132. löggjafarþing — 20. fundur,  14. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[17:08]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það eru mikil vonbrigði að hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra og hæstv. umhverfisráðherra skuli bjóða Alþingi upp á þau vinnubrögð að leggja þetta frumvarp nánast óbreytt fram og væntanlega það sem á eftir fylgir eftir þær hrakfarir sem hæstv. ráðherrar fóru báðir í málunum á síðasta þingi. Þá voru þessi frumvörp lögð fram, þetta frumvarp og frumvarp um nýtingu og rannsóknir á jarðrænum auðlindum, en voru gersamlega óboðleg enda fengu þau þannig varmar viðtökur að hæstv. ráðherrar sáu þann kost vænstan, flutningsmaðurinn, hæstv. iðnaðarráðherra, að draga þau til baka.

Og maður hefði þá ætlað að vegna þeirrar hörðu gagnrýni, málefnalegu og þungu, sem þessi frumvörp sættu í umsögnum og umfjöllun á þingi í fyrra að hæstv. ráðherrar ynnu þau eitthvað heima í sumar og kæmu til leiks með málatilbúnað sem væri tækur. En það er öðru nær. Í raun og veru hefur hæstv. iðnaðarráðherra ekki á nokkurn hátt slegið af þeirri ósvífni sinni að ætla að slá algerlega forræði og eignarhaldi, ef svo má að orði komast, orkugeirans á vatnið í landinu, leggja vatnið undir orkuiðnaðinn og forræði hans endanlega, færa inn undir valdsvið iðnaðarráðuneytisins hluti sem þar hafa alls ekki verið.

Og svo virðist sem hæstv. umhverfisráðherra sé svo metnaðarlaus að hún velji þann kost að lúffa fyrir hæstv. iðnaðarráðherra og orkuiðnaðinum frekar en standa með sínum eigin starfsmönnum í undirstofnunum ráðuneytisins sem gáfu þessum málatilbúnaði algera falleinkunn. Hin efnislega og harða gagnrýni þeirra stendur nánast að öllu leyti nema það sé búið að líma fyrir munninn á þeim, einfaldlega vegna þess að þau atriði sem þeir gagnrýndu harðast ganga aftur í frumvarpinu óbreytt, t.d. skilgreiningin á vatni og valdsvið ráðuneytisins yfir því, einkaeignarréttarnálgunin á vatni sem fyrirbæri. Í iðnaðarráðuneytinu, og meðal þeirra manna sem hafa unnið að framlagningu þessa frumvarps, virðast menn vera algerlega óafvitandi um það í hvaða átt þessir hlutir eru að þróast annars staðar, á alþjóðavettvangi, í Evrópu, hjá Sameinuðu þjóðunum og í mörgum löndum sem hafa verið að setja lög þar sem algerlega gagnstæð nálgun er lögfest eða jafnvel tekin upp í stjórnarskrá. Sú nálgun að vatn sé sameiginleg auðlind, að vatn eigi ekki að meðhöndlast sem venjuleg verslunarvara, að einkaeignarréttur á landi eigi ekki rétt á sér, megi ekki verða.

Og það að við skulum sitja uppi með ráðherra á Íslandi og þessa yfirgengilegu frekju sem leggur hagnýtingar-, í skilningnum orkuöflunarnýtingar-, mælikvarða á alla skapaða hluti er auðvitað alveg ofboðslegt. Það er alveg ofboðslegt að það skuli ekki einu sinni vera minnst á vatn sem sameiginlega auðlind, undirstöðu lífs á jörðinni, mikilvægasta element alls lífs, lífríkisins, náttúrunnar, þar með talið mannsins og velferðar, heilbrigðis, lífs og viðhalds hans sem tegundar.

Nei. Það er Orkustofnun, það eru iðnaðarráðuneytið og Orkustofnun sem skulu ráða algerlega lögum og lofum. Allar framkvæmdir sem hafa áhrif á vatn í landinu á að sækja undir Orkustofnun, ekki Umhverfisstofnun, ekki umhverfisráðuneytið. (Iðnrh.: Það heyrir ekki undir mig.) Nei, það er nefnilega það. Undir hvern heyrir þetta þá? Auðvitað kemur það iðnaðarráðherra ekki við eftir allt saman.

Nei, frú forseti. Auðvitað er þetta alveg með endemum, þetta er með hreinum endemum. Það er fyrir það fyrsta ljóst hér að svið laganna er útvíkkað þannig að allt sem viðkemur vatni í föstu, fljótandi og gufukenndu formi skal heyra undir iðnaðarráðherra. Hann skal ráða yfir jöklunum, hann skal ráða yfir hinu rennandi vatni, jafnt á yfirborði sem neðan jarðar, og meira að segja skýin á himninum, vatn í gufukenndu formi, skulu falla hér undir. Ef það kæmi til greina að hagnýta þau skal iðnaðarráðherra veskú ráða því með Orkustofnuninni sinni. Vatn, jafnt á yfirborði og neðan jarðar, í föstu, fljótandi og loftkenndu formi skal það heita.

Grunnvatnið er hér fært undir eins og það leggur sig og jarðhitanum er skotið inn í, að vísu á sérkennilegan hátt. Um hann er aðallega fjallað í orðskýringum í greinargerð, að þetta skuli líka taka til heits vatns. Illu heilli voru sett hér lög sem slógu einkaeignarrétti á allan jarðhita, ekki bara lághita og á yfirborði heldur á háhita og í iðrum jarðar þannig að fleygur inn að miðju jarðarkringlunnar eða hnattarins skal meðhöndlast í einkaeignarlegu formi, samkvæmt þeirri snilld sem einkaeignarréttarsinnar hafa hér uppi á Íslandi þróað á undanförnum árum, (Gripið fram í.) alveg niður í þann svarta sjálfan já. Það dugar ekki minna.

Þetta, frú forseti, endurspeglast t.d. mjög vel ef skoðaður er IV. kafli frumvarpsins um nýtingu vatnsorku. Þá á sjálfsagt að þakka fyrir að menn eiga að fá að taka vatn til heimilisnota, samanber 15. gr., og þá aðgangsröð að vatni sem þar er talað um. En orðalagið er ákaflega lýsandi því í framhaldinu segir að þetta skuli:

„… takmarkast við það að enginn sé sviptur“ — það má ekki taka það alveg af honum — „vatnsnotum skv. 15. gr.“ — þ.e. til heimilis- og búsþarfa — „né neinum bakaðir“ — hvað? — „óhæfilegir örðugleikar“ — það má sem sagt með orðanna hljóðan baka mönnum þó nokkra örðugleika en ekki óhæfilega af þessum sökum — „um slíka notkun né vatni sem nota þarf með þeim hætti spillt fyrir neinum svo að“ — hvað? — „til verulegra óþæginda horfi“. Ekki bara óþæginda, nei það skal vera til verulegra óþæginda þannig að menn séu svolítið varðir af því að það megi vera óþægindi og það megi vera örðugleikar bara ekki óhæfilegir og ekki verulegir, óþægindin ekki veruleg.

Þetta er lýsandi fyrir hugarfar þeirra manna sem hafa sett þessa snilld á blað og á því ber hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra alla ábyrgð. Hann, öllu heldur hún, er höfundurinn, hæstv. ráðherra, að þessu orðalagi því að hún ber málið hér fram og ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn með henni.

Þetta er á sama tíma, frú forseti, og eins og ég hef áður vitnað til er risin alþjóðleg hreyfing í þá átt að slá skjaldborg um sameign mannkynsins á vatni sem mikilvægustu auðlind jarðarkringlunnar næst á eftir eða við hliðina á andrúmsloftinu sem við drögum að okkur, allt sem lífsandann dregur eins og þar er sagt, þá er vatnið auðvitað mikilvægasta undirstaða lífsins á jörðinni en það er af skornum skammti. Það eru vaxandi vandamál víða um heim sem tengjast vatnsskorti. Þess vegna er ekki út í bláinn að þessi mál eru komin á dagskrá alþjóðasamfélagsins með þeim hætti sem raun ber vitni. Loftslagsbreytingarnar sem við erum að mæta gera það líka að verkum að kannski kann þetta vandamál að reynast enn brýnna á komandi árum, áratugum og öldum en menn hafa jafnvel hingað til talið og er það þó ærinn handleggur að skaffa vaxandi fólksfjölda á jörðinni, sem stefnir í 9–10 milljarða um miðbik þessarar aldar, nægt drykkjarvatn. Eða hafa þessir hæstv. ráðherrar eitthvað kynnt sér það sem þarna er að gerast, þá umræðu sem fer fram á alþjóðavettvangi um vatn? Hafa þeir lesið skýrslur virtra umhverfisstofnana og alþjóðasamtaka um vandamálin sem hrannast upp í vatnsbúskap, ekki bara í fjarlægum hitabeltislöndum eða eyðimerkurlöndum heldur jafnvel í Evrópu sjálfri og í Bandaríkjum Norður-Ameríku?

Hvernig er ástandið í neysluvatnsborholum víða á meginlandi Norður-Ameríku? Vita menn hversu hratt vatn lækkar í öllum brunnum á Indlandi um þessar mundir? Um 3–5 metra á ári. Hvernig halda menn að það endist? Það er bullandi niðurdráttur í mörgum helstu vatnsgeymum á þurrlendum svæðum jarðarinnar sem standa undir ferskvatnsnotkuninni í dag. Því er fyrirsjáanlegt og framreiknanlegt að með sama áframhaldi verða gríðarlegir erfiðleikar í vatnsbúskap vítt og breitt á jarðarkringlunni. Við Íslendingar eigum ekki að láta eins og við getum einangrað okkur algerlega frá heiminum og látið eins og okkur komi þetta ekki við. Það er siðferðilega óábyrgt og rangt að reka hér einhverja allt aðra stefnu en þarna er á ferðinni. Þess vegna hafa Sameinuðu þjóðirnar, Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna, Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin og aðilar eins og Evrópusambandið tekið þetta mál á dagskrá, gert um það ályktanir og samið um það reglur.

Vita hæstv. ráðherrar ekki af vatnatilskipun Evrópusambandsins? Á ekki að heita svo að verið sé að undirbúa lögfestingu hennar hér á landi? Hún hlýtur að þurfa hér lagastoð a.m.k. að einhverju verulegu leyti. Hvað segir í þeirri ágætu tilskipun nr. 60/2000? Þar segir m.a. að vatn sé ekki söluvara heldur sameiginlegur arfur mannkyns sem beri að varðveita, vernda og umgangast í samræmi við það. Er andinn í frumvarpinu ekki í samræmi við þetta? Nei, ekki aldeilis. Sem ætlar að reyra fast í einkaeignarréttarlega fjötra og setja undir orkugeirann allt sem viðkemur vatni á Íslandi. Hvar eru vatnsverndarlögin? Hvar er lagalegur undirbúningur undir lögfestingu tilskipunarinnar? Bólar hvergi á því. Nei, það á að fara sömu leið og venjulega, byrja á öfugum enda og fella úr gildi einhverja merkustu löggjöf sem enn er við lýði frá fyrri áratugum á sviði umhverfismála á Íslandi, þ.e. vatnalögin frá 1923, sem voru satt best að segja ótrúlega framsýn og merkileg lög og þeim á bara að henda si svona fyrir þetta ofstæki úr iðnaðarráðuneytinu. Ég frábið mér slíkt. Ég tel þetta gersamlega ótæk vinnubrögð og ríkisstjórninni til skammar og er þá langt til jafnað því það þarf mikið til að ríkisstjórnin geti almennt orðið sér til meiri skammar en hún hefur þegar orðið fyrir langalöngu og sérstaklega hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra þegar kemur að sambúð manns og náttúru og sambúð nýtingarsjónarmiðanna annars vegar og verndunarsjónarmiðanna hins vegar. Það mætti svo sem kannski snúa þessari röksemdafærslu við og segja að það væri ekki von á neinu öðru, eins og hæstv. iðnaðarráðherra hefur kynnt sig. En lengi getur þó vont versnað verð ég að segja.

Ég vil láta það sjónarmið mitt koma fram að mér er sérstaklega sárt um vatnalögin. Þau voru og eru merk löggjöf og í aðalatriðum er engin sérstök knýjandi þörf á að gera breytingar á þeim. Það sem auðvitað þarf að gera er að fara eftir þeim. Menn hafa komist upp með það í stórum stíl að brjóta t.d. hina merku 7. gr. sem er einföld og skýr og fallega orðuð. Öll vötn skulu renna svo sem að fornu hafa runnið. Menn hafa lítið gert með það t.d. núna austur við Kárahnjúka þegar menn ætla að fara í stærstu vatnsflutninga Íslandssögunnar og þó víðar væri leitað, sulla eitt stykki stórfljóti milli dala, héraða og vatnasviða og þykir ekki tiltökumál.

Þetta frumvarp er líka að mínu mati stjórnskipulegur bastarður, óskapnaður. Það á að færa Orkustofnun — samkvæmt frumvarpinu ef að lögum verður, samkvæmt lögum sem þegar hafa verið sett á sviði raforkumála og samkvæmt því sem við höfum séð glitta í í frumvarpsuppkastinu varðandi nýtingu og rannsóknir jarðauðlinda — hlutverk sem á engan hátt fær staðist. Ég veit ekki hvers konar batterí og hof og musteri þessi Orkustofnun á eiginlega að verða. Gaman að óska frjálshyggjumönnunum í Sjálfstæðisflokknum til hamingju með að búa til þetta gríðarlega bákn og þessa valdamiðstöð sem þarna er verið að búa til í Orkustofnun. Orkustofnun á að vera allt í senn ráðgefandi stofnun fyrir stjórnvöld. Hún á að vera fagstofnun. Hún á að stunda grunnrannsóknir. Hún á að fara með eftirlit og leyfisveitingar. Hún á að annast eftirlit með framkvæmdum. Hún á náttúrlega að fylgjast með sjálfri sér og hún getur beitt stjórnvaldssektum ef allt þetta verður að veruleika sem ríkisstjórnin er með á prjónunum eða hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra handa Orkustofnun. Er þetta hrein verkaskipting hjá framkvæmdarvaldinu sem menn telja til fyrirmyndar? Telur hv. 11. þm. Reykv. s., Birgir Ármannsson, að þetta sé hrein uppskrift að sælunni í opinberum rekstri, að grauta þessu öllu saman og færa þetta inn undir eina stofnun og taka bara si svona eitt svið, vatnið í öllum sínum myndum og færa það undir lögsögu orkuiðnaðarins? Það er auðvitað það sem verið er að gera. Orkustofnun heitir ekki Orkustofnun út í bláinn. Hún er tæki til þess fyrst og fremst að halda utan um beislun orkunnar. Vatn er bara svo allt annað og miklu meira en þetta eina sem iðnaðarráðuneytið og Orkustofnun virðast sjá, að í því sé fólginn möguleiki til að ná út úr því orku. Vatnið miðlar orkunni á leið sinni undan hallanum því það hefur þá náttúru að vilja streyma niður í móti í aðalatriðum.

Síðan er spurningin um hvort yfir höfuð það fái náttúrulega og siðferðislega séð staðist að líta á vatn sem slíkt fyrirbæri að það geti lotið einkaeignarréttarlegum lögmálum. Vatn er ekki eitthvert stöðugt fyrirbæri sem menn geta gengið að á einum stað og þetta er ekki alltaf sama vatnið. Eða heldur hæstv. iðnaðarráðherra að það séu alltaf sömu mólekúlin sem séu í ánni? Nei, vatnið er í eilífri hringrás, ekki bara úr loftkenndu í fast eða fljótandi form og öfugt, heldur binst það lífríkinu og náttúrunni og leysist upp aftur, tekur breytingum. Þessi hringrás er stundum mæld í dögum, vikum, mánuðum og árum, stundum öldum, stundum árþúsundum og stundum milljónatugum ára eða milljörðum ára, allt eftir því hvar og í hvers konar hringrás vatnið á jörðinni og í gufuhvolfinu er. Það er mjög langt seilst ef menn líta svo á að þeir geti slegið einkaeignarrétti á fyrirbæri af þessu tagi. Hvað er þá eftir, hvað gæti komið næst? Hvernig væri að taka bara andrúmsloftið uppi, yfir landi í einkaeign? Vill kannski iðnaðar- og viðskiptaráðherra leggja það til næst? Að Lómatjörn eigi andrúmsloftið upp úr gufuhvolfinu (JBjarn: Og geti selt það.) í keilu upp frá Lómatjörn eins langt og andrúmsloftið nær (Iðnrh.: … gilda á Gunnarsstöðum.) Já, eða Gunnarsstaðir. Hvað dettur mönnum í hug næst, verð ég að segja? (Gripið fram í: Gunnarsstaðir eru góð jörð.) Hvað dettur mönnum í hug? Þetta er í raun og veru næstum því jafnfáránlegt að taka fyrirbæri í eilífri hringrás, í raun og veru lifandi auðlind eins og er að mörgu leyti nærtækt að kalla vatn og ætla að slá á það einkaeignarrétti þess lands sem það á viðkomu sína kannski augnablik, regndropana sem falla á jörðina og gufa upp að morgni. Nei, þeir skulu vera eign landeigandans a.m.k. á meðan þeir stoppa á jörðinni. Það er hugsunin í þessu.

Svo koma menn hér og bera á borð rök af því tagi að það að breyta grundvallarskilgreiningunni frá því sem er í gildandi vatnalögum, þar sem afnota- og hagnýtingarréttur manna er talinn upp og nær ekki lengra yfir í að þetta umljúki bara allt, sé til einföldunar. Þegar maður fer að leita rakanna í greinargerð með frumvarpinu þá er helst hægt að segja að það sé þar fram fært samanber IV. kafla í greinargerð á bls. 15, að bakgrunnur hinnar jákvæðu skilgreiningar á vatnsréttindum, þ.e. að hverfa frá þeirri sem notuð er í gildandi lögum yfir í hitt að það sé svona einfaldara. Það segir á bls. 17, með leyfi forseta:

„Eðli málsins samkvæmt leiðir það til mikillar einföldunar að telja ekki lengur upp með jákvæðum og næsta tæmandi hætti sérhverja heimild til vatnsnota sem fyrir hendi er heldur ganga einfaldlega út frá að öll nýting vatns sé heimil svo framarlega sem ekki eru settar við henni sérstakar skorður.“

Fasteignareigandi á öll möguleg og hugsanleg afnot vatns þau sem þegar hafa verið fundin upp og kunna að verða fundin upp með þessari aðferð. Það er nefnilega það. Og mönnum finnst þetta ekkert mál, bara si svona að skella sér í þetta. Það er til einföldunar, styttir frumvarpið, segir hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra í röksemdafærslu sinni. Nei, ég bið um eitthvað aðeins betra en þetta áður en ég læt sannfærast um að rétt sé að við Íslendingar förum þarna allt aðrar leiðir og verðum á allt öðru róli með þessi mál heldur en öll þróunin er í heiminum í kringum okkur. Hverju svara hæstv. ráðherrar því að þeir skuli vera að leggja fyrir þingið frágang mála sem er algerlega á skjön og gengur í gagnstæða átt við það sem Sameinuðu þjóðirnar sjálfar á allsherjarþingum sínum hafa ályktað um, sem umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna hefur unnið að, sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur unnið að og sem er á vettvangi evrópskra stofnana? Hver eru svörin? Hver eru rökin fyrir því að Ísland fari þarna í gagnstæða átt? Er hægt að fá þau, eitthvað annað og haldbetra en að það sé til einföldunar við einhverja frumvarpssmíð? Ég held að hæstv. ráðherrar verði að gera betur.