132. löggjafarþing — 20. fundur,  14. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[18:40]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Það er gott að heyra það, virðulegi forseti, að hv. þm. Ögmundur Jónasson er sannfærður í trúnni um ágæti þjóðnýtingar. Það leynist engum sem hlustaði á þetta andsvar hans. Það er nú samt sem áður þannig að reynslan hefur sýnt okkur að séreignarrétturinn og séreignarréttarkerfið hefur skilað betri afrakstri, betri umgengni og betri afkomu en þjóðnýtingarkerfið. Við þurfum ekki annað en að líta til gömlu Austur-Evrópu, sem ég veit að hv. þingmaður þekkir líklega betur en ég, til þess að sjá merki um þetta.

Hv. þingmaður segir að með þessu frumvarpi sé verið að festa í sessi eignarréttinn. Það má alveg til sanns vegar færa hjá hv. þingmanni. Það er verið að festa í sessi það réttarástand sem skapað var með vatnalögunum frá 1923 og túlkun á eignarréttinum í framhaldi af setningu þeirra laga sem fram hefur farið í Hæstarétti Íslands. Það má alveg halda þessu fram réttilega eins og hv. þingmaður gerir.

En hann má ekki ruglast á því að almannarétturinn samkvæmt þessu frumvarpi er ekki fyrir borð borinn í þessu frumvarpi eins og hér hefur verið haldið fram. Einstaklingar og fólk mun eftir sem áður, þó svo að þetta frumvarp verði að lögum, hafa alveg sama umgengnisrétt og umferðarrétt og það hafði áður samkvæmt gömlu vatnalögunum eða núgildandi vatnalögum. Hv. þingmaður getur gengið úti í náttúrunni eftir samþykkt þessa frumvarps, verði það að lögum, og fengið sér vatnssopa í lækjarsprænum úti í guðsgrænni náttúrunni. Hann getur jafnvel baðað sig. Þetta er almannarétturinn og hann er virtur. Það er alveg á hreinu. (Forseti hringir.) Ég hvet hv. þingmann til þess þá að lesa frumvarpið betur og kynna sér almannaréttinn.