132. löggjafarþing — 21. fundur,  15. nóv. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[16:38]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Það eru nokkur atriði varðandi fjáraukalagafrumvarpið sem ég vil spyrja um áður en við afgreiðum það til atkvæðagreiðslu. Undir liðnum Heilbrigðisráðuneyti er gert ráð fyrir aukningu á fjármagni til hjúkrunarheimila almennt. Gerð er þar tillaga um 100 millj. kr. óskipt framlag vegna rekstrarvanda hjúkrunarheimila. Líklega eru þar fyrir nú þegar í fjárlögunum 200 millj. kr. Það gætu því verið liðlega 300 millj. kr. sem þarna kæmu í pott sem skipta á milli hjúkrunarheimila.

Mikill fjöldi aðstandenda hjúkrunarheimila, sveitarfélög og sjálfseignarstofnanir sem reka slík heimili, hafa komið á fund fjárlaganefndar og gert nefndinni grein fyrir rekstrarvanda sínum, að viðmiðunarfjármagn á hvern einstakling sem þar dvelur sé allt of lágt miðað við þann kostnað sem óhjákvæmilegur er. Að undanförnu hefur einmitt mikið verið rætt á Alþingi um aðbúnað og kjör aldraðra á hjúkrunarheimilum og elliheimilum. Ég tel að áður en við ljúkum meðferð fjárlaga og fjáraukalaga eigi að koma nákvæm og ítarleg skýrsla eða greinargerð frá heilbrigðisráðuneytinu um það hvernig tekið verður á fjárhagsvanda hjúkrunarheimila og öldrunarheimila. Það er afar brýnt.

Varðandi þá upphæð sem hér er verið að bæta í pottinn upp á 100 millj. kr. finnst mér eðlilegt að skipting á því fjármagni, upp á rúmar 300 millj. kr. sem samtals yrði þá í þessum potti á hin ýmsu hjúkrunarheimili í landinu, liggi fyrir. Það sé fjárlaganefnd og síðan Alþingi sem staðfestir eða vinnur þær tillögur. Ég hef áður borið þessa ósk upp í fjárlaganefnd og ítreka það nú að tillögur varðandi skiptingu fjármagns á hjúkrunarheimili úr umræddum potti upp á liðlega 300 millj. kr. verði unnar í fjárlaganefnd og komi þaðan til þingsins.

Ég vil einnig gera að umtalsefni fjármagn sem beðið er um á fjáraukalögum vegna sölu Símans sem hv. þm. Birkir J. Jónsson talaði fjálglega um. Hv. þingmaður gleymdi að allar skoðanakannanir sem birtust frá Gallup og Félagsvísindastofnun síðastliðin ár sýndu að afgerandi meiri hluti þjóðarinnar var andvígur sölu Símans og vildi að hann yrði áfram í þjóðareign og styrk hans beitt til að koma upp öflugu fjarskiptakerfi í landinu, auk þess sem Síminn hefur skilað drjúgum tekjum í ríkissjóð. Ég held að landsmenn séu langflestir áfram sammála um að sala Símans hafi verið vitlaus, bæði viðskiptalega séð, þetta var fyrirtæki sem var vel rekið og skilaði góðum arði í ríkissjóð, og auk þess var þá líka hægt að beita honum til þess að styrkja fjarskiptakerfið í landinu. Þessi árátta framsóknarmanna að einkavæða og selja almannaþjónustuna er með ólíkindum, frú forseti. Nú síðast í fréttum var verið að tilkynna að iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins teldi nauðsynlegt að einkavæða Rarik. Það væri orðið svo erfitt fyrir Rarik að vera í almenningseign að nú þyrfti að einkavæða það. Þetta var í fréttum klukkan fjögur. Það er því ekkert lát á einkavæðingaráráttu Framsóknarflokksins. Við ræddum í gær einkavæðingu á vatninu, að auðlindin vatn yrði einkavædd og gæti orðið sölu- og markaðsvara og nú kom í fréttunum að iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins vildi einkavæða Rarik. Það er ekkert lát á einkavæðingunni.

Hvað varðar Símann er sagt að ráðgjafaraðstoð við einkavæðingu hans hafi kostað tæpar 800 millj. kr. Greint er frá því að stór hluti upphæðarinnar hafi farið til fyrirtækisins Morgans Stanleys sem gera átti tillögur um einkavæðingu Símans, tillögur sem síðan var reyndar ekkert farið eftir. Engu að síður þurfti að borga nálægt 600 millj. kr. fyrir það. Loks fóru á milli 100 og 200 millj. kr. eitthvert annað. Við höfum beðið um skýringu á þeim kostnaði í fjárlaganefnd en ekki fengið og hverjir fengu þessa peninga fyrir umsýslu við einkavæðingu og sölu Símans. Ég ítreka að tæpum 800 millj. kr. var varið til sölu Símans, stór hluti af því fé fór í ráðgjöf sem ekkert var gert með, ráðgjöf til fyrirtækisins Morgans Stanleys. Hinn hluti upphæðarinnar fór til einhverra ráðgjafa sem ekki hefur enn verið gerð grein fyrir hverjir eru.

Hv. þm. Birkir Jón Jónsson kom inn á stöðu efnahagsmála og vildi gera lítið úr þeim erfiðleikum sem margar útflutningsgreinar standa frammi fyrir. Það sýnir veruleikafirringu þingmanna Framsóknarflokksins berlega að þeir skuli ekki einu sinni viðurkenna að margar atvinnugreinar eiga í miklum erfiðleikum vegna stöðu efnahagsmála, vegna hás gengis og vegna hárra vaxta. Þetta þarf svo sem ekki að koma á óvart ef efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar er höfð í huga.

Ég vil leyfa mér að vitna í Birgi Ísleif Gunnarsson, fyrrverandi seðlabankastjóra, sem sagði í samtali við Viðskiptablaðið 8. des. 2004, þegar verið var að ganga frá fjárlögum fyrir árið 2005, með leyfi forseta:

„Menn mega auðvitað búast við háu gengi næstu tvö ár þegar svo gríðarlegar framkvæmdir koma inn í hagkerfið á svona stuttum tíma. Það nemur um einum þriðja af landsframleiðslu og allt fjármagnað ýmist með erlendu eiginfé eða lánsfé frá útlöndum.“ — Þarna er verið að tala um stóriðjuframkvæmdirnar. — „Við slíkar aðstæður er ekkert um annað að ræða en að menn megi búast við háu gengi.“

Það er svo aftur annað mál hvort það verður nákvæmlega eins og það er í dag því að það getur sveiflast upp og niður og í rauninni, frú forseti, hefur það bara farið niður. Gengi krónunnar hefur stigið, gengisvísitalan hefur lækkað og miklu, miklu meir en búist var við. En seðlabankastjóra var alveg ljóst hver ástæðan var, það voru hinar gífurlegu stóriðjuframkvæmdir samtímis fyrir austan og hér á suðvesturhorninu, allt of stórar framkvæmdir miðað við íslenskt efnahagskerfi og íslenskan vinnumarkað enda eru þessar framkvæmdir ekki aðeins að tröllríða efnahagskerfi þjóðarinnar heldur einnig vinnumarkaðnum og öll þjóðin er nú upptekin af þeirri umræðu hvernig megi verja kaup og kjör og almannaréttindi og vinnu fólks, sama af hvaða þjóðerni það er, sem hefur komið hingað til lands til að vinna í uppsprengdri þenslu á þessum afmörkuðu sviðum.

Á meðan verða aðrar atvinnugreinar að lúta í lægra haldi. Við þekkjum þá umræðu að hvert fyrirtækið á fætur öðru verður að hætta. Ég er t.d. með tölur frá ferðaþjónustunni, frú forseti. Fulltrúar ferðaþjónustunnar komu á fund samgöngunefndar nýverið og gerðu henni grein fyrir að ef efnahagsástandið breytist ekki þá verða ekki mörg ferðaþjónustufyrirtæki eftir á næsta ári. Þeir lögðu fram tölur í því sambandi. Ferð sem kostaði 100 þús. ísl. kr. haustið 2004 hefði verið verðlögð á 1.386 dollara árið 2004 en árið 2005, í óbreyttum krónutölum íslenskum, hefði hún kostað 1.627 dollara, hún hefði hækkað um 17,4%. Nú hefur innlendur kostnaður líka hækkað talsvert þannig að ferð sem kostaði 100 þús. ísl. kr. árið 2002 kostar atvinnurekandann meira en þá. Í raun hefði hann þurft að fá meira, þannig að gengi íslensku krónunnar hefur í raun og veru hækkað um 43,3% ef miðað er við dollarann.

Fulltrúar ferðaþjónustunnar sögðu að þeir ættu erfitt með að setja fram verðskrár fyrir næsta ár miðað við þetta gengi, annaðhvort yrði að gefa verðið upp í íslenskum krónum eða hafa verðið svo hátt að hætta væri á að enginn fengist til að koma til landsins. Þeir greindu nefndinni frá því að margar stórar ferðaskrifstofur eru að taka Ísland af sínum lista um viðskipta- og skemmtiferðir vegna þess hversu gengið er óhagstætt.

Ferðaþjónustan er þó sú atvinnugrein sem hefur skilað hvað mestum gjaldeyristekjum nettó til þjóðarbúsins á undanförnum árum og hefur verið í hvað örustum vexti. En í ár stendur hún í stað. Hún stendur nánast í stað hvað varðar ferðamannafjölda til landsins og gjaldeyristekjurnar, sem hafa aukist línulega undanfarin ár, virðast líka standa í stað eða jafnvel lækka. Samtök ferðaþjónustunnar óttast verulega um framhaldið snúist dæmið ekki við.

Það er öllum ljóst hverjar eru orsakirnar, frú forseti. Það er efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar, stóriðjustefna sem er keyrð áfram, skattalækkunarstefna sem hyglar þeim ríku og eykur á þenslu í samfélaginu, kannski umfram allt þessir tveir þættir, en auk þess vitlausar aðgerðir hvað varðar lán til húsnæðismála. Þegar bankarnir fóru að lána allt upp í 100% lán til íbúðakaupa eða lána út á íbúðir varð líka sprengja á þeim markaði.

Við höfum lagt hér til, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, aðgerðir sem beri að grípa til nú þegar til að freista þess að skapa jafnvægi í efnahagslífinu. Það gerist ekkert í einum grænum hvelli en þó geta ákveðnar aðgerðir ráðið úrslitum. Í fyrsta lagi ber að stöðva öll áform um frekari stóriðjuframkvæmdir í landinu, enda er ærið verk að ljúka þeim framkvæmdum sem þegar eru í gangi þó ekki sé nú þegar farið að tala um nýjar. Fiskverkandi á Vestfjörðum sagði í sumar að þegar iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins kæmi í fjölmiðla og tilkynnti um viðræður um stofnun og byggingu nýs álvers ryki krónan upp og samkeppnisstaða fiskvinnslunnar versnaði. Kveðja iðnaðarráðherra til Vestfirðinga, þegar þeir voru hundruðum saman að missa vinnuna, var sú að ruðningsáhrif stóriðjunnar gætu líka verið af hinu góða. Þarna skilur á milli stefnu ríkisstjórnarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem vill jafnvægi í atvinnumálum.

Í öðru lagi ber að gefa þegar í stað út yfirlýsingu um að fallið verði frá, a.m.k. að sinni, skattalækkunaráformum ríkisstjórnarinnar. Þessi tvö atriði munu vega þungt í að rétta af efnahagslíf þjóðarinnar og þá sjá menn að það er ætlunin að viðhalda öðru atvinnulífi hér á landi en bara álbræðslum.

Síðan leggjum við til að þegar í stað verði tekið upp formlegt samráð og samstarf við aðila vinnumarkaðarins, samtök bænda, neytenda, öryrkja og aldraðra og aðra þá aðila sem efni standa til um aðgerðir til að tryggja efnahagslegan stöðugleika. Slíkt víðtækt samráð er til þess fallið að undirstrika hve mikið er í húfi. Fólkið í landinu á þegar öll kurl koma til grafar mest undir því að verðbólga og óstöðugleiki í efnahagsmálum heyri sögunni til. Ástandið bitnar að lokum á almenningi í formi lakari lífskjara, ótryggari atvinnu, þyngri skuldabyrði og þar fram eftir götunum.

Frú forseti. Staða efnahagsmála, staða útflutningsgreinanna, staða atvinnulífsins vítt og breitt um landið er mikið áhyggjuefni um þessar mundir. Þó að nú sé gumað af miklum tekjum ríkissjóðs, sem að stórum hluta verða til vegna skattlagningar á viðskiptahalla og einkaneyslu, þá eru það ekki varanlegir tekjustofnar. Við eigum að snúa okkur að því að grípa til aðgerða sem treysta og byggja upp aftur fjölbreytt atvinnulíf, styðja við útflutningsgreinarnar þannig að þær fái eðlilegt rekstrarumhverfi og verði samkeppnishæfar á mörkuðum erlendis. Fólk sem stundar hér atvinnu, hvort sem það er í fiskvinnslu, ferðaþjónustu, hátækniiðnaði eða í sprotafyrirtækjum, á líka að hafa eðlilega samkeppnisstöðu hér innan lands svo að fyrirtækin þurfi ekki að flytja starfsemi sína úr landi eins og nú er raunin. Það er brýnt að taka á þessu og helst strax.

Frú forseti. Ég hef lokið máli mínu.