132. löggjafarþing — 20. fundur,  14. nóv. 2005.

Skólagjöld við opinbera háskóla.

[15:36]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Það hefur verið markviss stefna ríkisstjórnarinnar síðasta áratug að efla og treysta íslenska háskólakerfið og það lýsir sér best í gífurlegri fjölgun háskólanema og mjög fjölbreyttu námsframboði. Fjöldi þeirra sem stunda háskólanám við íslenska háskóla hefur hartnær tvöfaldast á síðasta áratug og hann eykst ár frá ári. Þessi mikla fjölgun háskólanema er að sjálfsögðu fagnaðarefni en hún hefur vissulega verið kostnaðarsöm líkt og sést á tölum um útgjöld til íslenskra háskóla.

Við höfum aftur á móti ekki farið þá leið á Íslandi sem farin hefur verið í mörgum öðrum Evrópuríkjum að mæta aukinni fjölgun nemenda með lækkandi framlögum á nemanda. Rétt er að geta þess að frá árinu 2000–2006, ef við tökum fjárlögin núna miðað við framlög hvers árs, hafa útgjöld ríkisins til háskólanna farið úr tæpum 4,7 milljörðum í rúma 9 milljarða sem er aukning upp á 105% frá árinu 2000.

Aukin framlög til háskólastigsins birtast einnig í tölum frá OECD en á milli áranna 2001–2002 jukust framlög Íslands til háskóla úr 0,8% af vergri þjóðarframleiðslu í 1% af þjóðarframleiðslunni sem er gríðarleg aukning ef tekið er einungis mið af þjóðarframleiðslunni sem slíkri.

Hins vegar má ekki gleyma að ákveðin skekkja er í þessum tölum þar sem stór hluti útgjalda okkar Íslendinga eru ekki talin með líkt og fjármálaráðuneytið hefur ítrekað bent á og því má áætla að raunframlag íslenska ríkisins til háskólamála árið 2002 hafi verið í sambærilegu hlutfalli á öðrum Norðurlöndum.

Einnig er rétt að draga fram að framlög til rannsókna hafa verið aukin stórkostlega. Samkeppnissjóðir munu ríflega tvöfaldast nú á þessu kjörtímabili og samanlagt hafa samkeppnissjóðirnir vaxið úr 637 milljónum árið 2003 í 1.300 milljónir árið 2005. Ríkisstjórnin stefnir að því að halda áfram að auka framlög til háskólamenntunar í landinu líkt og glögglega kemur fram í frumvarpi til fjárlaga sem núna liggur fyrir þinginu. Sú stefna ríkisstjórnarinnar byggir á því að fjárfesting í menntun er fjárfesting í framtíð þjóðarinnar og við verðum og eigum að setja markið hátt.

Rétt er að ítreka að þessari stefnu verður áfram fylgt af fullum krafti, þ.e. að við ætlum að halda áfram að auka framlegð til háskólakennslu og rannsókna. Það er rétt að undirstrika það.

Þegar við horfum til framtíðar, frú forseti, sjáum við einnig að háskólaumhverfið er að breytast hratt. Það stóra verkefni sem við stöndum frammi fyrir er að takast á við almennt aukna ásókn fólks á öllum aldri í háskólanám. Hlutfall háskólanema á hinum hefðbundna háskólaaldri, þ.e. á aldrinum 20–25 ára fer lækkandi, ekki vegna þess að færri fari í háskóla á þessum aldri, þvert á móti erum við með eitt mesta innritunarhlutfall í háskólanám í Evrópu og það hlutfall er hækkandi. Hins vegar færist það sífellt í aukana að fólk utan hins hefðbundna háskólaaldurs hefji háskólanám, í sumum tilvikum til að afla sér fyrstu háskólagráðu en í flestum öðrum tilfellum til að afla sér annarrar eða jafnvel þriðju háskólagráðu. Þetta er í beinu samræmi við auknar kröfur samfélagsins um menntun og þekkingu. Þessi þróun er að mínu mati jákvæð en jafnframt er ljóst að hún mun reyna á þanþol hins opinbera þegar kemur að fjármögnun háskóla í framtíðinni.

Hitt stóra verkefni framtíðarinnar er að íslenskir háskólar séu samkeppnishæfir við erlenda háskóla á sem flestum sviðum. Þeir munu þurfa að keppa við erlenda háskóla um þekkingu, rannsóknarfjármagn, nemendur og starfsfólk. Þetta eru sömu verkefni og háskólar annars staðar í álfunni standa frammi fyrir. Alls staðar á sér nú stað afar athyglisverð umræða um framtíðarfjármögnun háskólamenntunar og rannsóknar.

Ég hef margsinnis lýst þeirri skoðun minni að skoða beri þann möguleika að heimila hinum opinberu háskólum að innheimta skólagjöld t.d. í framhaldsnámi. Það er hins vegar ekki á dagskrá ríkisstjórnarinnar sem stendur. Forgangsverkefnið er nú að endurnýja rammalöggjöf um háskólakerfið með ríkri áherslu á gæðamálin innan háskólanna. Það er jafnframt ljóst í mínum huga að þegar og ef hinum opinberu háskólum verður heimilað að taka upp skólagjöld yrði lánað til þeirra með hliðstæðum hætti og nú er gert þegar kemur að skólagjöldum. Það er einnig skoðun mín að skólagjöld komi þá einungis til greina ef um er að ræða hreina viðbót fjármagns til háskólanna.

Frú forseti. Þetta er umræða sem á sér stað núna um alla Evrópu, þ.e. umræða um fjármögnun háskóla og við verðum að nálgast hana af skynsemi. Við verðum að nálgast hana kreddulaust og með hagsmuni og framtíð íslenska háskólakerfisins í huga.