132. löggjafarþing — 21. fundur,  15. nóv. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[14:52]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir áliti 2. minni hluta fjárlaganefndar við frumvarp til fjáraukalaga við 2. umr.

Ég vísa til almennra talnaupplýsinga sem komu fram í ræðu hv. formanns fjárlaganefndar þar sem hann rakti þær breytingar sem meiri hlutinn gerir á fjáraukalagafrumvarpinu og niðurstöðutölur þess þar af leiðandi.

Í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2005 og breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar er lagt til að útgjöld ríkisins verði aukin um rúma 19 milljarða kr. Heimild til gjalda í fjárlögum ársins 2005 var 296,4 milljarðar kr., þ.e. þá hefur orðið 6,4% hækkun frá útgjöldum fjárlaga eins og við afgreiddum þau til ársins 2005.

Rétt er að árétta að í 41. gr. stjórnarskrárinnar segir að ekkert gjald megi greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum. Í 43. gr. laga um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997, segir að ef þörf krefur skuli í frumvarpi til fjáraukalaga leitað eftir heimildum til frekari fjárráðstafana en fjárlög ársins gera ráð fyrir. Engin skilyrðislaus skylda hvílir á ríkisstjórn að leggja fjáraukalagafrumvarp fram fyrir hvert reglulegt þing, heldur fer það eftir þörfinni hverju sinni. Í reyndinni er aukafjárveitinga þörf á hverju ári enda getur ýmislegt breyst í tekjuöflun eða útgjöldum ríkisins og stofnana þess á heilu ári. Í 44. gr. laga um fjárreiður ríkisins kemur fram hvenær heimilt er að greiða úr ríkissjóði án heimildar í fjárlögum. Þar segir að valdi ófyrirséð atvik, kjarasamningar eða ný löggjöf því að grípa þurfi til sérstakra fjárráðstafana sem ekki var gert ráð fyrir í fjárlögum ársins skuli leitað heimilda fyrir þeim í frumvarpi til fjáraukalaga.

Undanfarin ár hafa ýmis fjárútlát sem fjáraukalagafrumvarp hefur kveðið á um, svo sem vegna mennta- og heilbrigðismála, verið fyrirsjáanleg við gerð fjárlaga og hefðu því átt heima í fjárlagafrumvarpi hvers árs ef rétt hefði verið að verki staðið. Þrátt fyrir að í þessu frumvarpi hafi dregið úr slíku er enn að finna allmörg dæmi um að kveðið sé á um fjárútlát sem áttu heima í fjárlagafrumvarpi ársins af því að þau voru fyrirsjáanleg. Mörg þeirra voru reyndar flutt í breytingartillögum þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs við afgreiðslu fjárlaga fyrir tæpu ári. Svo fyrirsjáanleg var sú fjárvöntun sem síðar kom á daginn og er að hluta til verið að draga í land í þessu fjáraukalagafrumvarpi sem við hér ræðum.

Vissulega má líka finna dæmi í fjáraukalagafrumvarpinu sem rúmast innan laga um fjárreiður ríkisins, eins og t.d. framlög til neyðaraðstoðar vegna náttúruhamfaranna í Pakistan nú í haust, sem við ræddum í upphafi þings í dag, þar sem ríkisstjórnin gerir ráð fyrir og leggur til í því fjáraukalagafrumvarpi 18,1 millj. kr. til aðstoðar við fórnarlömb náttúruhamfaranna í Pakistan. Sú fjárhæð er svo sannarlega ekki há og kom fram í máli margra þingmanna fyrr í dag að þetta væri allt of lág upphæð og að við ættum að gera mun betur. Þess vegna flytjum við einmitt breytingartillögu við þennan lið fjáraukalagafrumvarpsins sem ég ætla að gera grein fyrir um leið og ég geri grein fyrir nefndarálitinu, breytingartillögu við frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2005 frá hv. þm. Jóni Bjarnasyni, Guðjóni A. Kristjánssyni, Þuríði Backman og Ögmundi Jónassyni. Hún hljóðar svo að undir lið 03-391, Þróunarmál og alþjóðleg hjálparstarfsemi, undir liðnum Mannúðarmál og neyðaraðstoð komi 98 millj. kr. í stað 31 sem er í frumvarpinu, þ.e. að við hækkum framlagið til neyðaraðstoðar í kjölfar jarðskjálftanna í Pakistan um 80 millj. kr. af hálfu ríkisins og mun það þó varla vera talin ofrausn miðað við bæði efni og aðstæður okkar og einnig miðað við þá miklu neyð sem þar ríkir nú. Þessi tillaga kemur síðan til frekari umfjöllunar og afgreiðslu um leið og fjáraukalagafrumvarpið er hér afgreitt við lok 2. umr.

En lítum á efnahagslegar forsendur fjárlaga ársins sem voru samþykkt fyrir tæpu ári sem við sjáum nú hvernig hafa virkað í raun. Með frumvarpi til fjárlaga fylgir greinargerð fjármálaráðuneytisins um þróun helstu stærða í þjóðarbúskapnum. Þær forsendur sem fjármálaráðuneytið lagði af stað með í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2005 hafa breyst mjög verulega er varðar gengisvísitöluna og áætlaðan viðskiptahalla. Þess má geta hér að gert var ráð fyrir því að gengisvísitalan yrði um 125 stig á árinu 2005 en í dag er hún rétt rúmlega 100 og er ekki fyrirsjáanlegt hver hún verður í árslok. Mér kæmi þó ekki á óvart að hún nálgaðist það að vera 110 sem er þá grundvallarbreyting frá því sem áætlað var við gerð fjárlaga þessa árs. En gengisvísitalan er einmitt mælikvarði á stöðu og samkeppnishæfni útflutningsgreinanna við aðrar greinar erlendis. Ég kem nánar að því síðar í ræðu minni. Þeir þættir sem birtast í gengisvísitölunni eru mjög alvarleg teikn um hversu veik staða efnahagslífs okkar er þrátt fyrir háar tölur í tekjum ríkisins, tekjum sem hafa orðið til að stórum hluta, allt of stórum hluta, vegna skatts á viðskiptahallann, skatts á of mikla og óhóflega einkaneyslu.

Viðskiptahallinn er þá hinn mælikvarðinn á það hvað er að gerast. Í fjárlögum eins og þau voru afgreidd fyrir árið 2005 var gert ráð fyrir liðlega 100 milljarða kr. viðskiptahalla. Í skýrslu fjármálaráðuneytisins um þjóðarbúskapinn í janúar var áætlað að viðskiptahallinn yrði um 103 milljarðar kr. Í skýrslu frá október er þessi áætlun komin í 128 milljarða kr. Þá má nefna að í hagspá Landsbankans frá því í september sem bar yfirskriftina „Ógnarjafnvægi efnahagsmála“ er gert ráð fyrir að viðskiptahallinn verði 132 milljarðar kr. Þá er ljóst að verðbólgan á árinu hefur verið meiri en gert var ráð fyrir í fjárlögum fyrir árið 2005.

Niðurstaða viðskiptahallans á enn eftir að koma í ljós. Við eigum enn eftir mjög erfiða mánuði, lok nóvember og desember allan, mánuði mikillar eyðslu, mánuði mikillar einkaneyslu, og það sem er enn alvarlegra er að útflutningurinn hefur heldur dregist saman þannig að þessi staða, viðskiptajöfnuður við útlönd, verður enn verri fyrir það. Enda kemur það ekki á óvart að í þessari þróun efnahagsmála hefur einmitt staða útflutningsgreinanna veikst og útflutningsverðmæti þess vegna dregist saman, bæði vegna óhagstæðs gengis en líka vegna þess að fyrirtæki eru að draga saman og loka, og sum verða að hætta starfsemi vegna þeirrar stefnu sem ríkisstjórnin rekur í efnahagsmálum. Allt þetta margfaldast og kemur greinilega fram í gengi krónunnar sem er allt of hátt og í allt of miklum viðskiptahalla sem allir efnahagssérfræðingar — og þarf ekki sérfræðinga til — segja að geti ekki gengið. En ríkisstjórnin gerir ekkert og meiri hlutinn á Alþingi gerir ekkert sem slær á þá þróun sem við nú stöndum frammi fyrir, því miður.

Þetta held ég, frú forseti, að sé einmitt einkenni framkvæmdar fjárlaga og efnahagslífs þjóðarinnar í dag.

Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs lagði í upphafi þings í haust fram tillögu til þingsályktunar um aðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika. Fylgir tillagan hér með sem fylgiskjal. Í ljósi stöðu útflutningsatvinnugreinanna, svo sem sjávarútvegs, ferðaþjónustu, nýsköpunar og hátækniiðnaðar, stöðu þessara iðngreina í stóriðju- og hágengisstefnu ríkisstjórnarinnar, hefur aldrei verið brýnna en nú að grípa til aðgerða. Tillaga Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem hér er til umfjöllunar á Alþingi, um aðgerðir til að tryggja efnahagslegan stöðugleika, er því mikilvægur liður í þeim aðgerðum sem verður að grípa til.

Eins og áréttað var hér að framan á einungis að veita viðbótarheimildir í fjáraukalögum vegna ófyrirséðra verkefna. Lögin kveða á um það. Undanfarin ár hafa sérstaklega verið nefndir ýmsir fjárlagaliðir vegna mennta- og heilbrigðismála sem hafa fengið viðbótarheimildir í fjáraukalögum, þrátt fyrir að bent hafi verið á við fjárlagagerð að ljóst væri að fjárveitingar væru ekki nægar. Sem dæmi um viðbótarheimildir í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2005 er sérstaklega bent á viðbótarheimild til aðalskrifstofu utanríkisráðuneytisins upp á 50 millj. kr. og sendiráða Íslands upp á 276 millj. kr.

Frú forseti. Ég hef áður gert þetta að umræðuefni hér. Samkvæmt fjárreiðulögum á með fjáraukalögum að taka á ófyrirséðum útgjöldum ellegar bregðast við einhverju sem Alþingi hefur samþykkt.

Vissulega er það engin bein afsökun hjá einstökum stofnunum á vegum ráðuneytanna þó að þær fari fram úr fjárheimildum sínum, en þeim getur verið vorkunn. Þessar stofnanir geta haft verkefni sem krafist er að úr verði leyst og ef löggjafinn hefur ekki tryggt þeim nægilegt fjármagn til að inna þau af hendi eru þær í vanda staddar. Ég þekki dæmi þess að forstöðumenn slíkra stofnana hafa einmitt spurt handhafa framkvæmdarvaldsins hvað þeir eigi að gera, fjármagnið sé ekki nóg en samkvæmt verkefnum eigi þeir að inna þessi verkefni af hendi. Og svörin hafa oft verið fátækleg. Þessar stofnanir neyðast því oft til að fara fram úr fjárheimildum sínum. Við þekkjum þetta. Framhaldsskólarnir, háskólarnir, sjúkrahúsin, svo að dæmi séu nefnd, hafa neyðst til að fara fram úr fjárheimildum. Er það í sjálfu sér ekki gott en er oft frekar dæmi um lélega fjárlagagerð en misbeitingu fjár.

Það er engin lagaleg heimild fyrir því að aðalskrifstofur ráðuneytanna, sem lúta beinni yfirstjórn ráðherranna, skuli meðhöndla fjárlögin eins og t.d. birtist hjá utanríkisráðuneytinu, að á fjáraukalögum skuli vera beðið um á fjórða hundrað milljóna króna til að mæta uppsöfnuðum halla fyrri ára. Ég tel mjög brýnt að tekið verði á fjármálalegri stjórnsýslu ráðuneytanna. Það er erfitt að ætlast til þess að fjársýsla í undirstofnunum verði betri en fjársýsla yfirmannsins, og fjársýsla utanríkisráðuneytisins er með ólíkindum. Hef ég óskað eftir því að áður en við afgreiðum þessi fjáraukalög til 3. umr. verði gerð grein fyrir því hvernig á þessu máli verði tekið, hvers vegna þetta gerðist, og líka þá hvers konar viðurlögum verði beitt.

Ýmis önnur atriði er hægt að nefna hér. Halli samkvæmt höfuðstól einstakra fjárlagaliða í ríkisreikningi fyrir árið 2004 er alls rúmir 20 milljarðar kr. Þar af eru lífeyrisskuldbindingar 7,3 milljarðar kr. og afskriftir skattkrafna 4,8 milljarðar kr., en ónýttar fjárheimildir eru rúmir 16 milljarðar kr. Þessi frávik eru orðin allt of mörg og mikil. Uppsafnaður halli flyst sjálfkrafa yfir á næsta ár. Það er því ljóst að sá vandi sem fluttist frá árinu 2004 yfir á árið 2005 er ekki leystur í fjárlögum ársins 2005 eða í þessum fjáraukalögum eins og þau a.m.k. birtast hér við 2. umr. Við blasir að nokkur ráðuneyti og stofnanir eru nú þegar komin langt út fyrir heimildir fjárlaga án þess að brugðist hafi verið við samkvæmt þeim lögum og reglum sem gilda um framkvæmd fjárlaga. Í þessu sambandi má benda á að fjárlagaliðir sem komnir voru umfram heimildir hjá menntamálaráðuneytinu í árslok 2004 námu alls um 1,5 milljörðum kr. og hjá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti um 2,6 milljörðum kr. Þessi yfirfærsla á halla eða ónýttum fjárheimildum er komin langt umfram það sem hægt er að telja eðlilegt.

Þegar þetta álit er lagt fram hefur fjárlaganefnd ekki fengið uppgjör fjármálaráðuneytisins fyrir janúar til september ársins 2005 fyrir einstök ráðuneyti eða stofnanir sem undir það heyra. Til þess að fjárlaganefnd geti sinnt eftirlitsskyldu sinni og gert raunhæft mat á þörfum fyrir viðbótarheimildir í fjáraukalögum verður að gera kröfu til þess að upplýsingar um fjárhagsstöðu stofnana og ráðuneyta berist nefndinni mun fyrr en nú er.

Fjáraukalagafrumvarpið sem kemur hér til 2. umr. ber því miður of mikinn keim af því að einstakir ráðherrar eru að troða inn gæluverkefnum sínum frekar en að tekið sé á brýnum og aðsteðjandi vanda einstakra stofnana og þær jafnvel látnar fara með halla áfram til næsta árs.

Ég hef lagt áherslu á að breyta þurfi vinnu við fjárlagagerðina. Til að bæta vinnulagið og tryggja að farið sé að lögum hef ég einmitt lagt fram hér á undanförnum árum tillögur til breytinga á lögum um fjárreiður ríkisins sem fela það í sér að þegar svo ber undir skuli fjármálaráðherra leggja fram frumvarp til fjáraukalaga fyrir Alþingi að vori og aftur að hausti. Þingið samþykkir ýmis lög á fyrri hluta árs og þau geta haft í för með sér fjárskuldbindingar á sama ári. Ýmsar forsendur geta einnig breyst, eins og dæmin sanna, og bregðast þarf við þeim. Það hlýtur því að liggja beint við að fjárlaganefnd taki þau mál til meðferðar og leggi fram fjáraukalagafrumvarp sem verði afgreitt fyrir þinglok að vori. Önnur fjáraukalög er svo hægt að afgreiða í byrjun október og síðan kæmu lokafjárlög. Þannig gæti Alþingi fylgt eftir ábyrgð sinni, stýrt útgjöldum og brugðist við breyttum forsendum eins og lög kveða á um. Þannig yrði einnig komið í veg fyrir að efnt væri til útgjalda án heimildar Alþingis nema í algjörum undantekningar- og neyðartilvikum eins og lög um fjárreiður ríkisins kveða á um.

Afar brýnt er að þessi endurskipan fjárlagagerðarinnar komist sem fyrst á svo að það verði í raun Alþingi sem ákveði fjárveitingar til einstakra verkefna. Eins og nú háttar til stendur Alþingi frammi fyrir ákvörðunum framkvæmdarvaldsins um fjárveitingar sem að meira eða minna leyti hafa þegar verið teknar. Sú er því miður raunin í allt of mörgum tilvikum í frumvarpi til fjáraukalaga sem við erum að fjalla hér um.

Frú forseti. Ég ætla aðeins að víkja að nokkrum þeim breytingartillögum sem liggja fyrir í tillögum meiri hlutans. Ég hef reyndar áður vikið að málefnum utanríkisráðuneytisins sem verður að líta svo á að hafi verulega sérstöðu vegna þess hvernig með fjármuni er farið þar sem á fjáraukalögum er sótt um, eins og hér hefur áður komið fram, 50 millj. kr. til að mæta uppsöfnuðum halla á aðalskrifstofu utanríkisráðuneytisins. Hefur þó aðalskrifstofan fengið rækilega auknar fjárveitingar á fjárlögum undanfarinna ára. Þá þarf einnig að líta til sendiráða Íslands þar sem óskað er eftir 276 millj. kr. framlagi til sendiráða á fjáraukalögum til að mæta uppsöfnuðum halla fyrri ára. Á orðum þess fulltrúa utanríkisráðuneytisins sem kom á fund fjárlaganefndar var að heyra að þau hefðu ekki talið sér fært að fara að lögum eða stjórnvaldstilskipunum varðandi meðferð fjárlaga ráðuneytisins og þess vegna gert það sem þeim sýndist hvað það varðaði og óska nú eftir því að fá á fjáraukalögum á fjórða hundrað millj. kr. Það fylgdi sögunni að það væri sennilega ekki nóg til að mæta þeim uppsafnaða halla.

Frú forseti. Þetta er óásættanlegt. Það mega vel vera rök fyrir því að utanríkisþjónustan þurfi allt þetta fjármagn þó að ég dragi það stórlega í efa en vinnulagið gengur alltént ekki upp.

Ég hef áður mælt fyrir breytingartillögu um hækkun á framlagi til þróunarmála og alþjóðlegrar hjálparstarfsemi þar sem lagt er til að tillaga meiri hlutans hækki úr 18 millj. kr. í 98 millj. kr., eða um 80 millj. kr., þ.e. framlag til neyðaraðstoðarinnar í Kasmír og Pakistan. Auk mín eru flutningsmenn tillögunnar hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson, Þuríður Backman og Ögmundur Jónasson.

Það er lagt til hér í fjáraukalagafrumvarpinu að 50 millj. kr. séu lagðar til Þróunarsamvinnustofnunar Íslands til uppbyggingar og þróunarstarfs í Sri Lanka vegna flóðanna þar. Sú upphæð þótti nú ekki há.

Þá er einnig sótt hér um heimild til þess að veita 31 millj. kr. til stuðnings við fórnarlömb fellibylsins Katrínar, eins og stendur hér í fjáraukalagafrumvarpinu:

„Ráðgert er að framlagi verði veitt í sérstakan sjóð, Bush-Clinton sjóðinn, sem stofnaður var til styrktar fórnarlömbum fellibylsins.“

Frú forseti. Það voru hryllilegar hamfarir sem gengu yfir Bandaríkin en það skýtur samt óneitanlega skökku við að upphæðin sem ríkisstjórnin leggur til náttúruhamfaranna í Pakistan, sem eru af miklu meiri stærð og alvarlegri, skuli einungis vera 18 millj. kr. Við leggjum til að sú upphæð verði hækkuð um 80 millj. kr. og þykir þó engum ofrausn.

Frú forseti. Ég vil nefna nokkur önnur atriði. Ég fagna því að komið er til móts við fjárhagsvanda Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og tel að það hafi verið mjög mikilvægt. Verið var að mynda þar eina stofnun úr þremur og það hefði verið mjög slæmt að hin nýja stofnun færi með mikinn halla inn í sitt fyrsta ár. Það var hárrétt að leysa það mál og vonandi verður það gert það myndarlega að sá halli sé algjörlega skorinn af.

Ég fagna því líka að hér er tillaga um 100 millj. kr. framlag vegna aukinna hálkuvarna á þjóðvegum en ég flutti fyrir tveim árum tillögu um að auka þyrfti hálkuvarnir á þjóðvegum til þess að tryggja öryggi og umferð, eins og við nú erum með snjómokstur, og er ánægjulegt að það skuli vera að koma núna inn sem sérliður.

Einnig fagna ég því að 300 millj. kr. skuli lagðar til endurbóta og öryggisaðgerða á veginum um Óshlíð. Þar er vísað til samþykktar ríkisstjórnarinnar sem að sjálfsögðu fær enga löggildingu fyrr en Alþingi hefur um það fjallað. Þar tek ég einnig undir ábendingar heimamanna að við rannsóknir og kannanir á legu jarðganga á milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar verði stílað upp á að þar verði heildstæð jarðgöng sem leysi þann vanda og óöryggi sem vegfarendur þar hafa mátt búa við árum saman.

Frú forseti. Með nefndaráliti mínu fylgir tillaga okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um aðgerðir í efnahagsmálum sem ég tel afar brýnt að grípa til. Staða efnahagsmála, eins og birtist m.a. í forsendum fjárlaga þessa árs, er mjög alvarleg. Við fáum upplýsingar frá hverju atvinnufyrirtækinu á fætur öðru um að það geti ekki starfað við þessa gengisþróun, við þessa vexti á almennum lánamarkaði og fjöldinn allur af fyrirtækjum lokar eða dregur saman í rekstri, fólki er sagt upp. Fyrirtæki sem eru að þróa hátækniiðnaði og hátæknistörf og eru líka með hliðstæða starfsemi erlendis eru í auknum mæli að flytja starfsemi sína úr landi þannig að atvinnulíf okkar verður veikara og veikara, fari fram sem horfir. Það er einmitt fjölbreytni atvinnulífsins og styrkur þeirra útflutningsgreina sem við nú búum við og erum að þróa sem gefur okkur möguleika til þess að sækja fram og bæta lífskjör. Það er kannski alvarlegasti vandinn að ekki skuli á þessu tekið.

Við leggjum til að þegar verði haft samráð um hvernig efnahagslegum stöðugleika verður komið á á ný. Við leggjum til að aðilar vinnumarkaðarins, samtök bænda, neytenda, öryrkja og aldraðra og allra þeirra sem málið snertir hafi samráð og grípi til samræmdra aðgerða til þess að tryggja á nýjan leik efnahagslegan og félagslegan stöðugleika.

Skattalækkanir ríkisstjórnarinnar eru ekki liður í því að tryggja efnahagslegan stöðugleika. Stöðug umræða um auknar stóriðjuframkvæmdir er líka einn veigamesti þátturinn í að viðhalda ógnarjafnvægi og óstöðugleika í efnahagslífinu og það er þess vegna eitt það brýnasta að ríkisstjórnin lýsi því yfir að frekari framkvæmdum við stóriðju og virkjanir verði slegið á frest eftir að þeim framkvæmdum sem í gangi eru er lokið svo að efnahagslífið geti náð sér á ný.

Frú forseti. Ég kem í seinni ræðu minni nánar að öðrum atriðum er lúta að því sem er að gerast í efnahagslífinu og hvernig við getum tekið á því hér, ekki síst við gerð fjárlaga, en læt máli mínu lokið að þessu sinni.