132. löggjafarþing — 21. fundur,  15. nóv. 2005.

Staða jafnréttismála.

[14:22]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Þó að sú meginregla gildi í íslensku réttarkerfi að allir skuli jafnir fyrir lögum, óháð kynferði, að jöfn staða kynjanna hafi verið stjórnarskrárbundin á Íslandi frá árinu 1995 og að við séum með sérstök jafnréttislög sem hafa verið í gildi allt frá árinu 1976, er öllum ljóst, held ég, að enn er langt í land með það að jafnrétti kynjanna sé tryggt.

Jafnréttislögin hafa almennt verið viðurkennd sem mikilvægt tæki til að styðja jafnréttisstarf og standa vörð um jafnrétti í samfélaginu. Markvissu jafnréttisstarfi er ætlað að breyta viðhorfum fólks til hefðbundinna kynjahlutverka og kynjabundinna staðalmynda en óhætt er að fullyrða að stjórnvöld geta ráðið úrslitum um þróun jafnréttisstarfs, m.a. með því að framfylgja markvissum áætlunum þar að lútandi.

Það er skoðun mín að þetta starf eigi í raun og veru að hefjast innan sjálfra stjórnmálaflokkanna. Við í Frjálslynda flokknum höfum reynt að leggja okkar af mörkum. Við höfum verið með jafnréttisáætlun í gangi frá árinu 2001 og fyrr á þessu ári náðist sá jákvæði árangur að miðstjórn flokksins er nú skipuð konum 40%, körlum 60%. Við höfum eftir fremsta megni reynt að búa til fléttulista í framboðum til kosninga og konur hafa fengið mjög ákveðin og gild trúnaðarstörf innan flokksins. Hins vegar finnst mér hálfholur hljómur í málflutningi stjórnarliða því að við erum hér með ríkisstjórn sem að mörgu leyti kemur sér mjög illa fyrir konur.

Lítum til að mynda á þá staðreynd að tekjur kvenna eru aðeins 62% af tekjum karla. Við erum með ríkisstjórn sem er með skattstefnu sem miðar að því að hygla þeim hæstlaunuðu í þjóðfélaginu á hverjum tíma. Þetta bitnar að sjálfsögðu á konum sem eru að stærstum hluta í láglaunahópunum. Þessi stefna miðar að því að halda konum niðri í þjóðfélaginu. Þetta starf verður að hefjast í stjórnmálaflokkunum, það verður að færa hingað inn á Alþingi og menn verða að sýna það í verki að þeir meini eitthvað með því sem þeir segja.