132. löggjafarþing — 19. fundur,  10. nóv. 2005.

Vegagerð um Stórasand.

43. mál
[15:24]
Hlusta

Flm. (Halldór Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef oft kveðið mjög skýrt að orði um það að ég tel að flugvöllurinn eigi að vera kyrr á sínum stað og ég hef bent á þann gífurlega fórnarkostnað sem því fylgir að færa hann þaðan. Jarðgöng sem hönnuð hafa verið hér — ég hygg að það sé gert ráð fyrir þremur eða fjórum akstursreinum í hvora átt ef þarna á að koma 20 þúsund manna byggð, bæði undir Skólavörðuholtið og eins undir Öskjuhlíðina. Það er verið að tala um að setja svo og svo margar götur í stokk og ég kann ekki alla þá þulu. En síðasti áhugamaðurinn um að leggja Reykjavíkurflugvöll niður sagði við mig, og hafði tvo dollaraglampa í augum, að hann hugsaði sér að Reykjavíkurflugvöllur yrði 40 þúsund manna byggð, svo menn geta nú rétt velt því fyrir sér á hvaða leið menn eru. (Gripið fram í.) Við Gísli Marteinn þekkjumst því miður ekki nógu vel til að við hittumst á hverjum degi, svo að það er nú ekki svo. En ég veit að hv. þm. Kristján Möller er forvitinn og honum finnst best ef það sem honum er sagt er ekki allt of öruggt.

Á hinn bóginn vil ég segja við hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson að í okkur er engin uppgjöf. Við erum að tala hér um það að stytta leiðina um 40–80 km. Það er verið að tala um það í Vopnafirði að stytta leiðina til Egilsstaða, heimta jarðgöng af því að það er 40 km stytting. Rökin fyrir Þverárfjalli frá Sauðárkróki yfir í Skagaströnd, það er nógu nálægt, yfir í Laxárdal, rökin fyrir þeim vegi voru að það væri hægt að stytta leiðina til Reykjavíkur um hvað, 20 til 25 km? Hér erum við að tala um 40–80 km eftir því hvort við tökum Kaldadal með eða ekki.