132. löggjafarþing — 20. fundur,  14. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[17:36]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er náttúrlega ekki þægilegt að ræða þessi mál við stjórnarsinna ef þeir hafa alls ekki áttað sig á því hvað fólgið er í frumvarpinu. Það er von að erfitt sé að eiga rökræður um þessa hluti því að hér er því haldið fram að engin breyting sé á ferðinni í þessu frumvarpi. Hvernig stendur þá á því að gagnvart nákvæmlega sama frágangi málsins í frumvarpinu sem flutt var í fyrra vöruðu við og lögðust gegn því fjölmargir umsagnaraðilar og bentu m.a. og ekki síst á þann varhugaverða viðsnúning málsins að hverfa frá nálgun vatnalaganna 1923 um að lýsa réttindunum með alveg tæmandi hætti, réttindum sem fólgin væru í að eiga land og hafa afnotarétt af og aðgang að vatni sem þar væri og hverfa yfir í hitt fyrirkomulagið, að slá einkaeignarréttarlegum rétti á þetta fyrirbæri sem slíkt, skilgreina það þannig að lögum?

Laganefnd Lögmannafélagsins, Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun og fjölmargir aðrir umsagnaraðilar voru með þetta sem einn af útgangspunktum í umsögnum sínum. Þeir bentu t.d. á alþjóðaþróunina. Þeir bentu á vatnatilskipun Evrópusambandsins og það var vísað í vinnu Sameinuðu þjóðanna o.s.frv.

Halda menn að þetta hafi allt saman verið misskilningur, allt út í loftið, að engir hafi skilið þetta nema hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra Valgerður Sverrisdóttir og hv. þm. Birkir Jón Jónsson? Að allir hinir hafið misskilið þetta, allir sérfræðingarnir hjá Umhverfisstofnun, hjá Náttúrufræðistofnun, í laganefnd Lögmannafélagsins og hvað það nú var? Þetta séu allt saman aular sem hafi misskilið þetta og einu mennirnir sem hafi náð þessu séu stjórnarþingmennirnir?