132. löggjafarþing — 20. fundur,  14. nóv. 2005.

Skólagjöld við opinbera háskóla.

[15:30]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Rekstur opinberu háskólanna er í járnum. Framtíðarfjármögnun þeirra er óviss og samkeppnisstöðu þeirra innan lands og utan er á margan hátt ógnað. Skólarnir mæta skilningsleysi stjórnvalda sem í stað þess að fjárfesta í skólunum og mæta aukinni skólasókn með auknum framlögum hefur þrengt verulega að rekstri skólanna. Skólarnir standa nú frammi fyrir vondum kostum og erfiðum, harkalegum niðurskurði og umfangsmiklum fjöldatakmörkunum fái þeir ekki annaðhvort heimild til skólagjalda eða veruleg aukin opinber framlög.

Nú rifar Háskólinn á Akureyri seglin vegna fjárskorts af hálfu stjórnvalda. Skólinn bregst við með því að skera harkalega niður og leggja niður tvær deilda sinna sem er að sjálfsögðu grafalvarlegt mál, bæði í mennta- og byggðarlegum skilningi. Þá beitir Háskóli Íslands fjöldatakmörkunum og Kennaraháskóla Íslands er gert vísa frá hundruðum nemenda ár hvert. Háskólarnir eru sveltir til vondra verka og neyðarúrræða.

Í þessu samhengi vekur ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins á dögunum um að nemendur í opinberum háskólum skuli taka aukinn þátt í rekstri skólanna sérstaka athygli. Á mannamáli hlýtur það að hljóma svo að taka skuli upp skólagjöld í opinberum háskólum til að mæta fjárhagsvanda skólanna og fjárþörf. Þarna kveður við nýjan tón og harðari af hálfu Sjálfstæðisflokksins en nokkru sinni fyrr. Nú er engin miskunn. Það er sótt að stöðu þjóðskólanna. Kné skal fylgja kviði hvað sem skynsemi, rökum og réttlæti líður.

Háskólinn á háskólastigi býr við allt of lág fjárframlög og skortur á skýrri stefnumörkun bætir ekki stöðuna. Ef við verðum svipuðu hlutfalli landsframleiðslunnar til háskólastigsins og aðrar Norðurlandaþjóðir fengi það 4–8 milljörðum meira á ári en það fær nú. Þær þjóðir verja 35–80% hærra hlutfalli af landsframleiðslu sinni til háskólastigsins en við gerum hér.

Kjarni málsins er þessi: Hæstv. ráðherra menntamála verður að taka af skarið með það hvort hún ætlar að beita sér fyrir auknum framlögum til opinberu háskólanna eða veita þeim heimild til hærri skólagjalda. Áður en aukin skólagjöld koma til greina að mínu mati verður að fara fram ítarleg stefnumótun og úttekt á málefnum háskólastigsins þar sem áhrif skólagjalda eru vegin og metin. Til dæmis út frá jafnrétti til náms, hlutverki Lánasjóðs íslenskra námsmanna, fjármögnunar skólastigsins og skólasóknar almennt.

Samfylkingin svarar þessu skýrt. Við viljum ekki taka upp skólagjöld eða fjöldatakmarkanir til að leysa fjárhagsvanda opinberu háskólanna. Samfylkingin vill þvert á móti forgangsraða í þágu menntunar, auka framlög til háskólastigsins og ráðast í víðtæka stefnumótun þar sem allt er undir og áhrif skólagjalda yrðu metin sérstaklega. Grundvallaratriðið er að til staðar sé menntunarferli frá leikskóla upp í gegnum háskóla þar sem jafnrétti til náms er tryggt burt séð frá bakgrunni hvers og eins. Að þessu vegur Sjálfstæðisflokkurinn nú án þess að nokkur stefnumörkun hafi átt sér stað um háskólastigið. Það eru þau vinnubrögð sem eru til vansa. Ábyrgðinni verður ekki velt yfir á stofnanirnar sjálfar og nemendur þeirra. Hún er stjórnvalda. Það er menntapólitísk ákvörðun hvort háskólastigið verður rekið af auknum hluta og stærri hluta með skólagjöldum frá nemendum en gert er nú. Þeirri ábyrgð verður aldrei vísað á háskólaráð skólanna og þau neydd til að óska eftir þeim án þess að pólitísk stefnumótun hafi átt sér stað af hálfu stjórnvalda um þau mál. Því beini ég eftirfarandi spurningum til hæstv. menntamálaráðherra:

Verður stefnubreyting hjá ríkisstjórninni vegna fjármögnunar opinberu háskólanna í ljósi landsfundarályktunar Sjálfstæðisflokksins þess efnis að nemendur skuli taka aukinn þátt í kostnaði við rekstur opinberu háskólanna?

Verður opinberu háskólunum veitt heimild til skólagjalda samanber áðurnefnda ályktun? Ef svo er hvenær og hve hárra skólagjalda? Verður lánað fyrir skólunum? Verður styrkt fyrir skólunum og hvernig verður komið til móts við það?

Síðast en ekki síst, hvað merkir ályktunin fyrir opinberu háskólana og rekstur þeirra á næstunni?

Þetta er grundvallarmál sem hæstv. menntamálaráðherra verður að skýra og það undanbragðalaust enda um að ræða eitt af fjöreggjum þjóðarinnar, fjöregg sem nú er í tröllahöndum eftir ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins og niðurskurð og svelti í rekstri opinberu háskólanna á síðustu missirum.