132. löggjafarþing — 21. fundur,  15. nóv. 2005.

Staða jafnréttismála.

[14:17]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Við verðum að breyta þjóðfélaginu, sögðu frumkvöðlar kvennabaráttunnar árið 1975, 24. október það ár. Til þess að ná frekari árangri í jafnréttisbaráttunni á okkar tímum þurfum við, eins og 1975, að skapa jafnræði í hinum efnahagslega grundvelli. Konur sem karlar þurfa að verða fullburða að efnahag. Launamisréttið er alvarlegasti þröskuldurinn á þessum vegi.

Það er tvöfalt, annars vegar er hin gamla krafa um sömu laun fyrir sömu vinnu en hins vegar þurfum við að breyta því að enn er það svo, 30 árum eftir 1975 og hvaða tíma sem við nefnum þar á undan, að láglaunastörfin eru einkum störf kvenna, hálaunastörfin eru einkum störf karla.

Hv. þm. Jónína Bjartmarz sagði það áðan, sem viðtekið er, að misrétti í launamálum og jafnrétti yfir höfuð sé gamall arfur fyrri alda, kynslóða o.s.frv. og að við stríðum við fordóma fyrri tíðar. Við skulum vona að það sé svo. Ég er ekki viss um það. Ég held að launamisréttið og annað misrétti kynjanna sé að ýmsu leyti innbyggt í nútímasamfélag okkar. Mér sýnist að því sé á ýmsan hátt ekki að linna, heldur byggist það inn í hinar nýju stofnanir, hinn nýja anda, tíðaranda sem við tökum upp og fylgir samfélagi okkar.

Það skiptir máli að við afsönnum þá kenningu að þetta sé innbyggt í samfélagið. Það skiptir máli að við reynum að gera það, okkar kynslóð, sú sem nú er komin til þroska í landinu. Það verðum við að gera með miklu bandalagi, miklu átaki, en verkefnin blasa við eins og hæstv. ráðherra sagði réttilega. Verkefnin blasa m.a. við í jafnréttislögunum sem eru að verða úrelt, eins framsýn og þau voru á sínum tíma. Það blasir við í kjaramálum sem hið opinbera fer með og það blasir m.a. við í launaleyndinni sem við samfylkingarmenn höfum nú lagt til að verði afnumin. (Forseti hringir.) Það blasir við miklu víðar, m.a. í því að Jafnréttisstofa hefur mjög veikst að undanförnu. Hún veiktist þegar hún var flutt til Akureyrar og þyrfti að gera mikið átak í málum hennar til að koma henni upp aftur.