132. löggjafarþing — 20. fundur,  14. nóv. 2005.

Ummæli forsætisráðherra um öryggis- og varnarmál.

[15:25]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Við erum öll í vinnu fyrir þjóðina og það er mikilvægt að allir flokkar skýri afstöðu sína í þessu máli. Það hefur komið skýrt fram í þessari umræðu að Samfylkingin vill ekki gera það og gerir kröfur til ríkisstjórnarinnar um að ná niðurstöðu í þessu máli en segir ekki frá því hverjar þær niðurstöður eigi að vera.

Það liggur alveg skýrt fyrir af hálfu ríkisstjórnarinnar hvað við viljum í þessu máli. Við viljum byggja áfram á varnarsamningnum. Samfylkingin hlýtur að geta svarað því hvort hún vill byggja á varnarsamningnum við Bandaríkin eða ekki. Við viljum hafa hér sýnilegar varnir, það liggur alveg ljóst fyrir (Gripið fram í: … fáið það ekki?) að það þýðir m.a. það að hér séu orrustuþotur áfram. Við teljum að það sé nauðsynlegt að orrustuþotur séu staðsettar á Íslandi og það eru margir sammála okkur í því mati, m.a. innan Atlantshafsbandalagsins. Þetta er alveg ljós afstaða. Og mér finnst Samfylkingin skulda þjóðinni það að þjóðin viti hvað Samfylkingin vill í málinu. Það finnst mér og (ISG: Fjórar þotur?) ég hugsa að það finnist fleirum. (ISG: Fjórar þotur?) Það getur vel verið að formaður Samfylkingarinnar vildi að þær væru enn þá fleiri, ég veit ekkert um það. Ég veit almennt ekkert um stefnu Samfylkingarinnar í þessu máli eða í ýmsum öðrum málum. (Gripið fram í.)