132. löggjafarþing — 21. fundur,  15. nóv. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[14:42]
Hlusta

Frsm. meiri hluta fjárln. (Magnús Stefánsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður vísar til tillagna um fjárheimildir til handa utanríkisráðuneyti vegna uppsafnaðs halla og spyr mig hvað mér finnist um það.

Í fyrsta lagi vil ég segja almennt að best væri að við sæjum ekki svona erindi hvort sem það er þetta ráðuneyti eða önnur því að fjárlög eru lög og menn eiga auðvitað að fara að þeim. Mér skilst hins vegar að varðandi sendiráðin hafi ekki tekist að standa undir hagræðingarkröfum sem gerðar hafa varið síðustu árin og er það alls ekki nógu gott og við hljótum að gera athugasemdir við það.

Hv. þingmaður spyr hvað verði gert til að taka á þessum málum. Ég vísa til umræðu sem hefur margoft farið fram um svona álíka mál þar sem verið er að fjalla um rekstrarhalla stofnana og aðila. Þar er um það að ræða að efla eftirlit og beita þeim tækjum sem til eru. Við höfum ýmis lög og reglugerðir sem gilda um þessi efni og það er spurning hvernig menn ætla að beita þeim. Ég vísa til þess.

Hins vegar auðvitað höfum við séð bæði í fjárlögum og fjáraukalögum tillögur til þess að bæta rekstrarhalla. Ég get vísað m.a. í því sambandi til þess að í frumvarpi til fjáraukalaga er verið að gera tillögur um fjárheimildir til ýmissa stofnana, t.d. hjá landbúnaðarráðuneyti, og það kemur einnig fram í breytingartillögum meiri hlutans, þannig að við erum því miður víða að fást við þessi efni.

En sem almennt svar eigum við auðvitað að beita þeim tækjum sem við höfum samkvæmt lögum.