132. löggjafarþing — 21. fundur,  15. nóv. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[17:52]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það sem ég geri í þessari samantekt er að taka umrædd fimm ár og bera saman fjárlögin eins og þingið afgreiddi þau og síðan ríkisreikninginn eins og hann lítur út bæði á tekju- og gjaldahlið. Útkoman er þessi. Ég tel þá rétt, ef okkur greinir eitthvað á um hvað er rétt í þessu efni, að hæstv. fjármálaráðherra hafi tilbúið fyrir 3. umr. fjárlaga úttekt sína og skoðun á þessu máli og við fengjum þetta jafnvel til fjárlaganefndar og efnahags- og viðskiptanefndar til að skoða svo við getum metið hvað er rétt og satt í þessu máli. Þetta er það sem ég kemst næst miðað við að hafa skoðað málið og borið þetta saman á þann hátt sem ég gerði.

Virðulegi forseti. Mér blöskrar svo þessi útkoma að mér finnst það óásættanlegt að ekkert verði gert í þessu efni, hvernig sem menn vilja þá taka á því. Ég heyri að hæstv. ráðherra er opinn fyrir að við fáum betri og gleggri skýringar á því hvað hefur farið úrskeiðis á tekju- og gjaldahlið, þannig að við getum lært eitthvað af þessu. Það er óþolandi að við séum ár eftir ár að fara yfir málið með þessu móti án þess að menn geri einhverjar tilraunir til að bæta úr, bæði að við fáum betri og gleggri skýringar á þessu og tekið verði á þeim uppsafnaða vanda frá fyrri árum með markvissari hætti en gert hefur verið, þannig að við þurfum ekki að fá svona fjáraukalög eins og við erum alltaf að ræða.

Ég vil segja varðandi Seðlabankann að hæstv. ráðherra verður að átta sig á því að verðbólgumarkmiðin sem Seðlabankinn setur eru ekki bara verðbólgumarkmið Seðlabankans heldur á ríkisstjórnin að þurfa að fylgja þeim markmiðum. Þess vegna kemur sá mismunur sem er í spá Seðlabankans mér mjög á óvart, ekki síst varðandi einkaneysluna, sem hefur afgerandi áhrif (Forseti hringir.) á tekjuforsendur fjárlaga.