132. löggjafarþing — 21. fundur,  15. nóv. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[15:22]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er að vanda að hv. þingmaður komi hér og ræði ríkisfjármálin en ræði jafnframt um allt milli himins og jarðar, eins og honum einum er lagið. Hann fór hér mikinn um það hver hætta stafaði af viðskiptahallanum, hinum gríðarlega viðskiptahalla og þeirri vá sem væri fyrir dyrum. Hann sagði að allir væru sammála um að gengið væri allt of hátt. Hann sagði að ríkisstjórnin gerði ekkert í málinu.

Nú reyndi ég að hlusta eins vel og ég gat á ræðu hv. þingmanns en ég gat ekki með nokkru móti orðið þess vís hvað hv. þingmaður vildi gera í málinu og legg því fyrir hann eftirfarandi spurningar:

Hvað telur hv. þingmaður að eigi að gera gagnvart genginu? Telur hann stefnu Seðlabankans um stýrivextina, vextina af endurkræfu verðbréfunum hafa verið ranga? Taldi hann það rangt hjá Seðlabankanum að hefja þessa hækkun 2. des. sl.? Telur hann að vextirnir séu þegar orðnir of háir? Telur hann að það eigi að hætta við að hækka vextina? Hvernig vill hann þá gera það? Vill hann þá segja alþjóð að það eigi að fara að lækka stýrivexti Seðlabankans samkvæmt áætlun úr því að hann telur þá allt of háa og gengið allt of hátt? Hvernig vill hann gera þetta?

Það fylgir með hér í pakkanum umræða frá vinstri grænum og þar segir að það eigi að efla útflutninginn en það megi alls ekki skerða kaupmáttinn. Hvernig ætlar hann að draga úr einkaneyslunni ef hann getur eflt útflutninginn án þess að það megi draga úr kaupmættinum? Ætlar hann bæði að fara upp og niður, út og suður og til vinstri og hægri í einu skrefi?