132. löggjafarþing — 20. fundur,  14. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[19:58]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það sem við ræðum um í dag, vatn, er kannski fyrirbæri sem við Íslendingar ættum að líta á sem hinn sjálfsagðasta og eðlilegasta hlut í heimi, vatn, hreint vatn. En það má spyrja þeirrar spurningar hvort vatn sé svo sjálfsagður hlutur.

Ég hef alltaf litið á vatn sem sjálfsagðan hlut og aldrei haft neinar efasemdir um annað en vatn væri algerlega sjálfsagður hlutur. En það rann upp fyrir mér ljós fyrr á þessu ári, í mars, þegar ég fór í ferð með nokkrum þingmönnum til Ísraels og Palestínu. Þá gerði ég mér grein fyrir því að vatn er ekki alls staðar sjálfsagður hlutur. Hreint og tært vatn er ekki sjálfsagður hlutur. Ég gerði mér grein fyrir því þegar við ferðuðumst um Palestínu, Ísrael og fórum upp Gólanhæðir fór maður að skilja út á hvað átökin þar hafa gengið í öll þessi ár. Þau hafa nefnilega gengið út á aðganginn að vatni, umráðaréttinn yfir vatnsbólum, umráðaréttinn yfir fjallahéruðum þar sem vatn fellur af himnum ofan, streymir síðan neðan jarðar í gegnum setlög inn á svæði sem eru mjög mikilvæg fyrir Ísraelsmenn til landbúnaðar. Vatnið er að sjálfsögðu með þessum hætti grundvöllur alls lífs á þessu svæði.

Ég man alltaf að við Íslendingarnir rákum upp stór augu þegar við komum í héruð Drúsa en Drúsar eru fjallaþjóð, landbúnaðarþjóð sem býr í Gólanhæðum á landsvæðum sem tilheyrðu Sýrlandi allt þar til í Yom Kippur stríðinu árið 1973 að Ísraelsmenn réðust þar inn og ráku Sýrlendinga eða sýrlensk stjórnvöld á brott og hafa síðan haldið þessu svæði og haft yfir því yfirráð, haldið því sem hernumdu landi. Ísraelsmenn settu fyrir nokkrum árum hömlur á vatnsnotkun Drúsanna til jarðyrkju og vildu stjórna því hversu mikið vatn þeir fengju til að rækta sínar jurtir og sín tré. Þá tóku Drúsarnir sig til og settu upp opin vatnsker vítt og breitt um landið, stór vatnsker, stór eins og olíutanka, bara opið að ofan og í þessi vatnsker söfnuðu þeir rigningarvatninu sem féll af himnum ofan þannig að Ísraelsmenn gátu ekki nýtt sér einhver svokölluð eignarréttarákvæði á vatninu sem rann ofan á jörðinni eða rann um setlög niðri í jörðinni, grunnvatnið. Drúsarnir sögðu við þá: Þetta vatn fellur af himnum ofan, þið getið ekki skattlagt okkur fyrir þetta vatn. Við ætlum okkur að nota þetta vatn og veita því á okkar akurlendi.

Ísraelsmenn ráku upp stór augu og þeir töldu, nei, við getum líka skattlagt rigninguna, við getum sett vatnsskatt á rigninguna líka og þeir reyndu það. Þeir fóru um öll þessi héruð og skrifuðu stór númer utan á vatnstankana, einhvers konar vatnsskattsnúmer og ætluðu að fara að rukka fyrir það vatn sem féll af himnum ofan. En Drúsar sögðu þeim einfaldlega: Ef þið gerið þetta þá verður hér stríð og Ísraelsmenn bökkuðu út úr þessu og hættu við. En númerin eru þarna enn þá, tankarnir eru þarna enn þá, vitnisburður um að það er hægt að reyna að slá eignarrétti sínum á vatn.

Það er einmitt þess vegna sem ég kem hér upp, virðulegi forseti, því að þegar við vorum að lesa þetta frumvarp hnutum við í þingflokki Frjálslynda flokksins strax um 4. gr. sem segir svo, með leyfi forseta:

„Fasteign hverri, þar með talið þjóðlendu, fylgir eignarréttur að því vatni sem á henni eða undir henni er eða um hana rennur.“

Það er þetta orð, eignarréttur, sem er að plaga mig og fleiri, veldur okkur heilabrotum og fær okkur til að staldra við. Í gömlu lögunum — mér hefur heyrst af umræðum nú síðdegis að þessi nýju lög séu í raun og veru alveg eins og gömlu lögin, það er verið að reyna að telja okkur trú um að þetta séu nákvæmlega sömu lögin, það sé bara verið að lagfæra orðalag og svona aðeins að snyrta þetta til og færa þetta til nútímahorfs — finn ég hvergi þetta orð, eignarréttur á vatni, eða þessa skilgreiningu eða hvað við eigum að kalla þetta. Þar er hvergi talað um eignarrétt á vatni. Hins vegar hljómar 2. gr. laga nr. 15 frá 20. júní 1923 svo, með leyfi forseta:

„Landareign hverri fylgir réttur til umráða og hagnýtingar því vatni, straumvatni eða stöðuvatni, sem á henni er, á þann hátt, sem lög þessi heimila.“

Nú er ég ekki lögfræðimenntaður maður en ég fæ ómögulega túlkað þetta öðruvísi þegar ég les, Íslendingurinn, þessa íslensku sem á þessum blöðum stendur að hér sé eingöngu verið að tala um nýtingarrétt. Þarna er ekki verið að tala um eignarrétt og það er bara himinn og haf á milli þess að skilgreina nýtingarrétt á einhverju og síðan eignarrétt og þetta ættum við Íslendingar að vera farnir að skilja eftir sársaukafulla reynslu margra undanfarinna ára.

Ef við erum að tala um eignarrétt þá erum við að tala um mjög alvarlega hluti. Eignarrétt á vatni sem samkvæmt laganna hljóðan gengur út á það að þetta skal fylgja fasteign hverri, þar með talið þjóðlendu — eignarréttur á því vatni sem á henni, undir henni eða um hana rennur. Þetta þurfum við að fá útskýrt mjög vandlega og ég reikna með því að þegar þetta frumvarp verður rætt í iðnaðarnefnd verði þetta tekið til mjög svo gaumgæfilegrar athugunar.

Það kann að vera að mönnum þyki þetta mjög léttvægt nú á því herrans ári 2005 að hér sé verið að tala um eignarrétt á vatni en þetta er í raun og veru grafalvarlegt mál. Hvern hefði til að mynda grunað það fyrir 30 árum að við Íslendingar værum nú í dag í þeirri stöðu að uppi væru í þjóðfélaginu, og hefðu verið um margra ára skeið, hatrammar deilur um eignarréttinn yfir fiskinum sem syndir í hafinu umhverfis landið? Hvern hefði grunað það? Ef maður hefði komið og sagt við fólk: Hér á Íslandi verða uppi stórkostlegar deilur eftir 30 ár um það hver eigi fiskinn í sjónum. Fólk hefði hlegið að manni. Það hefði bara talið mann ruglaðan að láta sér detta það í hug að það væru einhverjir hópar í þjóðfélaginu sem færu um og segðust eiga fiskinn í sjónum. Þvílíkt bull, þvílíkt rakalaust kjaftæði, hefðu menn sagt. En svona er þetta í dag. Þetta er meira að segja komið það langt að verið erum farin að tala um það að reyna að verja eignarhaldið yfir fiskinum í sjónum með því að binda það í stjórnarskrá.

Hvern hefði líka grunað að við hefðum selt símanet landsmanna til einhverra örfárra einkaaðila, grunnnet Símans? Hvern hefði grunað það? Við erum búin að því. Nú eru menn meira að segja farnir að tala um það að selja raforkukerfið. Hvenær dettur þeim í hug að selja vatnið? Gætum við upplifað það að einhverjir einkaaðilar sem eiga fasteignir, land til að mynda að Þingvallavatni sem er stærsta ferskvatnsforðabúr landsmanna, slái eign sinni á það? Að Þingvallavatn verði í framtíðinni í einkaeign, að einhverjir aðilar eigi vatnið í Þingvallavatni? Er hægt að hugsa sér að þetta muni enda með þessum hætti? Ég veit það ekki, virðulegi forseti. Þetta eru bara hugleiðingar sem ég set hér fram vegna þess hve þessi litla grein, 4. gr., fær mig til að hugsa á þessum nótum og vekur upp í huga mér og okkar í Frjálslynda flokknum mjög miklar efasemdir um þetta frumvarp. Þess vegna munum við hafa allan vara á okkur nú þegar þetta fer til iðnaðarnefndar og kemur síðan aftur til 2. umr. Við munum áskilja okkur fullan rétt til að hafa á okkur fullan vara varðandi þetta og fulltrúi okkar í iðnaðarnefnd, hv. þm. Sigurjón Þórðarson, mun efalaust leita eftir mjög skýrum svörum um það hvað menn eigi við með þessu. Þetta verður síðan tekið til umræðu þegar frumvarpið kemur til 2. umr. í þinginu. Við skulum gera ráð fyrir því að það geri það. Mér heyrist á hæstv. iðnaðarráðherra að þetta frumvarp eigi að fara í gegnum þingið nú á þessum vetri. Reyna skal í annað sinn.

Ég vil svo að lokum, virðulegi forseti, greina frá því að ég var á þeirri ráðstefnu sem hefur verið til umræðu hjá öðrum þingmönnum, ráðstefnu um vatn fyrir alla sem var haldin í Reykjavík þann 29. nóvember sl. Þar var lögð fram yfirlýsing sem er að mörgu leyti mjög merkileg, yfirlýsing fjölmargra félagasamtaka, BSRB, þjóðkirkjunnar, MFÍK, Landverndar, Kennarasambands Íslands, Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja og Náttúruverndarsamtaka Íslands. Ég ætla svo sem ekki að lesa þá yfirlýsingu hér. Ég veit að annar þingmaður hefur þegar gert það og hún hefur veri færð til bókar í Alþingistíðindum.

Ég vil bara að lokum lýsa því yfir að ég er efnislega sammála þessari yfirlýsingu, því sem stendur í henni. Mér finnst þetta mjög góð grundvallaryfirlýsing um þau prinsipp, ef ég má segja sem svo, sem mér finnst að eigi að gilda varðandi vatnið og ég hafna því alfarið að það verði settur einhvers konar eignarréttur á vatnið hér á landi. Við getum gjarnan útfært lög og reglur um nýtingarréttinn, gott og vel, að sjálfsögðu skulum við gera það. Vatn er mikilvæg auðlind. Vatn getur orðið mjög dýrmæt auðlind. Það er það að sjálfsögðu í dag en getur orðið vermæt líka í peningalegu tilliti. Það er farið að flytja út íslenskt vatn og vonandi verður það iðnaður sem á eftir að skila góðum tekjum inn í þjóðarbúið og hagnaði fyrir hlutaðeigandi aðila. Ég hef ekkert út á það að setja. Ég hef ekkert út á það að setja að þessir aðilar fái með einhverjum hætti varinn rétt til að nýta vatnsból, til að taka vatn til að selja. Ég hef svo sem ekkert við það að athuga, til útflutnings til að mynda, en að það verði settur einhver eignarréttur á vatn með svipuðum hætti og verið er að reyna að setja einhvern eignarrétt á fiskinn í sjónum í kringum landið eða aðrar náttúruauðlindir, því leggst ég alfarið gegn og ég mun berjast gegn því af alefli.