132. löggjafarþing — 20. fundur,  14. nóv. 2005.

Ummæli forsætisráðherra um öryggis- og varnarmál.

[15:12]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Ég furða mig á því að þetta mál skuli tekið upp nú undir þessum lið, bæði í ljósi þess að umræður um skýrslu utanríkisráðherra fara fram á fimmtudaginn og þar að auki liggur fyrir utandagskrárbeiðni um sama efni frá hv. þm. Jóni Gunnarssyni, þingmanni Samfylkingarinnar. Þess vegna átta ég mig ekki á því að þetta skuli tekið upp undir þessum lið.

Hvað efni málsins varðar er auðvitað ólíðandi að Bandaríkjamenn skuli hafa dregið lappir í þessu máli. Það eru fimm ár síðan samningurinn rann út og Bandaríkjamenn virðast vera afar tregir til að ganga frá endurnýjuðum samningi. Rétt er að minna á að hann á að byggja á tvíhliða samkomulagi milli Íslands og Bandaríkjanna sem lúta að öryggis- og varnarmálum íslensku þjóðarinnar. Þeirri óvissu þarf að sjálfsögðu að eyða, óvissu sem snertir öryggis- og varnarmál en ekki síður óvissu þeirra hundruða starfsmanna sem þar búa við stöðuga óvissu. Ef Bandaríkjamenn hyggjast fara eiga þeir að sjálfsögðu að segja það beinum orðum þannig að hægt sé að bregðast við og eyða þar með þessari óvissu. Öryggis- og varnarmál skipta okkur miklu máli og við skulum heldur ekki gleyma því að þetta skiptir daglegt líf hundruða manna og fjölskyldna miklu máli. Óvissunni þarf að eyða.