum vegna manneklu.

[13:36]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mikið vantar af starfsfólki til kennslu í leikskólum landsins og er staðan nú þannig að ekki hefur náðst að manna allar stöður í mörgum leikskólum. Allt of víða hefur því verið gripið til þess ráðs að senda börn heim einhverja daga í mánuði í þessari neyð. Í mínu ágæta bæjarfélagi, Kópavogi, eru börn í einum af leikskólunum send heim á sex daga fresti svo leikskólinn geti haldið eðlilegu álagi á því starfsfólki sem þar er fyrir.

Það þarf auðvitað ekki að nefna áhrifin sem þetta hefur og óþægindin fyrir alla hlutaðeigandi og veldur þetta miklu álagi á þær fjölskyldur sem fyrir þessu verða, að ekki sé talað um starfsmennina sem fyrir eru. Í mörgum þeim sveitarfélögum sem tekist hefur að manna leikskólana er staðan í járnum og má lítið út af bregða. Sem dæmi getur umgangspest haft veruleg áhrif á starfið.

Sá mikli vandi sem blasir við leikskólum núna vegna skorts á fólki til starfa á leikskólunum er ekki nýjar fréttir þó að óvenjuslæmt ástand hafi skapast í haust vegna þenslu á vinnumarkaði og er búist við að ástandið versni víða aftur verulega um áramót. Vandinn er alls staðar hinn sami og hann er árlegur og ekki bundinn við einstök sveitarfélög eða stjórnmálaflokka sem þar stjórna. Vandinn felst í of mikilli starfsmannaveltu.

Virðulegi forseti. Það þarf nú þegar að ráðast í átak til að hækka það hlutfall starfsmanna sem gerir störf í leikskólum að ævistarfi og á það jafnt við um faglærða sem ófaglærða. Lausnirnar felast meðal annars í tvennu: Í fyrsta lagi verða að koma til verulegar launahækkanir fyrir þessi störf sem eru skammarlega lágt launuð. Ég held að enginn deili um það að þau eru á engan hátt samkeppnishæf. Þar ber ríkisvaldið sína ábyrgð vegna ranglátrar tekjuskiptingar ríkis og sveitarfélaga.

Í öðru lagi verður að ráðast í átak til að fjölga leikskólakennurum. Hlutfall leikskólakennara við störf í leikskólum er í kringum 34% þeirra sem starfa við kennslu. Við eigum að setja okkur þau markmið að hækka þetta hlutfall. Það er umframeftirspurn eftir náminu. Í fyrra var helmingi umsókna um leikskólakennaranám í Kennaraháskólanum hafnað. Helmingi umsókna var hafnað vegna takmarkaðs fjármagns. Þetta voru umsóknir 95 einstaklinga einungis það ár sem hugðu á nám í leikskólakennarafræðum. Þetta er auðvitað óviðunandi ástand, sérstaklega nú þegar það blasir við og hefur reyndar gert árum saman að fjölga verður leikskólakennurum verulega. Þessar frávísanir eru að sjálfsögðu á ábyrgð menntamálaráðherra og skora ég á hana að tryggja aukið fjármagn til námsins til að tryggja megi að fleiri útskrifist af leikskólakennarabraut Kennaraháskólans.

Í þeim hópi sem sækjast eftir þessu námi eru margir sem ekki hafa lokið stúdentsprófi. Þessu fólki verður að hleypa í nám, leikskólastigið þarf á því að halda. Það verður að beita öllum meðulum sem til eru eins og að setja á laggirnar frumgreinabraut, efla leikskólabrautir á framhaldsskólastiginu og opna enn frekar á tækifæri náms með vinnu. Þá þarf að efla starfsmenntunartækifæri fyrir ófaglærða og auka samþættingu leikskólakennaranámsins við aðrar uppeldisgreinar.

Virðulegi forseti. Á leikskólunum er unnið frábært starf. Sveitarstjórnir hafa staðið sig vel við uppbyggingu þeirra og gæðastarf í samvinnu við menntamálaráðuneytið. Nú þurfum við hins vegar að taka næsta skref og stækka þann hóp sem vill gera kennslu í leikskóla að ævistarfi. Við þurfum að finna lausnir til framtíðar og stórminnka hina öru starfsmannaveltu sem leikskólastigið býr við. Til þess að svo megi verða þarf að líta til margra þátta og tel ég að menntamálaráðherra eigi að leika þar lykilhlutverk í samhentu átaki ríkis, sveitarfélaga, starfsmanna, foreldra og samfélagsins alls.

Virðulegi forseti. Ég vil í þessu sambandi beina nokkrum fyrirspurnum til hæstv. menntamálaráðherra:

1. Hvaða leiðir sér ráðherra færar til að efla leikskólakennaramenntun með það að markmiði að fjölga leikskólakennurum meðal starfsmanna leikskólanna?

2. Kemur til greina að mati ráðherra að sett verði á laggirnar sérstök frumgreinadeild fyrir leikskólakennaranám þannig að þeir sem ekki eru með stúdentspróf en hafa góða reynslu og þekkingu úr leikskólakennslu geti átt þar greiðan aðgang?

3. Kemur til greina að auka samþættingu námsins við annað uppeldisnám svo einstaklingar með menntun á öðrum sviðum en uppeldismenntunar eigi greiðari aðgang að leikskólakennarastöðum?

4. Er menntamálaráðherra tilbúin að styrkja starfsnám tengd störfum á leikskólum enn frekar svo ófaglærðir á leikskólum eigi greiðara aðgengi að námi með vinnu?

Að lokum vil ég skora á hæstv. menntamálaráðherra að leggja sitt af mörkum til lausnar á starfsmannamálum leikskólanna til framtíðar í þetta sinn en ekki láta það eftir einstökum sveitarfélögum eins og nú hefur verið gert.