132. löggjafarþing — 20. fundur,  14. nóv. 2005.

Skólagjöld við opinbera háskóla.

[15:52]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Staðreyndin er sú að skilaboð til háskólastigsins frá Alþingi hafa verið nokkuð óljós. Það hafa verið misvísandi skilaboð héðan frá hv. Alþingi, að ég tali nú ekki um ef menn skoða ummæli stuðningsmanna einstakra flokka, svo sem eins og var vitnað til hér áðan, hér var vitnað til formanns Samfylkingarinnar. Varaformaður Samfylkingarinnar hefur lýst því yfir að það komi til greina að opna fyrir skólagjöld en hv. málshefjandi taldi það síðri kost en vildi þó ekki útiloka það. Það er með öðrum orðum, frú forseti, kominn tími til að Alþingi sendi nokkuð skýr skilaboð. Ríkisendurskoðun hvetur til þess að fjármögnun háskólanna verði gerð nokkuð skýr.

Við vitum, frú forseti, að á síðustu árum hefur orðið algjör sprenging á háskólastiginu. Bæði hefur háskólum fjölgað, nemendum hefur fjölgað þar um hundruð og útgjöld til háskólastigsins hafa aukist gífurlega eins og hér hefur komið fram. Að sjálfsögðu fylgja því ýmsir vaxtarverkir og það eru þeir vaxtarverkir sem Alþingi þarf að fara yfir. Það þarf að skoða eðli námsins, tengsl við lánasjóðinn og ekki síst fjármögnun framhalds háskólastigsins til framtíðar.

Innan Framsóknarflokksins hefur þessi umræða farið fram og hún fer fram í fjölmennum hópi, eins og hv. þm. Dagný Jónsdóttir greindi frá. Þar höfum við markað þá stefnu að opna ekki fyrir skólagjöld á grunnnámið. Hins vegar ræða menn hvort opna eigi fyrir þau í framhaldsnámi þegar fólk sækir sína aðra háskólagráðu. Stærsti hluti sprengingar á háskólastigi í nemendafjölgun er einmitt fólk sem er að koma öðru eða þriðja sinni inn í háskóla til að sækja sér viðbótargráðu. Slíkt fólk hefur að sjálfsögðu allt aðra stöðu en þeir sem eru að koma inn í fyrsta sinn. Það eigum við ekki að útiloka en ég tek undir það að Alþingi þarf að vinna sameiginlega að þessu þannig að skilaboð til háskólastigsins verði nokkuð skýr.