132. löggjafarþing — 19. fundur,  10. nóv. 2005.

Vandi á leikskólum vegna manneklu.

[13:53]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. málshefjanda, Katrínu Júlíusdóttur, fyrir að taka þetta brýna mál til umræðu og hæstv. menntamálaráðherra fyrir svör hennar í upphafi umræðunnar. Ég held að sjá megi af umræðunni að hér deila menn úr öllum flokkum áhyggjum af því ástandi sem er. Leikskólinn er frábært skólastig. Þar hefur blómstrað starf og uppbygging á undanförnum árum og sveitarfélögin eiga sannarlega heiður skilinn fyrir gríðarlega uppbyggingu á því sviði sem nú sér fyrir endann á.

Það er hverjum manni ljóst að nú þarf að vinda bráðan bug að því að efla og styrkja það starf sem þar fer fram, festa það í sessi og lyfta því upp og þar á meðal, eins og fram hefur komið hjá ýmsum ágætum þingmönnum hér, hvað kjörin varðar. Sveitarfélögin hljóta auðvitað að taka það til sín þó að þeim sé þröngt skorinn stakkur í tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga.

Besta leiðin til að efla og styrkja kjör einnar starfsstéttar er auðvitað að efla menntunarstig hennar, starfsnám hvers konar og önnur réttindi. Því kemur sú frétt á óvart sem hér er sögð í umræðunni að helmingi umsækjenda um leikskólakennaranám við Kennaraháskóla Íslands sé hafnað, að 100 manns sé vísað frá námi eins og kom fram í máli hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur. Ég hlýt því að spyrja hæstv. menntamálaráðherra: Er þetta rétt? Vísuðum við 100 manns frá á síðasta ári að leggja stund á nám til að gæta barna okkar og kenna þeim, fólki sem vill sækja slíkt nám, fólki sem eftirspurn er eftir og þörf fyrir? Getur verið að af 200 umsækjendum um nám við Kennaraháskólann hafi 100 verið vísað frá, nærri 40 í fjarnámi og nærri 60 í hinu staðbundna námi? (Forseti hringir.) Vill ekki hæstv. ráðherra gera þetta að forgangsmáli hjá sér án þess að ég sé með þessu að gera hana ábyrga fyrir manneklunni á leikskólunum?