132. löggjafarþing — 20. fundur,  14. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[17:30]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það kom mér ekki á óvart að hæstv. ráðherra reyndi ekki að svara einni einustu spurningu sem ég bar fyrir hana og allra síst meginspurningunni sem ég marghnykkti á hér síðast: Hvernig útskýra hæstv. ráðherrar það fyrir okkur að lagt er til hér á Íslandi að við förum allt aðrar leiðir í þessum efnum en verið er að lögfesta og jafnvel taka upp í stjórnarskrám ríkja um þessar mundir og alþjóðastofnanir vinna að? Hvað segja hæstv. ráðherrar við því? Hver er málsvörn hæstv. umhverfisráðherra að láta bjóða sér þetta?

Lagalegar skilgreiningar skipta hér víst miklu máli. Það verða einhver mörk, lögsögumörk milli nýtingarsjónarmiðanna, nýtingarstjórnsýslunnar og umhverfisverndarhliðarinnar, umhverfisverndarþáttanna hins vegar, nema menn ætli bara að slá af allt sem heitir vatnsvernd og umhverfisvernd í landinu.

Ég ber ekkert hatur til Orkustofnunar, það er furðulegt að hæstv. ráðherra skuli taka sér það orð í munn. Þarf maður að bera hatur í garð stofnana þó að maður telji að vera þurfi skýrt hvaða verksvið þær eigi að hafa? Margir ágætir vinir mínir og skólabræður vinna hjá Orkustofnun og ég veit að þeir eru það þroskaðir langt umfram ráðherrann að taka það ekki til sín þó að ég gagnrýni það hlutverk sem ég tel að verið sé að færa Orkustofnun þarna, þar sem öllu er grautað saman, faglegum þáttum, stjórnsýslu, leyfisveitingu, jafnvel stjórnvaldssektum, ýmiss konar eftirliti, útgáfu framkvæmdaleyfa. Þetta er allt í einum graut inni í þessari stofnun. Og Umhverfisstofnun, sem er líka opinber stofnun sem mér líkar vel við, hvar er hún í þessu? Hvernig stendur á því að umhverfisþátturinn er þarna bara alls ekkert með á blaði eins og hann sé ekki til? Af hverju er ekki byrjað á því að setja vatnsverndarlög og skilgreina að hvaða leyti þau taka þessa þætti yfir áður en menn koma að nýtingunni?

Þessi lög ættu í rauninni að vera ákaflega einföld og heita frumvarp til laga um nýtingu vatns til orkuöflunar. Það er í alveg í lagi að hafa einfalda löggjöf um þann þátt málsins, en meira á það ekki að vera (Forseti hringir.) sem er undir iðnaðarráðherra og Orkustofnun.