132. löggjafarþing — 22. fundur,  16. nóv. 2005.

Framlagning stjórnarfrumvarpa.

[12:06]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Ég tel alveg ástæðulaust fyrir hv. þingmann að hafa áhyggjur af starfi ríkisstjórnarinnar eða starfi stjórnarflokkanna að þessu leyti. Það hefur gengið mjög vel að afgreiða mál í ríkisstjórn og það eru engin biðmál þar á dagskrá. Það hefur líka gengið mjög vel að afgreiða mál í þingflokkunum. Ég veit ekki um nein vandamál þar.

Það er eins og gengur að fyrir Alþingi liggja mörg mál. Það á eftir að mæla fyrir mörgum málum og allmörg mál eru í vinnslu í nefnd. Það er engin sú neyð uppi á neinu sviði að það sé ástæða til að óttast að ákveðin mál nái ekki fram að ganga fyrir jól. Það gengur mjög vel með fjárlögin og fjáraukalögin. Það er allt á áætlun. Það eru þau mál sem mestu máli skipta. Síðan verður að sjálfsögðu að ráðast hvað verður hægt að afgreiða fyrir jólahlé. Það sem mestu máli skiptir eru þau mál sem fylgja fjárlögunum og fjáraukalögunum. Það eru þau sem við leggjum nú sem endranær mesta áherslu á en ég vil biðja hv. þingmann að sofa bara vel og vera ekki að hafa þessar miklu áhyggjur sem hún virðist hafa af starfi ríkisstjórnarinnar. Það er algerlega ástæðulaust.