132. löggjafarþing — 19. fundur,  10. nóv. 2005.

Vegagerð um Stórasand.

43. mál
[15:59]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hér er til umræðu tillaga til þingsályktunar um vegagerð um Stórasand. Hún var líka til umræðu á síðastliðnu þingi og hv. þm. Halldór Blöndal er 1. flutningsmaður hennar. Eins og komið hefur fram í umræðunum er markmiðið með tillögunni að undirbúa og hrinda í framkvæmd nauðsynlegum rannsóknum og mælingum til þess að hægt sé að setja veg frá Norðurárdal í Skagafirði um Stórasand til Borgarfjarðar í mat á umhverfisáhrifum, sem sagt undirbúa þessa vegalagningu.

Það þarf ekki að hafa mörg orð um þessa tillögu. Hún er svo fráleit að það liggur við að þetta sé svo alvörugamansemi hjá hv. þingmanni að koma með þetta hér inn en hv. þm. Halldór Blöndal hefur ýmsar hliðar til þess að koma með mál inn í þingið sem mörgum þykja skringileg og allt gott um það. En það er ástæða til að taka þessa umræðu alvarlega ekki síst í ljósi þess hversu mikið er enn óunnið í vegagerð, í byggð á milli staða og um landið. Þess vegna á það að mínu viti að vera fullkomið forgangsmál í allri umræðu um vegamál að ræða allar leiðir til þess að koma þeim vegalagningum áfram. Það er verið að takast á um vegaframkvæmdir á Vestfjörðum, um nauðsynlega jarðgangagerð þannig að hægt sé að komast á milli byggða með eðlilegum hætti, fé til vegagerðar er skorið niður til að slá á þenslu vegna stóriðjuframkvæmda fyrir austan og hér á suðvesturhorninu og vegirnir norður, milli Reykjavíkur og Akureyrar sem hv. þingmanni Halldóri Blöndal eru mjög hugleiknir, sú leið ber engan veginn þá umferð sem henni er nú ætlað að gera og bíður þess að þar verði gert átak. Þá væri eðlilegra að hv. þingmaður legðist þar á sveif og styddi að í þá vegi væri lagt aukið fjármagn.

Þó að engar líkur séu til að tillaga eins og hv. þingmaður flytur um veg um Stórasand verði að raunveruleika og eigi engar forsendur til að verða að raunveruleika, þá skaðar hún þá eðlilegu og samfelldu umræðu sem við eigum að halda hér uppi og þann þrýsting sem á að vera um fullkomna vegagerð á milli staða í byggð, vítt og breitt um landið. Ég hefði viljað sjá hv. þingmann flytja tillögu um hvernig hann mætti standa að því að byggja veginn öflugar upp um Borgarfjörð, norður og austur um Húnavatnssýslur og áfram norður og austur á Akureyri. Hvað með að fara að gera áætlun um að hann verði gerður að hluta til þríbreiður? Við vitum að þessir miklu vöruflutningar með löngum aftanívögnum sem fara um vegina eru bæði stórhættulegir og auk þess eru vegirnir engan veginn gerðir til þess að taka þessa miklu flutninga. Vegurinn er það mjór að á löngum köflum er varla hægt að taka fram úr eða mæta bílum af þessari gerð með eðlilegum hætti. Það er því orðið brýnt að taka á því að byggja upp og vera með skipulagða kafla í veginum norður breikkaða þannig að hægt sé að hleypa umferð með eðlilegum hætti áfram og fram hjá þessum stóru bílum. Þess utan er vegurinn svo burðarlítill og bylgjast undan umferðinni eins og hefur hvað eftir annað verið í umræðum bæði hér á þingi og úti í samfélaginu.

Ég vil líka minnast á strandflutningana en það var dapurt að skipulagðir strandflutningar skyldu að mestu vera látnir lognast út af. Það er að vísu eitt skip sem hefur reynt að halda uppi flutningum á Vestfirði en strandflutningar um sjóinn áttu að vera fastur þáttur í flutningakerfi landsmanna, þar sem flutt er þungavara og stórflutningar sem ekki er brýn nauðsyn að láta koma hratt fram með flutningabílum.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum flutt tillögu um að skoða ætti möguleika á strandflutningum á ný, skipulögðum strandflutningum og þeir væru þá boðnir út með líkum hætti og flugið er boðið út. Ef menn telja ekki hægt að stunda það á fullkomnum arðsemisgrundvelli þá er þetta svo mikilvægur liður í flutningastarfseminni, í þjónustunni og ég tala ekki um til að létta sliti af vegum og auka öryggi þar. Þannig að strandflutningar eru kannski í sjálfu sér eitt brýnasta málið að skoða.

Ég hef líka viljað heyra hv. þingmann nefna mikilvægi þess að gera átak í innanhéraðsvegum, vegum sem nú kallast safna- og tengivegir sem hafa algerlega legið eftir í umræðunni og í aðgerðum í vegamálum. Þar er stórt verk óunnið.

Frú forseti. Þessi tillaga hv. þm. Halldórs Blöndals um að efna til umræðu um veg um Stórasand er ekki aðeins ótímabær heldur er hún líka að mínu viti röng í þeirri hugmyndafræði og því skipulagi sem við eigum að vinna eftir varðandi vegasamgöngur í landinu. Að setja þetta inn í umræðuna dregur athyglina frá því sem er brýnt að gera og á að gera. Vegagerð er alvörumál og samgöngumál eru alvörumál en ekkert til að flytja tillögur eins og þá sem hv. þingmaður mælir nú fyrir aftur.