132. löggjafarþing — 21. fundur,  15. nóv. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[16:36]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að hv. þm. Katrín Júlíusdóttir hafi ekki hlustað vel á fyrra svar mitt við andsvari hennar þar sem ég tók fram að þau fjáraukalög sem við ræðum nú sýna miklu meiri rekstrarafgang af stöðu ríkissjóðs og miklu lægri skuldastöðu ríkissjóðs. Svo talar hv. þingmaður um að stjórnarmeirihlutinn í þinginu sé að fegra stöðu ríkissjóðs. Ég held að hv. þingmaður hafi ekki lesið þau gögn sem fyrir liggja því að staða ríkissjóðs er miklu sterkari í ár en á síðasta ári þegar við lögðum fram frumvarp til fjárlaga árið 2005 og ég held að enginn hér inni nema hv. þm. Katrín Júlíusdóttir deili við okkur um það. (Gripið fram í.)

Hæstv. forseti. Við búum í velferðarsamfélagi, við höfum aldrei varið meira fjármagni til heilbrigðisþjónustunnar. Staða Landspítalans í fjáraukalagafrumvarpinu er allt önnur en hún hefur verið á undanförnum árum. Við höfum þurft að auka framlög til Landspítalans vegna ýmissa atriða en við þurfum þess ekki í þeim fjáraukalögum sem við nú ræðum. Þrátt fyrir það er starfsfólks Landspítala – háskólasjúkrahúss að vinna glæsilegt verk, hjartaaðgerðum og fleiri aðgerðum hefur stórfjölgað á milli ára en samt hefur kostnaðurinn ekki aukist að sama skapi. Við erum að ná árangri, ekki aðeins í ríkisfjármálunum heldur einnig í heilbrigðismálum og velferðarmálum. Við skulum minnast þess að í tengslum við markaðsvæðingu Símans ætlum við að stórefla uppbyggingu á sviði geðfötlunar. Þar þurfum við að bæta úr. Við höfum verið í miklu átaki í uppbyggingu á sviði málefna fatlaðra, að eyða þeim biðlistum sem þar eru, í ágætu samstarfi við hússjóð Öryrkjabandalagsins.

Hæstv. forseti. Við erum á mjög góðri leið og við erum síður en svo að reyna að fegra stöðuna í þeirri umræðu sem hér fer fram.