132. löggjafarþing — 20. fundur,  14. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[19:12]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Það hefur verið ansi merkileg umræða um þetta frumvarp til vatnalaga. Hér hafa verið ákveðin hugmyndafræðileg átök þar sem í ljós hefur komið að málið hefur verið sett svo mjög ankannalega upp af sumum að annars vegar snúist það um átök kommúnisma og hins vegar últra hægri stefnu þar sem hæstv. iðnaðarráðherra er í forsvari fyrir, þ.e. einkarétt til náttúruauðlinda, og hins vegar kommúnismi þar sem almannaréttur takast á. Þetta er auðvitað vitleysisumræða. Ég hefði talið að Framsóknarflokkurinn ætti að hugsa sig betur um áður en hann færi að leggja sama vitleysisfrumvarpið fram á ný og gera það síðan að þessari umræðu, snúa þessu upp í andhverfu sína.

Ég tel að þetta vatnalagafrumvarp sé illa unnið. Ég fór í gegnum það í iðnaðarnefnd í vor, á síðasta þingi. Ýmsir hnökrar komu fram á frumvarpinu sem ég hefði talið að menn hefðu átt að hafa haft vit á að sníða af, burt séð frá efni frumvarpsins.

Til dæmis hefur komið fram að allar þær skilgreiningar sem eru í frumvarpinu eru mjög illa unnar. Ég þakka mínum sæla fyrir að menn ræði ekki frumvarpið á degi íslenskrar tungu. Hvað er t.d. vatnsleg, og ýmsir orðaleppar? Það er alveg ótrúlegt að lesa frumvarpið. Einnig 11. gr. frumvarpsins. Mjög mikil umræða var um hana í nefndinni en ekki er gerð nokkur tilraun til að lagfæra 11. gr. þó svo að hún sé algjörlega óskiljanleg.

Ég ætla að lesa, með leyfi forseta, upp úr þessu frumvarpi sem ég tel þinginu til skammar að taka á ný til umræðu án þess að hafa lagfært það, burt séð frá efni frumvarpsins. En í miðri greininni segir:

„Nú vex gras upp úr vatni við lágflæði og fylgir vatnsbotn þá landi sem þurrt land væri.“

Þetta skilur enginn. Við ræddum lengi í nefndinni hvað þetta þýddi í raun og veru. Það væri ágætt ef hv. þingmaður, formaður iðnaðarnefndar, segði okkur frá því í umræðunni hvers vegna hann tók ekki á þessu. Kom hann ekki þessum skilaboðum til flokkssystur sinnar, hæstv. iðnaðarráðherra, og fór í gegnum að þetta er ótækt, bæði þessar skilgreiningar, sem fjölmargar eru illskiljanlegar? Er hægt að bera þetta á borð enn á ný og þannig að þingið verði að athlægi þegar málið verður á ný sent til umsagnar?

En svo við snúum að efni frumvarpsins og þeim hugmyndafræðilega ágreiningi sem virðist hafa komið upp milli almannaréttar og einkaréttar þá er eins og Framsóknarflokkurinn sé farinn að reka áróður fyrir einkaréttarhagsmunum og telji þá jafnvel geta strítt gegn almannahagsmunum, séu almannahagsmunir í forgrunni. Benda mætti á umræðuna um að verði þeir ofan á sem skilgreina þetta með öðrum hætti, þ.e. að almannahagsmunir séu í forgrunni, þá geti það bitnað að einhverju leyti á hagsmunum bænda.

Ég verð að segja það að ég hef bara ekki séð slík vandamál í núgildandi lögum. Hvaða vandamál er verið að leysa með frumvarpinu? Það væri ágætt að menn færu aðeins yfir það. (Gripið fram í.) Það hefur bara ekki komið fram. Eina röksemdin er að lögin séu gömul. Allir eru sammála, og ég trúi ekki öðru en hv. formaður iðnaðarnefndar sé því sammála að ýmislegt megi betur fara í frumvarpinu, t.d. skilgreiningar og ýmsir orðaleppar. Hvers vegna fara menn aftur með sömu vitleysuna í gegnum þingið? Mér finnst það með ólíkindum.

Annað sem við þurfum að ræða er að þegar fram koma athugasemdir, ekki bara einhverjar smávægilegar athugasemdir heldur athugasemd frá meginstofnun umhverfisráðuneytisins, hæstv. iðnaðarráðherra, þá gera menn ekkert með það. Menn svara því ekki nema með skætingi, eins og fram kom í ræðu hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur. Það kom fram að hæstv. umhverfisráðherra var að skamma undirstofnun sína, helstu stofnun ráðuneytis síns í stað þess að svara þeirri umsögn efnislega og fara í gegnum það.

Að hverju kemst Umhverfisstofnun? Hún kemst að því, eftir að hafa lesið þetta frumvarp gaumgæfilega ... (BJJ: Ekki þetta frumvarp, heldur gamla frumvarpið.) Gamla frumvarpið, segir hv. formaður iðnaðarnefndar. Frumvarpið sem hér er um að ræða, hið svokallaða nýja frumvarp, er nánast bara afrit af því gamla. Við erum að fjalla um nákvæmlega sama hlutinn. Menn geta ekki tekið út augljósa orðaleppa og vitleysisskilgreiningar. Það er hægt að rekja nokkur atriði.

Hvað er mannvirki? Ég bið þá sem heyra, að spyrja sjálfa sig: Hvað er mannvirki? Maður hefði nú haldið að það gæti nú verið eitthvað sem maðurinn hefði lagt hönd á og búið til. Nei, það er samkvæmt 12. grein skilgreiningarinnar „hvers konar manngerðar tilfæringar, t.d. brú eða virkjun“. Þetta er mannvirki samkvæmt þessu frumvarpi.

Hvað er vatnsleg? Samkvæmt þessu frumvarpi er vatnsleg „lægð í landi, sem vatn stendur í, vatnsfall eða stöðuvatn, ásamt tilheyrandi botni og bökkum allt að vatnsborðsstöðu við háflæði. Lönd sem flæðir yfir ofan háflæðis teljast ekki til vatnslegs“. Þá vitum við það. Þetta eru merkilegar skilgreiningar.

Þegar maður sér að ekki hefur verið tekið mark á athugasemdum heldur haldið áfram með vitleysuna þá staðfestir það grun manns um að hæstv. iðnaðarráðherra hafi ekki hugsað þetta mál til, líkt og mörg önnur mál sem hæstv. ráðherra hefur farið með í gengum þingið og jafnvel glaðst ógurlega og verið með mikil fagnaðarlæti. Í því sambandi minnist maður raforkulaganna. Það er alltaf verið að vitna til þess að þetta nýja frumvarp sé til varnar bændum. En það kemur aldrei fram hvaða vandamál það á að leysa fyrir bændur. Hins vegar hefur komið fram, hv. þm. Birkir Jón Jónsson, varðandi raforkulögin, sem var fagnað svo ægilega af framsóknarmönnum þannig að fagnaðarlætin ætluðu aldrei að stoppa, að þegar bændur fengu raforkureikninginn í kjölfar fagnaðarláta framsóknarmanna var ekki neinn fögnuður. Það eru til dæmi um 50–100% hækkun.

Mér finnst með ólíkindum að Framsóknarflokkurinn skuli ekki sjá að sér vegna þess að það liggur ekkert á að fara með frumvarpið í gegn. Það er með ólíkindum að framsóknarmenn skuli enn og aftur fara með svona dellu í gegnum þingið.

Það sem er sorglegt en satt er að þegar umsagnirnar, sem að hafa komið fræðimenn með háskólagráður sem legið hafa yfir frumvarpinu mjög lengi, hafa verið ræddar þá hefur hæstv. iðnaðarráðherra bara galað að þetta séu vitlausar umsagnir. Ekkert annað, þetta er bara vitleysa. Ef þetta er vitleysa væri þá ekki borðleggjandi að leggja fram einhvern rökstuðning fyrir því að þetta sé vitleysa? Maður hefði talið það eðlilega kröfu, sérstaklega þegar í hlut á meginstofnun umhverfisráðuneytisins. Það er lágmark. Sérstaklega er það mikilvægt þegar hæstv. ráðherra hefur æ ofan í æ gengið fram með vitleysu, lofað í miðjum fagnaðarlátunum að raforka skyldi t.d. ekki hækka. En síðan sér fólk á landsbyggðinni að það hækkar gríðarlega mikið.

Ég hefði talið, áður en menn fara í að raska almannaréttindum til að tryggja einkaréttindi, sem í sjálfu sér má athuga, ættu þeir að fara rækilega í gegnum athugasemdirnar í stað þess að gala bara: Vitleysa.