132. löggjafarþing — 20. fundur,  14. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[19:41]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég hef sannfærst betur um það við þessa umræðu en áður að hér er á ferðinni pólitískur einkavæðingarleiðangur Framsóknarflokksins. Það hefur orðið niðurstaða í samningum milli stjórnarflokkanna að þessi mál skyldu ná í gegn. Þau skyldu fara í gegn núna og ekki beðið eftir því að hægt væri að taka heildstætt á málinu, eins og hér hefur ítrekað verið lagt til þó svo að ekki hafi komið fram neinar skynsamlegar skýringar á því hvers vegna menn þurfa að reka trippin svo hratt í þessum málum. Hér er ekki um neinn vanda að ræða. Það kemur skýrt fram í gögnum með málinu frá hendi þeirra sem sömdu frumvarpið að enginn vandi sé í raun og veru uppi en þó sé ástæða til, og það hafa menn tekið undir, að endurskoða þessi lög. En auðvitað væri miklu betra, og það ætti Alþingi ævinlega að hafa í huga í meðferð mála, að hafa heildstæða yfirsýn og gera hlutina vel.

Það hefur líka komið fram af hálfu hæstv. ráðherra að það er að yfirlögðu ráði sem ekki hefur verið brugðist við áliti Lögmannafélagsins sem taldi nauðsynlegt að það kæmi skýrt fram að hér væri um formbreytingu að ræða ef það væri niðurstaðan, eins og stendur einhvers staðar í þeim gögnum sem fylgja frumvarpinu. Hæstv. ráðherra vildi ekki bregðast við þessu áliti Lögmannafélagsins sem að mínu viti þýðir að í lögskýringum síðar meir verður vitnað til þess að þrátt fyrir álit Lögmannafélagsins hafi menn ekki brugðist við því og þess vegna beri ekki að líta svo á að hér sé einungis um formbreytingu að ræða. Það er a.m.k. skoðun mín að þarna geti verið hætta á ferðum sem menn þurfi að skoða og ég mun rökstyðja það betur á eftir.

Í 1. gr. þessa lagafrumvarps stendur að markmiðið sé að eignarhald á vatni verði skýrt. Það er mín skoðun að eignarhald á vatni geti aldrei orðið skýrt nema þá á því vatni sem maður hefur í glasinu sínu. Ekki á því vatni sem rignir af himnum ofan, ekki frekar en fuglum himinsins. Ég tel því að þessi leiðangur hafi í sér fólgið eitthvert annað ætlunarverk en að menn trúi því raunverulega að eignarhald á vatni geti verið skýrt. Segja má að það komi dálítið fram í frumvarpinu sjálfu á hvaða leið menn eru því verið er að herða á ákvæðum um framkvæmdir og ég vitna þar í 9. gr.: „Nú eiga menn fasteign í félagi og vilja sumir stofna til vatnsveitu til heimilis- og búsþarfa á eigninni, koma þar á fót samáveitu, stofna til vatnsmiðlunar eða verjast ágangi vatns“ o.s.frv. Þá er þeim sem eiga minni hluta í þessum fasteignum gert skylt að taka þátt í þessu verkefni og verði ekki samkomulag um framkvæmd eða umsjón verksins skal skorið úr með mati dómkvaddra matsmanna. Og það eru fleiri atriði í frumvarpinu sem þrengja í raun og veru möguleika þeirra sem eru í minni hluta gagnvart réttindum.

Til dæmis má sjá í 18. gr. að þar er talað um að: „Orkunýtingarréttur fasteignareiganda takmarkast við það að enginn sé sviptur vatnsnotum … né neinum bakaðir óhæfilegir örðugleikar um slíka notkun né vatni sem nota þarf með þeim hætti spillt fyrir neinum svo að til verulegra óþæginda horfi.“

Þarna er minni hlutinn settur í þann vanda að þurfa að taka þátt, hann getur ekki vikið sér undan með sama hætti og áður var. Hann er skyldaður til þess með lagaákvæðunum að taka þátt í mannvirkjagerð sem hefur þann tilgang í sér að nýta t.d. orku eða gera eitthvað annað sem getur skapað ábata fyrir meiri hluta landeigendanna.

Í 20. gr. segir einnig: „Nú vill eigandi annars vatnsbakkans ekki taka þátt í mannvirkjagerð og getur ráðherra þá heimilað eignarnám til afnota af landi hans til að framkvæma verkið og nota vatnið. Náist ekki samkomulag um bætur skal ákveða þær með eignarnámsmati.“

Mér finnst að flest sem kemur til viðbótar því sem fyrir var bendi til þess að verið sé að þrengja að rétti minni hluta eigenda í fasteignum. Ég ætla ekki að fara yfir þessi mál neitt nákvæmlega því búið er að nefna ýmislegt af þessu. Gagnrýni sem kom fram í nefndinni hefur ekki skilað sér í breytingum á frumvarpinu. Og ég ætla að nefna eitt enn. Það er VIII. kafli um vatnafélög. Það hefur ekki verið gert neitt við þann kafla en ég þykist hafa rökstutt það nokkuð vel að hann hafi ekkert erindi í þetta lagafrumvarp. Sá kafli fjallar um að stofna félög sem enginn er skyldugur til að taka þátt í. Þetta eru almenn ákvæði um stofnun félaga sem enginn er skyldugur til að vera með í og ég sé ekki betur en hann eigi í rauninni ekkert erindi í frumvarpið m.a. af þeirri ástæðu. Vel kann að vera að reglur þurfi að vera til um hvernig menn stofni félög. En að það eigi erindi inn í lagabálk eins og þennan, að búa til einhverjar sérreglur eða kveða með sérstökum hætti á um félög sem enginn er skyldugur til að taka þátt í, menn geta stofnað þau að vild sinni þeir sem vilja, það dreg ég mjög í efa. Ég óska eftir rökstuðningi fyrir því að þessi kafli er hafður áfram í frumvarpinu.

Vissulega er hægt að ræða þetta mál býsna lengi og fara yfir hitt og þetta. Ég vil nefna 11. gr. Enn er verið með mjög óljósar vísbendingar um hvernig eigi að kveða á um landamerki. Það var einmitt minnst á þessa grein áðan.

„Nú vex gras upp úr vatni við lágflæði og fylgir vatnsbotn þá landi sem þurrt land væri.“

Nútíminn í þessu er sá að öll lönd eru í raun og veru merkt upp með hnitum. Öll landamerki í okkar landi eru að verða hnitamerkt. Ég tel að í raun sé fráleitt að hafa í lagagrein svo óljósar vísbendingar um hvar landamerki liggi. Það geti farið eftir því hvernig árar hverju sinni hvað menn halda um hvar vatnsbakkinn sé af því að gras sem vex upp úr vatni er kannski ekki alltaf á sama stað og kemur ekki endilega upp úr vatninu alltaf. Grasið auðvitað fellur og sölnar, vex upp aftur og stundum kemur kannski minna gas upp úr vatni en áður hafði verið. Mér finnst einhvern veginn að þetta sýni bara að hér hafi menn ekki vandað sig. Það er eiginlega ekki bjóðandi upp á þetta í nútímanum þar sem hægt er að ganga frá landamerkjum með skýrum hætti með hnitum með nútímatækni, þetta hefur auðvitað verið barn síns tíma. Kannski eru menn að halda í eitthvert gamalt orðalag. En hvers vegna leggja menn svona mikla áherslu á að endurskapa lög sem eru orðin gömul ef menn ætla að halda í grasið?