132. löggjafarþing — 19. fundur,  10. nóv. 2005.

Gjaldfrjáls leikskóli.

26. mál
[14:54]
Hlusta

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt sem síðasti hv. ræðumaður benti á á kurteislegan hátt að auðvitað verð ég að skrópa í vinnu minni á Alþingi með því að fara yfir á annan vettvang í bænum, þ.e. (Gripið fram í.) fjármálaráðstefnu sveitarfélaga. Það er svo sem ekki í fyrsta skipti í mínu lífi sem ég á að vera á fleiri en einum stað í einu. En svona er nú okkar starf stundum. Við þurfum að reyna að skipta okkur á milli verkefna. Hvort tveggja er mjög brýnt. Okkur þingmönnum er einnig ætlað hlutverk á fjármálaráðstefnunni. Að því leyti má segja að það sé óheppilegt að slíkir atburðir séu tímasettir þannig að þeir rekist á við fundi Alþingis.

Ég held að við séum sammála um þetta eins og rækilega hefur komið fram, að hér sé um stórt og mikilvægt félagslegt og jafnréttislegt réttindamál að ræða. Það er líka augljóst eins og samfélagið er orðið í dag að þetta skiptir miklu máli í sambandi við stöðu fjölskyldunnar hvað varðar það að báðir foreldrar — í svoleiðis fjölskyldum — vinni úti og að hægt sé að sameina og samræma sæmilega fjölskyldulíf og atvinnuþátttöku. Það sem kannski mestu máli skiptir þó er að við viljum trúa því að með góðum faglegum leikskólum sem öll börn eigi kost á að sækja þá sé velferð þeirra og uppeldi vel tryggt að þessu leyti og það sé mikilvægur liður í því að tryggja hér jafnréttisþjóðfélag og fjölskylduvænt samfélag að þessi kostur standi öllum til boða á jafnréttisgrundvelli.

Það er nú ekki svo oft, því miður, á þessum síðustu tímum sem við höfum rætt um og þokað áfram raunverulegum framfara- og uppbyggingarmálum í velferðarsamfélagi okkar. Það er allt of oft hlutskipti okkar hér að standa í blóðugri vörn fyrir það sem þó hefur þegar tekist að byggja upp. Ég held því að menn eigi að reyna að sameina kraftana og gleðjast yfir því að berjast í málum af (Forseti hringir.) þessu tagi sem reyndar eiga að vera hafin yfir pólitík. (Forseti hringir.) Og sem betur fer er það nú þannig að þetta mál (Forseti hringir.) fær stuðning úr öllum áttum.