132. löggjafarþing — 20. fundur,  14. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[19:31]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Það eru nokkur atriði sem ég vildi koma að frekar varðandi frumvarp það sem hér liggur fyrir um vatnalög sem hæstv. iðnaðarráðherra mælti fyrir, sem felur í sér, eins og hæstv. ráðherra hefur ítrekað, skýra eignarheimild á vatni til þess síðan að geta ráðstafað því eins og gert er um aðrar fasteignir.

Við höfum áður minnst á það í umræðunni að miklu réttara væri að leggja fyrst fram og ræða vatnsverndarlög því að um það snýst málið til framtíðar. Síðan væri hægt að ræða á grundvelli þeirra lög um afmarkaða nýtingu þessarar auðlindar. Hér velur iðnaðarráðherra að fara hina leiðina, að fá lög staðfest fyrst sem gefur heimild til mun víðtækari einkavæðingar og framsals á vatni en áður hefur verið.

Rætt hefur verið um rétt bænda í þessu sambandi. Það kom ágætlega fram í ræðum, bæði hjá hv. þm. Merði Árnasyni og hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni, að bændur hafa alla tíð átt eðlilegan og nauðsynlegan rétt til að nýta vatn til sinna þarfa. (Gripið fram í.) Það hefur alltaf verið svo. Þessi lög eru ekki að ganga á það. Hins vegar er verið að gera þessi lög miklu víðtækari. Verið er að færa eignarréttarákvæði á vatni og ekki aðeins á kyrrstæðu vatni heldur eins og stendur í 2. gr., frú forseti, á allt rennandi vatn, kyrrstætt vatn á yfirborði jarðar og neðan jarðar í föstu … Hvernig getur vatn verið fast? Líklega sem ís, freðið. Eignarréttarákvæði á vatni í föstu formi, fljótandi formi eða loftkenndu formi, þ.e. gufu. Hérna er verið að færa inn eignarheimild á vatni á öllu því formi sem það getur birst í.

Það er svo mikilvægt, sagði hæstv. ráðherra Framsóknarflokksins, einkavæðingarráðherra Framsóknarflokksins, að gera eignarhaldið skýrt svo hægt sé að framselja það. Við vitum hvað verið er að gera varðandi rafmagnið, við þekkjum vinnubrögð Framsóknarflokksins í einkavæðingarmálum.

Það er athyglisvert að umhverfisráðherra, talsmaður og umboðsmaður umhverfismála fyrir hönd þingsins, fyrir hönd framkvæmdarvaldsins, skuli láta málið ganga með þessum hætti, ekki síst í ljósi þess að stofnanir á vegum umhverfisráðuneytisins, bæði Náttúrufræðistofnun Íslands og Umhverfisstofnun, hafa gefið umsagnir um málið eins og verið er að keyra það í gegn og lagst gegn því. Ég vitna til umsagnar Náttúrufræðistofnunar Íslands frá því á síðasta vetri en þar segir, með leyfi forseta:

„Vatn er lífsnauðsynleg auðlind og arfleifð alls mannkyns og alls lífríkis á jörðinni.“ — Og áfram segir í þessari umsögn: „Nú er unnið að lögleiðingu vatnatilskipunar ESB hér á landi í heildstæðri löggjöf um vernd og nýtingu vatns. Náttúrufræðistofnun leggst gegn því að sértæk lög um eignarhald og umsýslu með vatni sé lögfest áður en fyrir liggur hvernig vatnatilskipunin verður innleidd.“

Náttúrufræðistofnun bendir á þessi tæknilegu atriði fyrir utan það að vatn er auðlind sem allt lífríki jarðarinnar á, bæði til skamms tíma og lengri tíma, og er þess vegna útilokað að ætla að fela eignarréttarákvæði á vatni í hendur einhverra einstaklinga.

Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson minnist á áðan á að svo miklu betur væri farið með auðlindina ef hún væri í einkaeign. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, dró enga dul á stefnu síns flokks um að setja bæri sem flestar auðlindir í einkaeign, enda er þetta hægri flokkur. Það sem kemur á óvart, frú forseti, er að Framsóknarflokkurinn, sem hingað til hefur reynt að stimpla sig á miðjunni, skuli vilja ganga jafnvel enn lengra en Sjálfstæðisflokkurinn, er kominn hægra megin við Sjálfstæðisflokkinn hvað varðar einkavæðingu á almannaeignum og almannaréttindum.

Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson sagði að betur yrði gengið um auðlindina. Það er bara ekki alltaf svo. Ég hef hér nýjustu fregnir frá Bretlandi þar sem búið er að einkavæða stóran hluta bæði af vatnsveitum og líka af vatnsauðlindinni. Þegar búið er að einkavæða eitthvað og það er síðan orðið söluvara gerum við öðruvísi kröfur til slíkrar vöru. Ef maður vill kaupa 10 lítra af vatni á dag úr einkavæddri auðlind vill maður fá þá 10 lítra sama hvað tautar og raular. Við gerum kröfur. Hljóðar ekki auglýsingaskilti í íslenskum auglýsingamiðlum upp á það: Gerum kröfur! Þegar koma síðan þurrkar og erfitt verður að afgreiða vatn á viðkomandi svæðum þá sagði mér Íslendingur sem búsettur er í Bretlandi að erfiðara yrði að ræða við almenning á þeim forsendum að spara yrði vatnið vegna þess að það væri ekki til. Hann sagði: Við erum búin að gera samning um kaup á þessu vatni og við viljum fá það. Afstaðan hefur breyst, sagði þessi Íslendingur mér, frá því sem áður var þegar vatnið var sameiginleg auðlind og við tókum sameiginlega ábyrgð á því. Þá skildi fólk að það gat líka þrotið, það gat líka verið skortur á því og þá var þægilegra að ræða sameiginlega um að spara vatn. En eftir að vatnið er orðin einkavædd auðlind og búið er að gera samningsbundin kaup á því þá vilja menn náttúrlega fá vöruna.

Þau rök hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar um að auðlindin sé betur fólgin í einkahöndum falla um sjálf sig. Þetta er auðlind sem við nýtum sameiginlega, verndum sameiginlega og berum sameiginlega ábyrgð á. Við gerum okkur grein fyrir því að án vatns verðum hvorki við né annað lífríki til á jörðinni. Einkavæðing á vatni stríðir gegn öllum grunnhugmyndum fyrir samfélagslegu lífi á jörðinni. Það er því mjög dapurt, frú forseti, að upplifa það hér að Framsóknarflokkurinn, sem einu sinni kenndi sig við félagshyggju, samvinnu og sameign, skuli nú vera sá flokkur sem keyrir fram frumvarp um einkavæðingu á vatni.