132. löggjafarþing — 20. fundur,  14. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[16:21]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Mér kemur nokkuð á óvart að vera næstur í umræðunni því að ég átti von á því að hæstv. umhverfisráðherra tæki sig til og svaraði þó ekki væri nema í andsvari þeim spurningum sem fram hafa verið bornar og hv. síðasti ræðumaður gerði mjög í þeim dúr sem var í fyrri hluta umræðunnar sem hæstv. ráðherra gat því miður ekki tekið þátt í. Mér finnst kominn tími til að umhverfisráðherra geri það.

Í fyrra var rætt um frumvarp sem var nánast alveg eins og þetta og bornar fram spurningar til umhverfisráðherra. Hún svaraði ekki þá og má finna fyrir því ýmsar afsakanir. Hæstv. ráðherra var viðstödd umræðuna en þurfti svo að fara og hún svarar heldur ekki nú þó að hún geti, með leyfi forseta, annaðhvort komið hér til andsvara eða orðið næst í röð ræðumanna samkvæmt reglum sem þingsköp leyfa um það.

Þess vegna hlýtur maður að byrja á að ítreka þær spurningar til umhverfisráðherrans. Þær varða í fyrsta lagi afstöðu hennar til þess frumvarps sem hér er lagt fram, almenna afstöðu hennar til þess.

Í öðru lagi varða þær yfirlýsingar hæstv. iðnaðarráðherra í fyrri hluta umræðunnar að Umhverfisstofnun hefði snúið við blaðinu frá umsögn sinni í fyrra, það sem Umhverfisstofnun hefði sagt þá segði Umhverfisstofnun ekki lengur. Þetta verður fróðlegt að vita vegna þess að umsögn Umhverfisstofnunar er eitt af meginplöggum í málinu og ekki verður séð, nema í kannski einu smáatriði sem varðar yfirlestur í umhverfisráðuneytinu yfir reglugerð frá iðnaðarráðherra, að nokkurt tillit hafi verið tekið til athugasemda Umhverfisstofnunar sem eru mjög alvarlegar, vægast sagt.

Í þriðja lagi þurfti umhverfisráðherra í fyrra og þarf nú aftur að svara því hvernig á stendur með vatnatilskipun Evrópusambandsins. Nú er það að vísu þannig að það er utanríkisráðherra að forminu til sem semur við erlend ríki, en ég hygg að ekki þurfi að kalla hann til því að umhverfisráðherra hlýtur að hafa vald á þessu máli.

Í II. kafla greinargerðarinnar á síðu 13 í því formi sem þetta er núna, segir sérstaklega, með leyfi forseta:

„Sem stendur er unnið að lögleiðingu vatnatilskipunar ESB frá 2000.“

Þetta stóð líka í greinargerð fyrra frumvarps sem útbýtt var 6. desember 2004 og er nú aftur óbreytt í greinargerð með frumvarpi þessu sem lagt er fram í nóvember 2005, þannig að sem stendur virðist það eiga við báða tímana. Því er eðlilegt að spyrja: Hvernig stendur það? Af hverju er ekki búið að því? Hefur einhver vinna farið fram á þessu ári eða hvernig liggur þetta?

(Forseti (SP): Forseti vill taka fram vegna orða hv. þingmanns að þetta frumvarp er á forræði hæstv. iðnaðarráðherra en hæstv. umhverfisráðherra féllst góðfúslega á að vera viðstödd þessar umræður samkvæmt beiðni stjórnarandstöðunnar fyrir helgi.)

Forseti. Mér kemur á óvart þessi athugasemd því að hæstv. umhverfisráðherra er hér stödd og einmitt að beiðni stjórnarandstöðunnar. Ég er hluti af þeirri stjórnarandstöðu. Ég er að bera fram þær fyrirspurnir sem fyrri ræðumaður bar fram og bornar voru fram í fyrri hluta þeirrar umræðu sem fór fram um daginn, fyrir helgi, og sem einnig voru bornar fram — og forseti ætti að minnast — í fyrra þegar þetta mál var til umræðu. Ég hef fullan rétt til þess, nema forseti taki hann hér með frá mér, sem hann hefur auðvitað rétt til, að beina spurningum til hæstv. umhverfisráðherra sem er sérstaklega stödd í salnum. Ég ætlaði að gera það í upphafi ræðu minnar, sem annars á að fjalla um margt annað, og held því þess vegna áfram.

Á sömu síðu og í sama kafla í greinargerðinni í frumvarpi hæstv. iðnaðarráðherra stendur einnig um viðræður milli framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og EFTA-skrifstofunnar um aðlögunartexta að það sé, með leyfi forseta, „reiknað með að þeim ljúki fljótlega eftir áramótin næstu.“

Þegar maður fær þennan texta í hendurnar skoðar maður líka fyrra frumvarp og þar stendur hvað, forseti? Jú, með þínu leyfi, textinn segir að reiknað sé með „að þeim ljúki fljótlega eftir áramótin næstu.“ Því spyr maður eins og gert var í fyrri hluta þessarar umræðu: Hvaða áramót er átt við? Er átt við áramótin í fyrra, sem sé síðustu áramót, 2004–2005, eða er átt við áramótin 2005–2006 eða er átt við einhver allt önnur áramót? Eða eru „áramótin næstu“ einhver lítill kísilbiti sem settur er inn í tölvurnar í iðnaðarráðuneytinu og á svo við hvað sem iðnaðarráðherra sýnist hverju sinni?

Þarna stendur í þriðja lagi, forseti, hlutur sem þarf að spyrja hæstv. umhverfisráðherra um og það er að í sama kafla, nokkrum línum síðar, segir að hér á landi þurfi að leiða í lög stjórn vatnsverndar og, með leyfi forseta:

„… liggur þegar fyrir í drögum frumvarp þess efnis sem unnið var á vegum starfshóps umhverfisráðuneytisins sem starfar að lögleiðingu áðurnefndrar tilskipunar …“

Þetta stóð einnig þegar þetta frumvarp eða forveri þessa frumvarps, nánast óbreyttur, var lagður fram hér 6. desember árið 2004, í fyrra, fyrir næstum því ári. Þetta þarf umhverfisráðherra líka að skýra: Hvar er þessi löggjöf stödd? Því er spurt að einu rökin sem fram hafa komið hjá hæstv. iðnaðarráðherra fyrir því hversu brýnt sé að flytja þetta frumvarp eru þau að lögin séu frá 1923. Það endurtók hæstv. iðnaðarráðherra margoft í fyrri hluta umræðunnar: Lögin eru frá 1923, og skilja hv. þingmenn það ekki að lög frá 1923 verður náttúrlega að endurskoða o.s.frv.?

Jú, þetta er rétt hjá iðnaðarráðherra. Það er eðlilegt að taka 82 ára gömul lög og endurskoða þau og líta á hvað úr þeim er hægt að gera. En það er líka eðlilegt að það sé heildarlöggjöfin sem sett er. Einnig komi fram vatnsverndarlögin og það komi fram lög í framhaldi af þeirri vatnatilskipun sem er okkar, vegna þátttöku okkar í alþjóðasamstarfi um umhverfismál og fleiri efni.

Þetta óska ég eftir að umhverfisráðherra fjalli um og bið um að það verði gert sem allra fyrst í umræðunni þannig að hún geti þróast eitthvað áfram, sem hún hefur eiginlega ekki gert vegna annars vegar fjarveru hæstv. umhverfisráðherra og hins vegar skorts á svörum frá hæstv. iðnaðarráðherra.

Nú hef ég því miður þurft að verja meginhluta ræðu minnar í þessar spurningar og ég ítreka spurningar mínar til hæstv. umhverfisráðherra en ég ætla í þessu sambandi að segja um lögin frá 1923, sem er mikilvægt, að í greinargerðinni og í ræðu ráðherrans kemur fram sá misskilningur að þau séu sprottin úr gamla bændasamfélaginu. Það er ekki rétt nema að hluta til. Vissulega er í þeim að finna gullfallegan texta, ekki bara úr gamla bændasamfélaginu heldur frá fyrstu tímum, ákvæði sem hafa verið í lögum á Íslandi frá því Jónsbók var tekin í lög og eiga uppruna sinn í Grágás. En lögin frá 1923 eiga sér þá sögu, eins og rakið er í greinargerðinni, að þau voru afleiðing af því að hið gamla bændasamfélag rakst á við hrá-kapítalisma í upphafi 20. aldar, þegar menn fóru um landið og litu á landgæði, djarfhuga menn og framkvæmdaglaðir, og ætluðu að reisa virkjanir og nýta til þess hvern fossinn og vatnsfallið af öðrum. Þá urðu miklar deilur eins og rakið er í greinargerð sem enduðu með hinni frægu fossanefnd og síðan með frumvarpi sem Einar Arnórsson, sem forseti þekkir að góðu einu, góður stjórnmálamaður og lögfræðingur sem var uppi á fyrri hluta síðustu aldar, samdi og var síðan lögtekið.

Hvað gerðist þar? Jú, þar var samþykkt ákveðin málamiðlun. Hún var einmitt samþykkt gegn hrá-kapítalismanum en með bændum vegna þess að menn vildu reyna að hindra að einstakar ár, fossar eða önnur slík náttúrufyrirbrigði sem væri hægt að nota til orkuöflunar, gengju kaupum og sölum milli manna á Íslandi og erlendis og jafnvel í kauphöllum út og suður um heiminn. Þess vegna var gerð sú málamiðlun á milli sjónarmiða meiri hlutans og minni hlutans í fossanefndinni að landeigendur skyldu eiga skýran og kláran nýtingarrétt að þeim fyrirbrigðum sem hér eru talin. Þetta þýddi að til þess að komast yfir þennan nýtingarrétt þurfti að kaupa landið sjálft. Árið 1923 töldu menn í þessum sal að varðstaða bænda um íslenska hagsmuni mundi koma í veg fyrir of mikið ævintýri í þessum efnum. Bændasamfélagið þá var mikils metið og var talið ákveðin fyrirmynd í samfélagsefnum. Menn töldu að við ættum að halda þeim gömlu góðu gildum sem í því fælust og hæstv. iðnaðarráðherra kann að kannast við, a.m.k. í sögu flokks síns. Þess vegna var bændum, sem landeigendum á þeim tíma, falin varðveisla þessara gæða.

Það sem við eigum nú við að stríða er kannski öfugt, að gamla bændasamfélagið er því miður á fallanda fæti. Því miður segi ég ekki vegna þess að ég sé á móti framþróun í atvinnuháttum heldur vegna þess að í því fólust ýmis gömul og góð gildi sem nú þarf að leita að logandi ljósi í stefnu og athöfnum þess flokks sem þó var á sínum tíma sérstakur varnarmaður þessa bændasamfélags. Bæði í vörn og sókn átti Framsóknarflokkurinn að berjast fyrir þeim gildum. Þess vegna hefði maður að óreyndu ætlað að ráðherra Framsóknarflokksins mundi skoða vatnalögin, líta á þau í ljósi nýrra tíma og telja ástæðu til að treysta almannaréttinn, draga úr einkaeignarákvæðum vatnalaganna og koma því þannig fyrir að sjálfur tilgangur laganna frá 1923 héldi áfram þótt í breyttu samfélagi væri. En það er ekki.

Hæstv. ráðherra Framsóknarflokksins sem um þetta vélar fór öfuga leið. Hann fór leið minni hluta fossanefndarinnar, að ég hygg. Ég vona að ég fari ekki með rangt mál en ég held að minni hluti nefndarinnar hafi lagt til að einkavæða í raun aðganginn og nýtingarrétt á landi og setja hann í fullkomna einkaeign. Manni bregður svo sem ekkert við þetta, eftir að hafa fylgst með Framsóknarflokknum á síðustu áratugum, en ég verð að segja að sögulega er þetta ekki mjög fagurt. Ég held að það sé mikilvægt að hafa þetta í huga.

Það hefur verið rakið, m.a. í þingsalnum, að landeign á Íslandi sé nú í miklu minni mæli en áður var einstakra bænda. Bæði fjáraflamenn og sérstök fyrirtæki hafa keypt jarðir en ekki til búskapar. Menn hafa kannski leiguliða á þeim jörðum þar til þeim hentar að gera annað við þær en markaður með land á Íslandi er orðin spekúlasjónsmarkaður og ekki lengur um það að ræða að hann ráðist af því að bændur flytjist búferlum eða komi landi sínu til þeirra sem gætu betur með það farið. Á þetta frumvarp verður að líta í því ljósi og verður ekki betur séð en að hæstv. ráðherra gangi einmitt hagsmuna spekúlantanna, hagsmuna fyrirtækjanna og fjáraflamannanna sem kaupa land, ekki til að búa á því eða virða það sérstaklega heldur ósköp einfaldlega til að nota það eins og hverja aðra vöru, kaupa land sem framkvæmdaglöð virkjunarfyrirtæki kynnu síðar að kaupa gegn hærra verði en þau voru keypt á.

Það er sérkennilegt við frumvarpið, greinargerð þess og hæstv. ráðherra sem það flytur, að þar segir í öðru orðinu A og í hinu orðinu mínus A. Gríðarleg áhersla er lögð á það af hálfu ráðherrans að þessi breyting skilgreiningarinnar á eignarrétti, þannig að formerki réttarins breytast úr jákvæðum í neikvæð, sé aðeins formbreyting. Samt stendur í 1. gr. frumvarpsins að markmið þess, fyrsta markmið og aðalmarkmið frumvarpsins, sé, með leyfi forseta: „… skýrt eignarhald á vatni“. Þannig hlýtur maður að draga þá ályktun að það hafi áður verið óskýrt, að nú sé óskýrt hvert eignarhaldið er á vatni en það eigi að skýra. Þá spyr maður: Felst ekki í því meira en formbreyting? Það vekur alveg sérstaka athygli, þótt þar kunni að vera um handvömm að ræða og ekki þá einu sem sést í endurflutningi þessarar greinargerðar, að á einum stað í greinargerðinni, í V. kafla greinargerðarinnar, hefur verið breytt orðalagi þar sem stóð, með leyfi forseta:

„Leggja verður áherslu á að hér er fyrst og fremst um formbreytingu að ræða …“

Því hefur verið breytt í:

„Leggja verður áherslu á að hér er um formbreytingu að ræða ...“

Hins vegar hefur greinilega gleymst að lesa VIII. kafla greinargerðarinnar eða þá menn eru svo óskýrir í þessu ráðuneyti. Þar stendur að „fyrst og fremst“ sé um formbreytingu að ræða. Það er ástæða til að spyrja iðnaðarráðherra um þetta. Er einungis um formbreytingu að ræða eða er fyrst og fremst um formbreytingu að ræða?

Það er augljóst og kemur ágætlega fram í umsögn Umhverfisstofnunar, sem hér var til umræðu áðan, að hér er ekki bara um formbreytingu að ræða. Hér er um efnisbreytingu að ræða, þ.e. að tekinn er nýtingarréttur, eins og hv. síðasti ræðumaður skýrði ágætlega, ákveðinn nýtingarréttur og honum breytt í einkaeignarrétt. Jákvæða skilgreiningin eins og menn þekkja felst í því að tiltekið er hvað menn mega gera með nýtingarrétt sinn en sú neikvæða er þannig að löggjafinn tiltekur hvað eigandi má ekki gera, sem á illa við um vatnið.

Það er alveg augljóst að a.m.k. tvö atriði sýna og sanna að hér er ekki fyrst og fremst um formbreytingu og jafnvel ekki eingöngu um formbreytingu heldur um efnisbreytingu að ræða. Það kemur annars vegar fram í því, eins og viðurkennt er í greinargerðinni, að gömlu vatnalögin eru útvíkkuð með þessu frumvarpi þannig að ekki er einungis um rennandi vatn að ræða heldur líka vatn í ýmsu formi. Það mætti segja að það sé formbreytingin sem starfsmenn ráðherrans horfa á þegar þeir skrifa greinargerðina, að bæst hefur við vatn í ýmsu öðru formi.

Í fyrsta lagi stendur í 2. gr. að þetta eigi ekki aðeins við um rennandi vatn heldur líka við um vatn í heildina, með leyfi forseta: „… í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi“. Þannig er hinu loftkennda formi og hinu fasta formi bætt við og þar með settir nýir hlutir inn í einkaréttinn sem ekki voru þar áður.

Í öðru lagi gerir breytingin úr jákvæðri skilgreiningu í neikvæða ráð fyrir því að ef upp kemur nýr nýtingarháttur vatns, ef mönnum dytti í hug á næstunni að nýta vatn með öðrum hætti en hingað til hefur verið hægt af tækniorsökum eða takmörkuðu hugmyndaflugi þeirra sem um það véla, þá er hinum nýja eiganda vatns í landinu, þessum hópi einkaeiganda, það heimilt. En ef við höldum við jákvæðu skilgreininguna, sem ég vona sannarlega að við gerum, þá yrði það löggjafans, eða dómstólanna þangað til löggjafinn treysti sér til þess, að úrskurða hvað ætti að gera í hinum nýju tilvikum.

Það er lítið eftir af ræðutíma mínum og ég verð greinilega að koma aftur og tala við þingheim um það sem ég næ ekki að skýra út núna. Ég vona reyndar að hæstv. umhverfisráðherra tali í millitíðinni. En meginatriðið er að við ættum í fyrsta lagi að vera með alla löggjöfina undir. Í öðru lagi ættum við í ljósi hinna nýju tíma að fást við vatnalögin frá 1923 í því skyni að auka almannarétt, draga úr einkaeignarákvæðum og hafa skýr nýtingarákvæði í lögunum, haga okkur eins og vatnatilskipun Evrópusambandsins, sem við erum hluti af að þessu leyti, vill og færa löggjöf okkar fremur í átt til þeirrar norsku og sænsku heldur en til þeirra markaðshugmynda sem Framsóknarflokkurinn er orðinn einn helsti fulltrúi fyrir á landinu. Það er kannski vegna þess að hann sé að útvega sér annan markhóp og aðra stuðningsmenn en þá góðu bændur sem komu þeim flokki á veg og stofnuðu hann í árdaga.