132. löggjafarþing — 20. fundur,  14. nóv. 2005.

Skólagjöld við opinbera háskóla.

[15:47]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Sú umræða sem hér stendur yfir fer að sjálfsögðu fram í skugga þeirrar ákvörðunar sem tekin hefur verið í háskólaráðinu við Háskólann á Akureyri. Þar er í hnotskurn verið að fjalla um þann vanda sem snýr nú að hinum opinberu háskólum. Það er augljóst mál að þessir skólar hafa eingöngu þrjá möguleika til þess að bæta stöðu sína. Það er í fyrsta lagi að ná fram auknu fjármagni, í öðru lagi einhvers konar niðurskurður og í þriðja lagi hærri skólagjöld.

Frú forseti. Það er óábyrgt af stjórnvöldum að skilja skólana eftir í þessum vanda. Það er hlutverk stjórnvalda að móta stefnu til framtíðar og það er góðra gjalda vert að nú skuli eiga að endurskoða rammalöggjöf um háskólastigið. En það er hins vegar algjörlega óviðunandi að það eigi að skilja fjármögnun háskólastigsins eftir í sömu óvissu, vegna þess, eins og hv. síðasti ræðumaður nefndi, þá blasir það við að það virðist vera gert skipulega að þvinga fram frá háskólunum sjálfum kröfu um það að þeirra eina leið verði að óska eftir hærri skólagjöldum. Það er stóhættulegt mál ef við ætlum að þvinga það fram án þess að horfa heildstætt á málið. Það er lykilatriði að á þetta sé horft heildstætt hvernig skuli fjármagna það, hvernig það skuli skipulagt. Það er óábyrgt af stjórnvöldum að þvinga fram slíka stefnu vegna þess að það er stjórnvalda að leiða fram þá stefnu og það er hlutverk stjórnvalda að reyna að ná sem allra, allra mestri samstöðu um það hvernig háskólastigið verður fjármagnað og skipulagt.

Þess vegna, frú forseti, væri það fagnaðarefni ef hæstv. menntamálaráðherra mundi boða það hér í umræðunum að á næstunni yrði settur niður þverpólitískur starfshópur til þess að fara yfir þessi mál. Það held ég, frú forseti, að sé það eina sem við getum gert til þess að tryggja samstöðu og finna þá leið sem best er. Háskólinn á Akureyri situr uppi með þennan vanda og reynir að bregðast við honum á þvingaðan hátt.