132. löggjafarþing — 21. fundur,  15. nóv. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[16:29]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef spurningu til hv. þm. Birkis J. Jónssonar sem ásamt fleirum í meiri hluta fjárlaganefndar hefur lagt fram breytingartillögur við fjáraukalögin þar sem lögð eru til nokkur útgjöld til viðbótar þeim sem fyrir eru í því frumvarpi til fjáraukalaga sem þegar liggur fyrir. Nú hefur verið fjallað töluvert um það, m.a. fjallaði hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson heilmikið um fjárreiðulögin í ræðu sinni og þá miklu bót sem þau hafa fært í öll vinnubrögð hvað varðar fjárlög hér á landi. Við vitum að himinn og haf er á milli þess fjárlagafrumvarps sem samþykkt er á hinu háa Alþingi á hverju ári og ríkisreikningsins og loks hinnar endanlegu niðurstöðu vegna þess að þegar kemur að fjáraukalögum þá er svo sannarlega gefið í og töluvert miklu bætt við og fjárlögin standast aldrei og eins og ég sagði er himinn og haf milli fjárlaga og niðurstöðu.

Fjáraukalögin eigum við að nota til þess að mæta brýnum verkefnum, eins og t.d. því sem ég tel að við ættum að ráðast í núna, þ.e. að auka fjármagn til Sólvangs í Hafnarfirði sem þarf svo sannarlega á því að halda. Ég vil því spyrja hv. þingmann sem stendur að tillögu ásamt öðrum í meiri hluta fjárlaganefndar um þá neyð sem hvílir á bak við 15 millj. kr. framlag til að styrkja gerð spænsk-íslenskrar orðabókar: (Forseti hringir.) Hvaða nauðsyn knýr á um að svo sé gert nú?