132. löggjafarþing — 20. fundur,  14. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[17:28]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að hv. þingmaður hefði átt að sleppa því að tala sig upp í þennan hita í sambandi við frumvarpið vegna þess að eins og margoft hefur komið fram er ekki um neina grundvallarbreytingu að ræða. Þetta veit hv. þingmaður.

Hvað varðar hagnýtingarréttinn eða einkaeignarréttinn eða hvað hv. þingmaður vill kalla það þá hefur hann verið til staðar frá 1923 þegar vatnalögin eru sett. Það sýna dómafordæmi. Hvað varðar eignarréttinn að öðru leyti var hann staðfestur með lögum frá 1998 um auðlindir í jörðu og grunnvatnið var skilgreint sem auðlind í jörðu. Þetta eru staðreyndir sem liggja fyrir og hv. þingmaður veit þetta mjög vel þó hann tali með þeim hætti sem hann gerir.

Það er náttúrlega ágætt að fá smákennslustund í því hvað er vatn. En það er líka ágætt að hafa það í huga að við Íslendingar nýtum kannski um 1% af grunnvatnsauðlindinni. Þetta er gríðarleg auðlind sem við eigum en engu að síður þurfa að ríkja lög í landinu um vatnið.

Af hverju þetta óskaplega hatur, liggur mér við að segja á Orkustofnun? Það er eins og Orkustofnun megi ekki hafa hlutverk. Hún er þó einfaldlega stjórnsýslustofnun sem heyrir undir ráðuneytið og hefur miklu hlutverki að gegna. Ef það er nafnið sem hv. þingmanni mislíkar svo mikið þá mætti hugsa sér að hún héti eitthvað annað eins og auðlindastofnun eða hvað það ætti að vera.

En aðalatriðið er það að við erum ekki að gera neinar breytingar sem heitið getur. Við erum vissulega að færa þetta inn í meira nútímaform, enda lögin frá 1923 og það er málið.

Hv. þingmaður er þjóðnýtingarsinni og hann vill taka þennan rétt af bændum sem eiga fasteignirnar. (Gripið fram í.) Annaðhvort eru menn þjóðnýtingarsinnar eða einkaeignarsinnar og hvort er hv. þingmaður? Ég ætla að biðja um að fá það alveg skýrt.