132. löggjafarþing — 19. fundur,  10. nóv. 2005.

Vandi á leikskólum vegna manneklu.

[13:58]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Ég vil eins og aðrir þakka fyrir þessa umræðu sem ég tel afar brýna en leyfi mér jafnframt að efast um að einhver lausn verði fundin hér í dag. Ég vona að umræðan leiði til þess að það verði opnari umræða almennt í þjóðfélaginu um stöðu leikskóla, hlutverk þeirra og gildi í samfélaginu.

Kjarninn í þessu máli er sá að þetta snýst um gildismat þjóðar. Gildismat á sér ýmis birtingarform og eitt þeirra eru laun. Ef við skoðum hvaða laun svokallaðar umönnunar- og menntastéttir hafa, ég er að tala um kennara, hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og þá sem sinna öldruðu fólki á öldrunarstofnunum, þá hefur sannarlega orðið veruleg kaupmáttaraukning á síðustu árum. En ef við berum þau laun saman við þau sem aðrar stéttir hafa í samfélaginu, t.d. í fjármálageiranum, þá er þar himinn og haf á milli. Þetta er þróun sem átt hefur sér stað á löngum tíma og að því er virðist í bara nokkuð mikilli sátt þjóðarinnar. Í því felast auðvitað ákveðin skilaboð þjóðar, í því afhjúpast ákveðið gildismat. (Gripið fram í.) Við hljótum því að spyrja okkur hvort við metum dansinn kringum gullkálf meira en umönnunarstörf. Í 17. júní ræðum stendur ekki á boðskapnum um gildi menntunar, gildi umönnunar en þegar á reynir eins og þróunin hefur verið kemur annað í ljós.

Ég efast ekki um að hv. málshefjandi og hæstv. ráðherra eru mjög sammála um að vilja veg leikskóla sem allra bestan, en svarið er að finna úti í samfélaginu og þjóðin þarf einmitt að fara að svara því hvernig hún í raun og veru metur umönnun, menntun og hin mýkri gildi.