132. löggjafarþing — 21. fundur,  15. nóv. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[14:29]
Hlusta

Frsm. meiri hluta fjárln. (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti og breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar við frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2005.

Að venju hefur fjárlaganefnd farið yfir frumvarpið, haft það til athugunar og leitað til fjármálaráðuneytis og fagráðuneyta varðandi þau mál sem til umfjöllunar hafa verið og einnig hefur nefndin átt samskipti við ýmsa aðra aðila um málið.

Meiri hlutinn gerir breytingartillögur við sundurliðun 1, tekjur A-hluta, þar sem gert er ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs aukist um 11.240 millj. kr. frá áætlun frumvarpsins. Þá gerir meiri hlutinn 33 breytingartillögur við frumvarpið sem nema alls 3.284,4 millj. kr. til hækkunar útgjalda.

Áhrif breytingartillagna meiri hlutans eru þau að tekjuafgangur ríkissjóðs verður 7.955,6 milljónum meiri en gert er ráð fyrir í frumvarpi til fjáraukalaga.

Eins og fyrr segir gerir endurskoðuð tekjuáætlun ríkissjóðs fyrir árið 2005 ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs aukist alls um 11.240 milljónir frá því sem gert er ráð fyrir í frumvarpi til fjáraukalaga. Áætlað er að skattar á tekjur og hagnað verði 9.585 milljónum hærri en samkvæmt frumvarpinu. Áætlaðar tekjur af tekjuskatti einstaklinga hækka um 2,5 milljarða, tekjur ríkissjóðs af tekjuskatti einstaklinga fyrir fyrstu níu mánuði ársins er meiri en gert var ráð fyrir og er það helsta skýring þessara breytinga. Áætlaðar tekjur af tekjuskatti lögaðila hækka um 7 milljarða. Meginástæða þessa er endurmat í kjölfar álagningar ríkisskattstjóra sem birt var í byrjun nóvember. Áætlun ríkisskattstjóra var hærri en gert hafði verið ráð fyrir í fyrri tekjuáætlun.

Þá má nefna að við sölu ríkissjóðs á Lánasjóði landbúnaðarins er áætlað að söluhagnaður nemi um 850 milljónum. Af þeirri fjárhæð er greiddur fjármagnstekjuskattur að fjárhæð 85 milljónir sem kemur einnig fram í gjaldahlið og hefur því ekki nettóáhrif á afkomu ríkissjóðs. Gert er ráð fyrir að skattar á vöru og þjónustu hækki um 1.090 milljónir frá því sem fram kemur í frumvarpinu og munar þar mest um að gert er ráð fyrir að vörugjald af innfluttum bifreiðum verði 800 millj. kr. hærra en samkvæmt fyrri áætlun.

Þá er gert ráð fyrir að arðgreiðslur og leigutekjur verði 270 millj. kr. hærri og sektir verði 555 millj. kr. lægri en frumvarpið gerir ráð fyrir. Auk þessa er gert ráð fyrir að sala varanlegra rekstrarfjármuna skili tekjum að fjárhæð 850 milljónir, eins og áður var sagt, og felst það í því að ríkissjóður hefur selt Lánasjóð landbúnaðarins og er áætlaður söluhagnaður vegna þess 850 milljónir.

Eins og ég hef áður sagt er lagt til að útgjöld hækki um alls 3.284,4 milljónir frá því sem fram kemur í frumvarpi til fjáraukalaga og skiptast þau þannig í megindráttum:

Útgjöld vegna æðstu stjórnar ríkisins hækki frá frumvarpi um alls 113 milljónir. Er þar annars vegar um að ræða 98 milljónir til að jafna út rekstrarhalla embættis forseta Íslands og hins vegar 15 milljónir vegna kostnaðar við viðhald Alþingishúss á árinu.

Lagt er til að útgjöld vegna menntamála hækki um 38 milljónir frá frumvarpinu.

Undir málaflokki utanríkismála er lagt til að útgjöld hækki um 18,1 milljón.

Varðandi landbúnaðarmál er tillaga um alls 2.307,7 millj. kr. hækkun. Munar þar mest um að lagt er til að 2,2 milljörðum af söluandvirði eigna Lánasjóðs landbúnaðarins verði varið til Lífeyrissjóðs bænda og þá er gert ráð fyrir 69,2 milljónum vegna uppsafnaðs rekstrarhalla Landbúnaðarháskóla Íslands og 30,5 milljónum vegna stofnkostnaðar sömu stofnunar.

Lagt er til að útgjöld vegna sjávarútvegsmála hækki um 10 milljónir.

Varðandi dóms- og kirkjumál er lagt til að útgjöldin hækki um alls 47,5 milljónir frá því sem gert var ráð fyrir í frumvarpinu.

Lagt er til að útgjöld vegna félagsmálaráðuneytis lækki um alls 100,6 milljónir. Munar þar mest um 125 millj. kr. lækkun útgjalda vegna Atvinnuleysistryggingasjóðs þar sem gert er ráð fyrir að atvinnuleysi verði minna en áætlað var. Einnig er gert ráð fyrir 50 millj. kr. minni útgjöldum vegna Fæðingarorlofssjóðs og byggir það á endurskoðaðri áætlun um þróun útgjalda.

Lagt er til að útgjöld vegna heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins verði 290,9 millj. kr. hærri en samkvæmt frumvarpinu. Munar þar mest um 75 milljónir vegna hönnunar á nýju greiðslukerfi lífeyristrygginga, 26 milljónum til að fjölga einingum læknisverka í samningi sjálfstætt starfandi sérgreinalækna og 100 milljónum vegna rekstrarvanda hjúkrunarheimila.

Vegna fjármálaráðuneytisins er lagt til að útgjöld hækki um 85 milljónir og er það vegna fjármagnstekjuskatts á hagnaði á sölu Lánasjóðs landbúnaðarins eins og áður hefur verið vikið að.

Hvað varðar samgönguráðuneytið er gert ráð fyrir að útgjöld aukist um alls 444,8 milljónir frá frumvarpinu. Munar þar mest um 300 millj. kr. framlag til endurbóta og öryggisaðgerða á veginum um Óshlíð. Einnig er um að ræða 100 millj. kr. til Vegagerðarinnar vegna aukinna hálkuvarna á vegakerfinu.

Lagt er til að útgjöld viðskiptaráðuneytis aukist um 20 milljónir og er það til að efla samkeppniseftirlit.

Loks er lagt til að útgjöld vegna umhverfisráðuneytis aukist um 10 milljónir og er það vegna Veðurstofu Íslands.

Síðan er breytingartillaga sem gerð er grein fyrir í nefndarálitinu er varðar 3. gr. frumvarpsins og varðar lántökuheimild samkvæmt 5. gr. fjárlaga vegna íbúðalánadeildar Íbúðalánasjóðs.

Ég hef því gert grein fyrir tillögum meiri hlutans í grófum dráttum. Að öðru leyti vísa ég til þingskjala þar sem nánar er gerð grein fyrir einstökum tillögum.

Meiri hluti fjárlaganefndar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem skýrðar hafa verið og tillögur koma fram um á sérstökum þingskjölum.

Að nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar standir eftirtaldir: Magnús Stefánsson, Einar Oddur Kristjánsson, Arnbjörg Sveinsdóttir, Bjarni Benediktsson, Birkir J. Jónsson, Drífa Hjartardóttir og Guðmundur Hallvarðsson.