132. löggjafarþing — 19. fundur,  10. nóv. 2005.

Vegagerð um Stórasand.

43. mál
[15:36]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég geri ekki lítið úr 40 km styttingu milli Akureyrar og Reykjavíkur en hún verður kannski ekki eins mikil og hv. þingmaður er að tala um ef tekið er tillit til þeirrar styttingar sem gert er ráð fyrir að komi til framkvæmda á þjóðvegi 1, sem eru kringum 25 km eftir því sem ég kemst næst. (HBl: Þetta er ...) Og síðan finnst mér eins og hv. þingmaður sé að renna sér fram hjá því að auðvitað verður þessi stytting að verða meiri. Það kom greinilega fram frá hendi forsvarsmanna þessarar leiðar þegar þeir kynntu hugmyndir sínar að þeir gerðu alveg ráð fyrir því að ríkið mundi fara í framkvæmdir, endurbætur á hinum hluta leiðarinnar um Þingvallasvæði til Reykjavíkur, þannig að styttingin yrði enn þá meiri. Þá þurfa menn líka að tala um það eins og það er. Það er ekki eitthvað sem ég er að vísa út í hafsauga eða eitthvað slíkt en það þýðir ekkert annað en horfast í augu við allan pakkann eins og menn komast stundum að orði. Ég geri ekkert lítið úr því að vegur um þetta svæði muni auka möguleika þegar þar að kemur. Spurningin er ekki um það heldur þá forgangsröðun sem við höfum í vegagerð á Íslandi og hvort þessi hugmynd sem hér er sett fram sé raunhæf núna, á næstu árum.