132. löggjafarþing — 19. fundur,  10. nóv. 2005.

Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2004.

[14:22]
Hlusta

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ríkisendurskoðun og umboðsmaður Alþingis eru sjálfstæðar, afar þýðingarmiklar stofnanir sem heyra beint undir Alþingi og hér á þessum morgni hafa farið fram mjög góðar og þarfar umræður um skýrslur þessara tveggja stofnana og margar ábendingar komið fram sem ég trúi að geti leitt af sér enn þá betri vinnubrögð okkar með stuðningi þessara stofnana.

Nú er það svo að þetta eru viðamiklar skýrslur, ekki síst skýrsla umboðsmanns Alþingis, og mjög erfitt að gera þeim skil hér á Alþingi enda engan veginn hægt að fara yfir þær alfarið svo sem áhugavert væri. Á bls. 20 er 5. kafli sem heitir Viðbrögð stjórnvalda gagnvart þeim sem leitað hefur til umboðsmanns Alþingis.

Ég ætla að leyfa mér, virðulegi forseti, með leyfi forseta, að gerast rödd umboðsmanns með því að fara hér yfir á tveimur stöðum það sem umboðsmaður segir í þessum kafla:

„Almennt er það svo að stjórnvöld bregðast af skilningi við athugasemdum umboðsmanns Alþingis og tilmælum hans um að taka þau mál sem hafa orðið tilefni kvörtunar til umboðsmanns að nýju til meðferðar þegar álit liggur fyrir og eftir því er leitað af hálfu þess sem borið hefur fram kvörtun. Það kemur þó af og til fyrir að viðbrögð fyrirsvarsmanna stjórnvalda gagnvart þeim sem leitað hefur til mín vekja hjá mér nokkurn ugg. Ég hef þá fyrst og fremst í huga þau tilvik þar sem ég tel að viðbrögð stjórnvalda séu þess eðlis að þau geti haft áhrif á það hvort almenningur, jafnt einstaklingar sem fyrirtæki, leiti til umboðsmanns Alþingis. Tel ég ástæðu til að gera þetta að umtalsefni hér.“

Síðan fjallar hann um erindi formanns stúdentaráðs Háskóla Íslands og viðbrögð Háskóla Íslands við tilmælum hans sem ég geri ekki að umtalsefni hér en er að finna á bls. 21 í skýrslunni.

Hann segir síðan:

„Ég legg á það áherslu að Alþingi hefur með lögum veitt borgurunum heimild til að leita með sín mál til umboðsmanns Alþingis og það er til þess fallið að hamla því að borgararnir nýti sér þennan möguleika ef viðbrögð stjórnvalda við afskiptum umboðsmanns eru með þeim hætti sem umrætt bréf Háskóla Íslands lýsir.“ — En það er að finna á þessari síðu eins og ég hef getið um.

Svo segir:

„Athugun umboðsmanns Alþingis á máli einstaklings sem ber fram kvörtun hefur þá sérstöðu t.d. umfram rekstur dómsmáls, að ákveði umboðsmaður að taka málið til athugunar er það alfarið ákvörðun hans að hverju hún beinist og er umboðsmanni veittur réttur til að krefja stjórnvöld um þær upplýsingar og skriflegu skýringar sem hann þarfnast vegna starfs síns auk gagna viðkomandi máls. Niðurstaða umboðsmanns byggir því á þeim gögnum og skýringum sem honum eru látnar í té. Það er því augljóslega til þess fallið að vinna gegn tilgangi þess úrræðis sem Alþingi hefur ákveðið að borgurum þessa lands skuli standa til boða ef stjórnvöld svara þeim sem til umboðsmanns hefur leitað og fengið hefur álit hans á þann veg að niðurstaða umboðsmanns hafi byggst á takmörkuðum gögnum og ófullnægjandi upplýsingum. Eða með öðrum orðum að stjórnvaldið hafi ekki látið umboðsmanni í té allar upplýsingar og gögn málsins. Og hvað þá þegar forstöðumaður opinberrar stofnunar fellst ekki á réttmæti tilmæla umboðsmanns um að athugað verði með að rétta hlut þess sem leitaði til umboðsmanns með þeim rökum að afstaða sín byggi á „persónubundnum gögnum og upplýsingum um [þann sem bar fram kvörtunina], störf hans og gerðir hjá [stofnuninni]“. Ég er hér að vísa til þess sem fram kemur um viðbrögð stjórnvalds í máli nr. 3853/2003 sem ég lauk með áliti 5. mars 2004, sjá bls. 99, en tilvitnuð viðbrögð stjórnvaldsins koma fram á bls. 106 í skýrslunni.“

Þarna hefur umboðsmaður í þessum fáu orðum vísað til tveggja mála þar sem hann er í raun að bregðast mjög harðlega við viðbrögðum stjórnvaldsins.

Enn fremur segir umboðsmaður:

„Þróun í fjölmiðlun hér á landi hefur leitt til þess að umfjöllun fjölmiðla er persónulegri og leitast þeir gjarnan við í fréttum sínum að tengja hin einstöku mál við nafngreindar persónur. Þegar ég geri t.d. athugasemdir við störf einstakra ráðuneyta eða jafnvel stofnana eða nefnda sem heyra undir þau þá er sú niðurstaða gjarnan persónugerð í fjölmiðlum með nafni viðkomandi ráðherra og tilheyrandi myndbirtingum. Sjálfur hef ég ekki farið varhluta af þessu hjá ákveðnum fjölmiðlum þótt ég sjái ekkert málefnalegt samhengi milli þess að komast í starfi mínu að ákveðinni niðurstöðu í máli annars aðila en vera síðan í eigin persónu myndskreytingarefni. Mér er hins vegar ekki grunlaust um að þessi þróun í íslenskri fjölmiðlun hafi leitt til þess að breyting hafi orðið á viðbrögðum ákveðinna stjórnvalda“ — ég vek sérstaka athygli þingmanna á þessum orðum — „þegar álit mín og aðrar niðurstöður eru birtar opinberlega. Fyrstu viðbrögð fyrirsvarsmanna stjórnvaldsins felast þá öðru fremur að því að gæta að hinni almennu ímynd viðkomandi stofnunar eða fyrirsvarsmanns hennar í fjölmiðlum fremur en að beinast að efni þess máls sem álit umboðsmanns hefur fjallað um. Dæmi um þetta eru fréttatilkynningar sem stjórnvöld hafa sent frá sér í kjölfar álita umboðsmanns Alþingis. Það er auðvitað ekki nema sjálfsagt og eðlilegt að stjórnvöld skýri sína hlið mála fyrir fjölmiðlum en þá þarf að hafa í huga að þau mál sem umboðsmaður Alþingis fær til úrlausnar lúta ekki að hagsmunum umboðsmanns eða persónu hans heldur á í hlut einstaklingur eða fyrirtæki sem hefur leitað til umboðsmanns vegna afskipta eða ákvörðunar stjórnvaldsins og umboðsmaður hefur í samræmi við lögbundið hlutverk sitt látið uppi álit sitt á henni. Stjórnvöld verða því í viðbrögðum sínum gagnvart fjölmiðlum að gæta að stöðu þess sem leitað hefur til umboðsmanns til að fá álit hans. Ég tel til dæmis of langt seilst þegar stjórnvöld fara að grípa til upplýsinga úr öðrum málum hlutaðeigandi sem þau hafa fjallað um og þá sérstaklega þegar þær lúta að atriðum sem varða persónulega hagi eða gerðir viðkomandi eftir að það mál sem álit umboðsmanns laut að átti sér stað. Það er heldur ekki farsælt eða í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti að sá sem leitað hefur til umboðsmanns lesi um afstöðu ráðuneytis eða stofnunar til hugsanlegrar endurupptökubeiðni í slíkri fréttatilkynningu.“

Virðulegi forseti. Ég hef kosið að láta nægja í ræðu minni um skýrslu umboðsmanns að lesa þessar tvær klausur úr 5. kafla, sem heitir Viðbrögð stjórnvalda gagnvart þeim sem leitað hefur til umboðsmanns Alþingis, vegna þess alvöruþunga sem felst í orðum umboðsmanns. Þessi orð renna stoðum undir það sem hefur verið sagt hér í umræðu á þessum morgni að okkur ber að finna til þess leiðir að geta fylgt eftir álitum umboðsmanns og niðurstöðu Ríkisendurskoðunar á þann veg að tryggt sé að farið sé að álitunum og brugðist við ábendingunum sem fram koma í þessum skýrslum. Verða þetta lokaorð mín í þessari umræðu, virðulegi forseti.