132. löggjafarþing — 21. fundur,  15. nóv. 2005.

Staða jafnréttismála.

[14:13]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það var í sjálfu sér vel til fundið hjá hv. málshefjanda, Jónínu Bjartmarz, að eiga hér þessi huggulegu skoðanaskipti við flokksbróður sinn, hæstv. félagsmálaráðherra Árna Magnússon. Þessi orðaskipti eru eflaust í svipuðum dúr og hv. þingmenn eiga venjulega á kærleiksheimili Framsóknarflokksins, skyldum við ætla. Ég tek undir með hv. þingmanni um að hér þurfi að gera byltingu, mér fannst hún taka undir þau orð sem komu fram í ræðu á kvennafrídeginum 24. október. En með fullri virðingu, hæstv. forseti, finnst mér að hv. þm. Jónína Bjartmarz eigi að kúska sína ráðherra til þar sem hún hefur tækifæri til að gera það sem stjórnarþingmaður, umfram það sem ég hef sem stjórnarandstöðuþingmaður.

Ég treysti því að nú fari að sjást aðgerðir í þessu máli. Við höfum rætt hér jafnréttismál oftar en einu sinni það sem af er þessum vetri, og meðal þess sem hefur verið lagt hér fram í formi þingmála er frumvarp frá mér og öðrum hv. þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem varðar kynbundinn launamun þar sem við teljum okkur vera með tillögu sem er mjög róttæk en jafnframt tillaga sem virkar, tillaga um það að Jafnréttisstofa fái í hendur öflugt tæki til að tryggja það að launamuninum verði útrýmt. Ég treysti því að hv. framsóknarmenn í þessum sal, hv. þm. Jónína Bjartmarz og hæstv. ráðherra, skoði nú með opnum huga þessa tillögu, fari ofan í saumana á henni og styðji hana, sjái til þess að hún komist í gegnum þingið og að þetta verði lögleitt, að Jafnréttisstofa fái sömu tæki í hendur og skattyfirvöld hafa, Samkeppniseftirlit og Fjármálaeftirlit.

Kvennabaráttan á Íslandi á það skilið og ég treysti þá á stuðning Framsóknarflokksins í þessum efnum.