132. löggjafarþing — 21. fundur,  15. nóv. 2005.

Breyting á XVIII. viðauka við EES-samninginn.

287. mál
[18:05]
Hlusta

utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Með þessari þingsályktunartillögu sem nú hefur verið tekin á dagskrá er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 44/2004, um breytingu á XVIII. viðauka við EES-samninginn, og fella inn í samninginn tilskipun 2003/72, um viðbætur við samþykktir fyrir evrópsk samvinnufélög að því er varðar aðild starfsmanna.

Eins og með fyrri ákvörðun er gerð grein fyrir efni hennar í tillögunni og er hún prentuð sem fylgiskjal með henni ásamt þeirri tilskipun sem hér um ræðir. Í tilskipuninni er kveðið á um aðild starfsmanna að evrópskum samvinnufélögum. Tilskipuninni er ætlað að vernda rétt starfsmanna til aðildar að málum og ákvörðunum sem snerta starfsemi evrópskra samvinnufélaga.

Reglugerð um samþykktir fyrir slík félög var tekin upp í EES-samninginn í febrúar 2004 og er umrædd tilskipun henni til nánari uppfyllingar. Í félagsmálaráðuneytinu er nú unnið að undirbúningi innleiðingar tilskipunarinnar.

Ég legg til, herra forseti, að þessari tillögu verði að lokinni þessari umræðu vísað til síðari umr. og hv. utanríkismálanefndar.