132. löggjafarþing — 21. fundur,  15. nóv. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[14:37]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hefði við upphaf umræðunnar um fjáraukalögin við 2. umr. viljað fá mat hv. formanns fjárlaganefndar á ákveðnum þáttum varðandi efnahagslífið. Talað hefur verið um að hér ríki einhvers konar ógnarjafnvægi í efnahagsmálum. Við vitum hvernig gengið hefur þróast miðað við áætlun sem gerð var. Við forsendur fjárlaga þessa árs var gert ráð fyrir að gengisvísitalan væri 122–125, ef mig minnir rétt. Á miðju ári eða í júní gerði fjármálaráðuneytið áfram ráð fyrir að það yrði um 119. Nú stendur það í rétt rúmlega 100. Við þekkjum umræðuna um hina erfiðu stöðu útflutningsgreinanna við þessa hágengisstefnu.

Hvert er mat formanns fjárlaganefndar á að gengisvísitalan verði það sem eftir er ársins og hvert verður þá meðalgengi þessa árs miðað við það sem lagt var upp með?

Eins líka með viðskiptahallann. Í forsendum fjárlaga til þessa árs eins og við samþykktum þau í fyrra og í áætlun fjármálaráðuneytisins frá í janúar var gert ráð fyrir að viðskiptahallinn yrði liðlega 100 milljarðar kr. En hvað ætli viðskiptahallinn verði áætlaður mikill í árslok? Mér þætti fróðlegt að heyra þetta hjá hv. formanni fjárlaganefndar.