132. löggjafarþing — 20. fundur,  14. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[18:21]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég varð náttúrulega fyrir miklum vonbrigðum að heyra að lögfræðingurinn, þótt það sé þingmaður Framsóknarflokksins, hefði ekki lesið frumvarpið betur og áttað sig á meginbreytingum sem frumvarpið veldur. Eignarréttarákvæðum er t.d. breytt hvað varðar að í fyrri lögum er nýtingarrétturinn skráður og tilgreindur en nú er því snúið á hinn veginn. (SKK: Hver er efnisbreytingin?) Þetta er veigamikil breyting, frú forseti. Ég fer að efast um lögfræðikunnáttu þeirra sem hafa slíkt embættispróf. En málið er það, frú forseti, að hér er tekið á málunum á röngum enda. Ég spyr þá líka hv. þingmann á móti, frú Jónínu Bjartmarz: Hvers vegna ekki að taka vatnsverndina á undan? Er það ekki eðlilegur liður í ferli máls sem þessa?