132. löggjafarþing — 19. fundur,  10. nóv. 2005.

Vegagerð um Stórasand.

43. mál
[15:54]
Hlusta

Flm. (Halldór Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Síðari ræða hv. þingmanns er fyrir margra hluta sakir mjög einkennandi fyrir málflutning hans yfirleitt. Hér mælti ég fyrir tillögu um að undirbúa og hrinda í framkvæmd nauðsynlegum rannsóknum og mælingum áður en ráðist yrði í veg yfir Stórasand. Aðalárásarefni hv. þingmanns var að þessar rannsóknir skyldu ekki þegar hafa verið unnar. Auðvitað er tillaga um að ráðast í rannsóknir flutt vegna þess að fullnægjandi rannsóknir liggja ekki fyrir. Þetta er svo einfalt, hv. þingmaður. Ég held að það sé óþarfi að vera með einhverjar dylgjur í því sambandi. Ég held að það sé rétt að ræða mál sem hér eru flutt á þeim forsendum, á þeim grunni, sem þau eru flutt en ekki slá úr og í og þykjast búa yfir upplýsingum sem viðkomandi þingmaður hefur ekki, eins og hann gerði í þessum umræðum. Hann hefur ekki hugmynd um það sem hann er að tala um þegar hann fjallar um veðurfar á Stórasandi.

Í annan stað var fróðlegt að heyra hv. þingmann tala um að hann væri andvígur því að leggja þungaflutningaveg yfir Arnarvatnsheiði. Hver er að tala um það? Er einhver að tala um að leggja veg yfir Arnarvatnsheiði? Ég kannast ekki við það. Hér erum við að tala um að fara Hallmundarhraun yfir á Stórasand. En á hinn bóginn er vegurinn yfir Arnarvatnsheiði, Arnarvatnshæðir, í vegalögum og er þá komið niður í Miðfjörð. Má vera að hv. þingmaður sjái fyrir sér mikinn veg þangað niður eftir. Ekki er það mín tillaga.

Aftur á móti vil ég að lokum taka fram að ég geri ekki ráð fyrir að þungaflutningar verði leyfðir um Þingvöll þótt farinn verði Kjölur, þannig að sá þáttur ræðu hans var út í hött.